12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Guðmundur Ólafsson:

Hann fer að verða langur, umræðuparturinn, ef alt þetta verður prentað.

Jeg sje eftir, að jeg fór að minnast nokkuð á 1. landsk. (SE). Hann talaði að vísu mjög fallega um landbúnaðinn og fór fögrum orðum um að leggja honum lið og styrk sinn. En mjer þótti minna varið í ráðin til þess. Met jeg að litlu fögru orðin um stuðning við landbúnaðinn, þegar þm. legst á móti landbúnaðinum í verki. En þó viðurkenni jeg, að hv. 1. landsk. (SE) hefir mörgum þm. fremur verið alvara stundum áður með að styrkja landbúnaðinn. Hefir honum þó nú missýnst í þessu máli. Hv. 1. landsk. (SE) veit, að rökstudd dagskrá, þótt munnleg sje, er sama sem að fella málið. Er hún ekki nokkur hvöt fyrir stjórnina að aðhafast neitt í málinu.