09.04.1924
Efri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

127. mál, sala sjávarafurða

Flm. (Ingvar Pálmason):

Á undanförnum árum hefir það verið óljós grunur mjög margra hinna smærri útgerðarmanna hjer á landi, að við Íslendingar fengjum að mun lægra verð fyrir fisk okkar en vera ætti, eftir markaðsverði á honum í þeim löndum, sem hans er neytt, og að þetta stafaði af skipulagsleysi á fisksölunni.

Á síðastliðnu ári hefir fengist staðfesting á þessum grun, bæði frá manni, sem kynt hefir sjer þetta mál á Spáni síðastliðið sumar, af eigin hvöt og áhuga fyrir sjávarútveginum og velferð hans, en þó einkum og sjer í lagi frá manni, sem sendur var til Spánar af bönkunum og Fiskifjelagi Íslands, til þess að rannsaka fisksölumálið. Og það mun álit margra, að sá maður, er til sendiferðarinnar var valinn, sje flestum Íslendingum fróðari í öllu því, er snertir fisksölu, og hafi fyrir sjerstaka aðstöðu manna best skilyrði til þess að rannsaka alt, er að því máli lýtur, og jafnframt gera ábyggilegar ályktanir.

Nú er það vitanlegt orðið, að sendimaður þessi hefir komist að þeirri niðurstöðu, að fiskframleiðendur hjer hafi síðastliðið ár fengið alt að 5 milj. krónum minna fyrir fisk sinn, þann, er seldur var til Spánar og annara Miðjarðarhafslanda, en þeim bar eftir markaðsverði þar syðra, og að mestur hluti þess fjár hafi lent hjá útlendum fiskkaupmönnum. Þetta kemur alveg heim við þær upplýsingar, er jeg hefi fengið frá manni þeim, er jeg gat um áðan, að hefði af eigin hvötum kynt sjer þetta mál á sama tíma. Jeg verð að telja sennilegt, að meirihluti af hinu umrædda verðtapi fiskjarins hafi komið niður á hinum smærri útveg vorum, þ. e. a. s. róðrarbátum og minni mótorbátum, því að sá útvegur hefir að mörgu leyti verri aðstöðu til þess að njóta hinnar bestu sölu en stórskipaútvegurinn, en þó framleiðir hann um helming alls þess fiskjar, sem við flytjum á erlendan markað, eins og jeg mun sýna fram á. Sá mikli misskilningur virðist vera að koma inn hjá þjóðinni, að smábátaútvegurinn sje ekki eins mikilsverður og stórskipaútvegurinn. Margir virðast meira að segja líta svo á, að það sje stórskipaútvegurinn, botnvörpungarnir og þilskipin, sem aðallega beri uppi atvinnuna við sjávarsíðuna, og standi því jafnframt undir aðalgjaldabyrðum ríkisins. Þetta er háskalegur misskilningur, því að síðustu hagskýrslur, sem út eru komnar, sýna einmitt hið gagnstæða. Það ár skiftist allur þorskafli niður á skip og báta þannig: róðrarbátar og vjelbátar undir 12 smál. 49,7%, vjelskip yfir 12 smál. og þilskip 19,6%, botnvörpuskip (27 alls) 30,7%. Og er þar með talinn ísfiskur botnvörpuskipanna, en ótalinn er aftur allur sá fiskur, sem neytt er innanlands, og sem vitanlega er að langmestu leyti veiddur á róðrarbáta og smærri mótorbáta. Athugi maður atvinnuna, sýna hagskýrslurnar, að þorskveiðar hafa stundað sama ár 6380 menn á samtals 1002 róðrarbátum og 355 vjelbátum, minni en 12 smál. Á þilskipum, þar með taldir vjelbátar yfir 12 smálestir, og botnvörpungum, samtals 189 skipum, munu, eftir því sem sjeð verður af skýrslunum, hafa stundað veiðar alls um 2570 menn, en þar ber þess að gæta, að 34 af skipum þessum stunduðu einungis síld- og hákarlaveiðar, og 7 stunduðu síld- og hákarlaveiðar ásamt þorskveiðunum. Mun því sanni næst, að við þorskveiðar eingöngu á þilskipum og botnvörpuskipum hafi verið um 2200 manns; verða þá hlutföllin sem næst 1/3 á stærri útveginum, móti 2/3 á róðrarbátum og smærri vjelbátum. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi getað aflað mjer, munu þessi hlutföll milli stærri og smærri útvegsins lítið hafa breyst á síðustu árum.

Sje nú gert ráð fyrir, að atvinna við verkun aflans muni vera eftir sömu hlutföllum eftir aflaupphæðinni, sem síst mun vera bátaútveginum í vil, því að botnvörpungar flytja mikið af afla sínum út óverkað, bæði í ís ok upp úr salti, þá verður það ljóst, að það er hinn smærri útvegur vor, sem veitir langmesta atvinnu við sjávarsíðuna, og það er einnig hann, sem að mjög miklu leyti stendur undir gjaldabyrðinni til ríkissjóðs, og það er hann, sem með bættum skilyrðum og betri útbúnaði verður affarasælastur fyrir land og lýð. Það er því hann, sem löggjafarvaldið ætti sjerstaklega að styðja og verja skakkaföllum.

Á eitt vil jeg benda enn, og það er, að í smábátaútveginum stendur langtum minna fje, hlutfallslega eftir framleiðslumagni, en í stórskipaútveginum. Hefir hann því verið og mun altaf verða hættuminni fyrir lánsstofnanir okkar en stórskipaútvegurinn. Þegar þess er gætt, að þær 6 milj. kr., sem ætla má, að við höfum tapað fyrir skipulagsleysi á fisksölunni síðastliðið ár, munu nema ekki minna en 1/6–1/7 alls andvirðis útflutts fiskjar 1923, þá sjáum við, hve geysilegu tjóni skipulagsleysið veldur, og hljóta því allir að sjá, að við slíkt er ekki hægt að una. Hjer verður því að taka til alvarlegra og ákveðinna ráðstafana, ef fjárhag einstaklinganna og ríkisins á að verða nokkurrar viðreisnar auðið. Nú má ekki lengur láta reka á reiðanum í þeirri fánýtu trú, að alt lagist af sjálfu sjer. Verði það ástand, sem ríkt hefir undanfarið, látið haldast óbreytt, eigum við á hættu að tapa árlega svo miljónum króna skiftir í hendur útlendra gróðabrallshringa, og að með hverju ári, sem líður, verði erfiðara að kippa þessu máli í rjett horf.

Að því er snertir síldarsöluna, skal jeg viðurkenna, að jeg er því máli ekki eins kunnugur, því að jeg hefi ekki gert mjer far um að kynna mjer það eins vel. En benda má á, að fyrir fáum árum höfum við orðið fyrir geypilega miklu tjóni, bæði beint og óbeint, fyrir skipulagsleysi á sölu þeirrar vörutegundar, svo miklu tjóni, að við erum nú að súpa seyðið af því, ok við eigum óefað eftir að súpa margan beiskan sopa af þeim drykk, áður en honum er lokið.

Slíkt tjón getur komið fyrir aftur, ef ekki er við gert, og gæti þá jafnvel svo farið, að það riði fjárhag okkar að fullu. Að minsta kosti er áreiðanlegt, að marga slíka skelli þolum við ekki.

Þegar um það er að ræða að koma skipulagi á sölu sjávarafurða, þá má vel vera, að um margar leiðir sje að ræða, en jeg get ekki sjeð, að sje nema um tvær leiðir að ræða, sem unt er að fara. Fyrri leiðin er lögskipuð útflutningsnefnd, með víðtæku íhlutunarvaldi um alla sölu afurðanna, er feli í sjer neitunarvald fyrir sölunni um vissan tíma, ef nauðsyn krefur, eftir föstum fyrirmælum reglugerðar, er þar um væri sett. Hin leiðin er einkasala ríkisins á öllum sjávarafurðum. Fyrri leiðina tel jeg, að við eigum að fara, og til þess bendir þáltill. sú, er hjer liggur fyrir. Fyrir þeirri leið höfum vjer dálitla reynslu frá nefnd þeirri, er skipuð var hjer árið 1918, og mjer er óhætt að fullyrða, að meginþorri smærri útgerðarmanna úti um land telur, að sú nefnd hafi unnið sjávarútveginum ómetanlegt gagn, og að þeir álíta, að skipun slíkrar nefndar sje það, sem nú verði að framkvæma, er fisksala vor á ekki að lenda í höndum útlendra braskara og fjeglæframanni áður en við vitum af.

Nú hefir hæstv. Alþingi afgreitt tvenn lög um aukna tolla, sem sje lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka, og lög um bráða birgðaverðtoll á nokkrum vörutegund um. Tollaukar þessir nema, eftir áætlun hæstv. stjórnar, 1½ milj. króna, sem auk þeirra álagna, sem fyrir voru, en nú að nýju lagðir á þjóðina. Þess aukna gjaldabyrði kemur að mjög miklu leyti bæði beint og óbeint niður á sjávarútveginum. Þar eð tollurinn er neyslutollur, hlýtur hann óumflýjanlega að auka dýrtíð og þar af leiðandi að valda kauphækkun. Þeir, sem við sjávarsíðuna búa og lifa af sjávarútvegi, eiga mjög erfitt, ef ekki alveg ómögulegt með að neita sjer um margt af þeim vörum, sem tollurinn fellur á. Það virðist því öll sanngirni mæla með því, að þegar slíkri geypilegri gjaldabyrði er varpað á þjóðina, þá sje einnig um leið rannsakað, með hverjum hætti gjaldþegnunum verði trygt sannvirði fyrir starf þeirra og framleiðslu. Í þá átt stefnir tillaga sú, er jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram, og sem nú er hjer til umræðu. Jeg ber það traust til hv. deildar, að hún sjái, hvílíkt lífsnauðsynjamál hjer er um að ræða, og samþykki þáltill. þessa. Og þótt jeg beri ekki mikið traust til þeirrar hæstv. stjórnar, sem nú situr við völd, þá vona jeg þó, að jeg megi bera svo mikið traust til hennar, að hún, eftir að hafa lagt svo óvenjumikið kapp á að keyra í gegnum þingið tollaukalög, er krefja hina örmagna gjaldþegna um eina miljón króna í ríkissjóð í viðbót við það, sem áður hefir verið, að hún þá um leið telji sjer skylt og ljúft að tryggja þessum sömu gjaldþegnum sannvirði fyrir framleiðslu þeirra og vinnu, og að hún vilji ekki horfa á það aðgerðalaus, að þeir sjeu árlega sviftir svo miljónum króna skiftir af sínum rjettmætu tekjum af útlendum braskaralýð og fjárglæframönnum.

Jeg fel svo hv. deild þessa till. í þeirri von, að hún sjái, hvílíkt nauðsynjamál hjer er um að ræða, og samþykki hana því góðfúslega.