09.04.1924
Efri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

127. mál, sala sjávarafurða

Jóhann Jósefsson:

Sem sjávarútvegsmaður er jeg hv. flm. (IP) þakklátur fyrir þann áhuga, sem hann sýnir á því að greiða fyrir sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn bæði á það skilið, og það er nauðsynlegt fyrir hann að eiga málsvara á Alþingi, bæði til þess að benda á, hve þýðingarmikill hann er fyrir þjóðina, og líka til þess að sýna fram á, hve nauðsynlegt það er fyrir þjóðina í heild sinni, að þingið styðji hann með viturlegri löggjöf.

Jeg er hv. flm. (IP) sammála um margt af því, sem hann sagði um þýðingu smærri útvegsins fyrir landið. Þó er þýðing hans nokkuð misjöfn fyrir hina ýmsu landshluta. Ef vjer t. d. tökum Reykjavík, þá er ekki hægt að segja annað en það sje eðlilegt, að menn hjer beri stórútveginn einkum fyrir brjósti. Enda er svo komið hjer við Faxaflóa, að smærri útgerðin hefir orðið að þoka þvínær algerlega fyrir hinni stærri. Eftir að fiskimiðin næst landinu tæmdust að fiski, hefir orðið að breyta til og hverfa frá smábátunum til haffærra skipa, og frá seglskipum til gufuskipa. Og ef íslensk útgerð á að eiga framtíð fyrir höndum, þá mun víðar verða að koma breyting í sömu átt, þannig, að menn hætta að nota smábáta til fiskiveiða, en taka að nota stærri og betur útbúin skip, sem hentugri eru til langsókna.

Að því er viðvíkur höfuðefni till., þá finst mjer hún fela í sjer það, sem komið hefir hjer fram áður, þó í annari mynd hafi verið. Jeg á þar við frv. þau um einkasölu á sjávarafurðum, sem borin hafa verið fram, bæði á þinginu í fyrra og svo aftur á þessu þingi, sem nú stendur yfir, enda var einkasala önnur leiðin sem hv. flm. sagðist sjá til þess að koma skipulagi á sölu sjávarafurða, þótt hann hinsvegar segðist síður vilja velja þá leið.

Hv. flm. sagðist sjá tvær leiðir til þess að koma skipulagi á sölu sjávarafurða. — Skipulag er víðtækt orð, og það er fallegt orð, sem má nota um margt. Það þarf ekki að rígbinda það við einkasölu, en það getur líka þýtt einkasala, enda kom það fram hjá hv. flm. eins og jeg þegar hefi drepið á, að hann telur einkasölu aðra af þeim tveim leiðum, sem hann telur tiltækilegar til þess að koma skipulagi á söluna.

Viðvíkjandi því tapi, sem hv. flm. benti á, að orðið hefði á fisksölunni, vil jeg benda á það, að þar er aðeins um staðhæfingu að ræða, sem komin er, að sögn, frá sendimanni landsins á Spáni. Mjer finst rjett að geta þess í þessu sambandi, að jeg hefi spurt þennan sendiherra, hvort þetta tap væri að kenna skipulagsleysi á sölunni. Hann sagði, að það væri ekki rjett farið með sín orð í þessu sambandi, og jeg veit, að svo er. Jeg þykist vita, að hv. flm. hafi þó ekki rangfært neitt, heldur heimildarmenn hans. Það má vel vera, að eitthvað mætti bæta og liðka söluna með góðum ráðum, en það mál þarf mikillar og vandlegrar íhugunar með. En jeg verð að segja það, að jeg hefi ekki neina bjargfasta trú á því, að það mundi verða til bóta, þótt fisksalan væri tekin úr höndum frjálsrar verslunar svo „initiativ“ einstaklingsins fengi ekki notið sín, sakir þess, að lagðir væru steinar í götu þess af íhlutunarvaldi hins opinbera. Hitt kysi jeg heldur, að löggjafinn leitaðist við að styðja tilraunir einstaklinganna til þess að finna nýja markaði fyrir vörumar í útlöndum. Og svo á það í raun og veru að vera. Löggjafinn á að styðja framkvæmdir einstaklinganna, en ekki að leggja alt í þær viðjur, að áhugi og framtakssemi einstaklingsins fái litlu eða engu um þokað.

Hv. flm. gat þess, að við hefðum beðið mikið tjón af völdum útlendra braskara og fjárglæframanna. Þetta er orðinn mjög algengur „Frase“, og verið notaður meðal þeirra manna, sem eru andvígir allri frjálsri verslun. Þeir virðast telja alla menn, bæði útlenda og innlenda, sem vinna á grundvelli frjálsrar verslunar, vera braskara, eða fjárglæframenn.

Það má vel vera, að hv. flm. þekki marga slíka menn, sem hafa fengist við fiskverslun, en jeg hefi ekki komist í kynni við marga slíka menn, og hefi jeg þó allmikið fengist við að selja fisk, bæði fyrir sjálfan mig og aðra. Mjer finst það því alls ekki rjett að demba slíkum nöfnum á heilan flokk manna, sem auðvitað eru flestir heiðarlegir menn, þótt undantekningar finnist náttúrlega í þeim flokki eins og öðrum. Hitt er vitanlegt, að það hafa ekki allir spunnið silki á því að kaupa eða selja fisk. En það er eins og gengur og gerist í lífinu. Sumir tapa og aðrir græða, og menn tapa máske á einu fyrirtækinu, þó þeir græði á öðru, án þess að um nokkra fjárglæfra sje að ræða.

Viðvíkjandi sjálfri till. skal jeg geta þess, að jeg hefði kosið, að sjávarútvegsnefnd hefði fengið að ræða hana, því hún felur margt í sjer, og þetta mál þarf, að mínum dómi, vandlegrar íhugunar við. En úr því að till. er komin hjer fram í deildinni, án þess að sjávarútvegsnefnd hafi gefist kostur á að athuga hana, þá leyfi jeg mjer að óska þess, að þessari einu umræðu verði frestað og málinu vísað til sjávarútvegsnefndar.