30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Eins og nál. á þskj. 466 ber með sjer, hefir ekki orðið samkomulag um það í sjútvn., hvernig þessi þáltill. ætti að koma fram, nokkuð að því er snertir efni, enda líka form. Þessi mismunur á skoðunum í nefndinni átti aðallega rót sína í því, að hv. flm. (IP) flutti hana samkvæmt þeirri skoðun, að fiskversluninni væri betur fyrir komið þannig, að ríkið hefði sem mesta íhlutun um hana, þó hann lýsti yfir því fyrst við umr. þessa máls, að hann vildi heldur útflutningsnefnd en einkasölu.

Þessi trú manna á það, að ríkisverslunin sje heppilegt verslunarfyrirkomulag, virðist vera grundvöllur fyrir framkomu þessarar þáltill. og annara till. sem miðað hafa í sömu átt. Frv. til laga um einkasölu á fiski eða sjávarafurðum, sem áður hafa komið fram, eiga rót sína að rekja til sömu trúar.

Jeg tek það fram, að sjútvn., og jeg sem frsm. meirihl., tölum í þessu sambandi um þorskfiskiútveginn, en ekki síldarútveginn. Það er langt frá, að okkur detti í hug að halda því fram, að verslunin með sjávarafurðir sje í svo góðu lagi, að ekki sje mikilla umbóta þörf á því sviði: en jeg held ekki, að úr annmörkunum verði best bætt með ríkisíhlutun eða ríkiseinokun. Meirihl. nefndarinnar fullyrðir ekkert um það, að útflutningsnefnd geti ekki orðið til einhvers gagns, meira að segja er líklegt, að hún gæti orðið gagnleg í sumum tilfellum. Hitt er annað mál, að slík nefnd gæti í öðrum tilfellum verið varhugaverð og það er víst, að nefndin væri mjög takmörkuð í sínu starfi, þó hún hefði vald til að banna sölu eða útflutning, ef ekkert væri til á bak við hennar vald, enginn, sem bæri ábyrgð á afleiðingum þeim, sem af slíkum tálmunum viðskifta gæti leitt, enginn sjóður eða nein peningaráð til að bæta upp halla einstaklinga, þó raunverulegur yrði af tálmunarafskiftum nefndarinnar.

Þessir annmarkar hafa, að því er jeg best veit, einkum verið taldir til foráttu útflutningsnefnd með valdi til að stöðva fisksölu eða banna hana um stundarsakir.

Tillögur erindrekans á Spáni, um útflutningsnefnd, hafa að vísu ákvæði, sem á að minka áhættuna af sölustöðvun útflutningsnefndar eða sölubanni hennar. En að því er jeg fæ best sjeð, verður ekki heldur hægt með þessu umgetna ákvæði að koma í veg fyrir mikla áhættu í þessu efni. Erindrekinn gerir sem sje ráð fyrir því, að nefndin, um leið og hún banni sölu á ákveðnu fisk- „partíi“, þá megi hún sjálf reyna að útvega sama eða helst hærra verð fyrir fiskinn; og það er fyrst eftir að henni mistekst það, að rjettur aðili eða eigandi fiskjarins getur fengið leyfi til að selja fyrir það verð, sem hann átti kost á í byrjun.

Allir, sem til sölu á fiski þekkja, vita, að það er ekki oft, að maður getur haft marga daga til að ákveða sig, hvort maður taki boði eða ekki. Nefndin þarf sinn tíma til að rannsaka, hvernig kauphorfur eru o. s. frv., og mistakist henni, hefir tíminn farið til ónýtis. En á þeim tíma getur því boði, sem viðkomandi maður átti kost á, hafa verið kipt til baka. Um það leyti sem nefndin gefur fiskinn frjálsan til sölu, getur verðið verið orðið lægra eða þó verðið hafi ekki í sjálfu sjer lækkað, getur kaupandinn hafa fengið fisk annarsstaðar að — hann þarf ekki endilega að vera íslenskur — og yrði þá fiskútflytjandinn hjer af sölunni. Það þekkja allir, sem komið hafa nálægt fisksölu, að það er mjög sjaldan, að menn geta beðið lengi að taka boði, án mikillar áhættu að missa af því. Hver á nú að bæta fiskútflytjanda þann skaða, er hann verður fyrir á þennan hátt? Eða á hann að hafa sinn skaða svo búinn? Segja má, að hið opinbera ætti að bæta skaðann, og hætt er við, að skaðabótakröfur yrðu þá nokkuð tíðar. Hinsvegar, ef hver ætti að hafa sinn skaða svo búinn, er það víst, að fljótt kæmi fram megn óánægja, og nefndin og ráðstafanir hennar yrðu ekki lengi vel þokkaðar.

Annars er það því sem næst óhugsandi, að ríkið megi, með því að hefta eða á einhvern hátt að banna sölu á afurðum, gera eiganda tjón með ráðstöfunum sínum, án þess því beri skylda til að bæta það tjón að fullu.

Þetta er tekið fram til að benda á þá annmarka, sem maður sjer í fljótu bragði á skipun slíkrar útflutningsnefndar. Þeir geta verið og eru sjálfsagt fleiri. T. d. er líklegt, að nefndin yrði hjer skipuð mönnum, sem sjálfir fást við fiskútflutning; þeir myndu taldir hæfastir í slíka nefnd, að því er til sjerþekkingar kemur, en það yrðu menn, sem hefðu einkahagsmuna að gæta. Mundi aðstaða þeirra manna því að ýmsu leyti verða, vægast sagt, afar erfið, og hætt er við, að almenningur út um landið vildi rekja rót þeirra skakkafalla, sem ef til vill kæmu fyrir — og óhjákvæmilegt er að kæmu fyrir á einhvern hátt — til þess, að nefndarmennirnir hefðu svo mikilla hagsmuna að gæta fyrir sjálfa sig. Þetta er mál, sem þarf að athuga nákvæmlega; en eins og jeg hefi tekið fram, álít jeg þetta ekki óhugsandi leið, að skipa slíka nefnd, en jeg áleit rjett, við þessa umr., að benda á helstu annmarkana, sem jeg tel fylgja henni.

Hvað verðið innanlands snertir, og áhrif þau, sem útflutningsnefnd gæti haft á það, er það að segja, að nefndin gæti sennilega oft ýtt því upp, með því að ráða mönnum frá sölu við of lágu verði; en þetta gæti hún líka, þó hún væri aðeins ráðunautur, sem gæfi hverjum framleiðanda þær upplýsingar, er hún vissi rjettastar á hverjum tíma, en hefði ekki það vald, sem ætlast hefir verið til, þegar menn tala um útflutningsnefnd. Vitaskuld væri vald hennar áhrifameira, ef hún mætti beinlínis banna útflutning, þegar henni sýndist, en eins og áður er sagt, yrði það ekki annmarkalaust.

Þetta, sem nú hefir sagt verið, nægir til þess að benda á, að útflutningsnefnd getur að sumu leyti verið til gagns, en einnig gæti hún oftlega unnið ógagn hagsmunum þeirra, sem hún væri sjerstaklega sett til að vernda. Og þetta er ofur eðlilegt. Þó nefndin að sjálfsögðu hefði ávalt bestu markaðsupplýsingar við hendina og bestu skilyrði til að vita, hvað hyggilegast væri að gera, yrði henni, eins og öðrum, erfitt að geta rjett til um það, hvaða breytingum ástand markaðsins kynni að taka, jafnvel í nálægri framtíð. Hún mundi ekki hafa betri markaðsupplýsingar og fregnir ávalt við hendina en stórútflytjendur venjulega hafa. Og þegar þessum mönnum getur stórkostlega skjöplast, er ekki óhugsandi, að hið sama gæti hent útflutningsnefnd. Trygging yrði því engin fyrir því, að nefndin gerði það eitt eða legði það eitt til, sem viturlegast væri.

Ef við nú lítum á síðastliðið ár, þá hefir hv. flm. (IP) talið það sannað, að verðið hafi verið hærra á Spáni en svo, að það rjettlætti það verð alment, sem selt var fyrir hjer heima.

Rjett er að geta þess, að í skýrslu erindrekans frá 16. des. 1923, er sjerstök áhersla lögð á það, að þetta geti helst hafa stafað af ókunnugleika manna hjer heima um verðlagið eins og það var á Spáni í fyrrasumar, og að þeir þessvegna hafi gert of lágar verðkröfur fyrir fiskinn. Sje þessa rjett til getið, er það ljóst, hversu áríðandi það er á öllum tímum, að við fylgjumst með horfum og ástandi fiskimarkaðarins. Þó er það sennilegt, að sumir útgerðarmenn hafi vitað um það, að verðið hjelst það sama í alt fyrrasumar, en alment hafa menn þó sjálfsagt ekki vitað það.

Stór verslunarhús, sem hljóta að hafa farið nærri um verðlagið, seldu á þeim tíma fyrir þetta lága verð, sem yfirleitt þektist.

Hv. flm. (IP) mintist á það í framsögu þessa máls, að talið væri, að við hefðum beðið mikið tjón af fisksölu í fyrrasumar, og það væri að kenna skipulagsleysi á sölunni. Jeg hefi kynt mjer skýrslur þær, sem þessi fullyrðing er bygð á, og jeg held að óhætt megi segja, að það orki talsvert tvímælis, að niðurstaða skýrslugefanda sje rjett. En ósamræmi virðist samt hafa verið á verðinu hjer og á Spáni. Og þetta ósamræmi verður því óskiljanlegra, þegar maður athugar, hvað erfitt var í fyrrasumar að fá verðinu þokað upp. Kaupendur sóttust jafnvel eftir að fá ódýrari tegundirnar, þar sem undanfarið hefir verið frekar sóst eftir betri tegundunum, og örðugt að koma út lakari tegundunum, nema svo og svo miklu af hinum með.

Líklegt er, að ef rjett er talinn sá gróði, sem sagt er, að spönsku kaupmennirnir hafi úr býtum borið í fyrra, að þeir hefðu verið fúsari á að kaupa fyrir hærra verð en raun varð á, og hefði þeirra hlutur orðið allsæmilegur fyrir því, en svo var ekki. Þessi mikli hagnaður, sem álitið er að þeir hafi haft af viðskiftunum, sýndist ekki freista þeirra til að fara í nein kapphlaup um fiskinn. Þeir voru ákaflega tregir með verð. Maður getur freistast til að álíta, að hjer hafi föst samtök hjá þeim, um að halda verðinu niðri, legið til grundvallar. Það hefir stundum hjer fyr á árum heyrst talað um samtök meðal Spánverja í þessa átt, en þau hafa, að sögn, oftast sprungið, einstakir kaupendur skorist úr leik og ekkert orðið úr þessu nema umtalið, ef það þá hefir verið meira en kvittur einn. En í fyrra heyrðist ekki talað um neitt slíkt Jafnvel spánskir kaupmenn, t. d. frá Sevilla, komu til Íslands og gerðu kaup á fiski, og var það verðlag sem þeir töldu viðunandi, ekki í neinu verulegu ósamræmi við það, sem alment tíðkaðist. Vitanlegt er líka, að hinir stærri hjerlendu útflytjendur hafa sína eigin umboðsmenn á Spáni víðsvegar, og er einkennilegt, hvað þeir hafa verið lítilþægir, ef þeim, og þar af leiðandi umbjóðendum þeirra hjer, hefði verið kunnugt það markaðsverð, sem lagt hefir verið hjer til grundvallar.

Þegar því er haldið fram, að víðtæk ríkisíhlutun um fisksöluna eða jafnvel ríkiseinokun mundi til frambúðar vera til bóta fiskversluninni, þá virðast menn gleyma því að við getum engar reglur sett neytendum eða kaupendum fiskjarins, þó við með lagaboði getum skipað þeim málum hjer. Einokun er, að því er jeg best þekki til, ekki ofarlega á blaði hjá þeim þjóðum, sem við eigum mest skifti við, hvorki í þessu efni eða öðru. Þessvegna er jafnvel eðlilegt, að þeim þjóðum, sem við eigum skifti við, stæði óhugur af þessháttar ráðstöfunum, og gerðu svo sínar ráðstafanir eða mynduðu hring til þess að vinna á móti íslenskum fiski, ef þeir yrðu þess áskynja, að við ætluðum að halda verðinu uppi með þvingunarlögum, og þannig vildum brjóta í bág við hin óskráðu lög allra viðskifta, um framboð og eftirspurn, og þau áhrif, sem þetta tvent hlýtur ávalt að hafa á alt verðlag. Yrði þetta til þess, að þeir sneru sjer frekar til þeirra keppinauta okkar á markaðinum, sem hafa nærfelt eins góða eða alveg eins góða vöru að bjóða og við. Og þeir keppinautar eru til, þess göngum við ekki duldir. Gæti svo farið, að okkur þætti einhverntíma ver farið en heima setið.

Því atriði má ekki gleyma, að ráðstafanir, sem við kynnum að gera til þess að hindra frjálsa verslun, verða aldrei bindandi fyrir aðrar þjóðir, sem við skiftum við; við getum með því aðeins lamað okkar eigið viðskiftalíf.

Mjer dettur ekki í hug eins og jeg tók fram áður, að halda því fram, að fiskverslunin sje í svo góðu lagi, að ekki þurfi umbóta við. Jeg átti kost á því, þegar fjárlögin voru hjer til umræðu, að minnast á nauðsyn þess, að landið hefði að minsta kosti einn mann sem erindreka í Miðjarðarhafslöndunum. Hann ætti að hafa með höndum upplýsingastarfsemi, gefa skýrslur um verð o. s. frv. þetta þarf stjórnin að athuga með aðstoð þeirra manna, sem kunnugastir eru þessari verslun, og hagnýta það úr tillögum hans, sem menn búast við að orðið geti til bóta.

Þegar maður lítur á málið frá almennu sjónarmiði, þá er mjög æskilegt, eins og hv. 5. landsk. (JJ) tók rjettilega fram hjer í hv. deild fyrir skömmu, að ungir og áhugasamir Íslendingar vendu komur sínar til Spánar og annara landa, sem við seljum fisk, frekar en hingað til hefir átt sjer stað. Því það er mjög nauðsynlegt yfirleitt, og ekki hvað síst að því er fiskverslun snertir, að fá sem allra nánust kynni af löndum þeim og þjóðum, sem skift er við. Jeg heyri nú sagt, að úr þessu sje að rætast, og að nú sje t. d. ungur og efnilegur maður við nám suður á Spáni. Þetta er mjög gleðilegt, því að slíkir ungir menn eru líklegir til að vinna þjóðinni mikið gagn, hvort sem þeir síðar kunna að verða erindrekar landsins, eða þá, að þeir starfi fyrir sjálfa sig eða einstök fjelög. Þykir mjer í þessu sambandi rjett að taka það fram, að jeg lít svo á, að þegar við sendum menn utan í markaðsleit, þá eigum við einkum að velja til þeirra ferða unga menn og áhugasama. Þeir eru miklu líklegri til þess að verða þjóðinni að gagni, ekki aðeins vegna launanna, sem þeir fengju fyrir starfa sinn, heldur líka vegna metnaðar síns.

Þá er enn eitt atriði, sem líklegt er, að orðið geti fisksölunni til bóta, en það er samlagssala. Það er trúa mín, að hún, í stærri eða smærri stíl, geti orðið að gagni, þó að heppilegra muni vera, að hún yrði aðeins rekin í smærri stíl fyrst í stað. Með þessu er enganveginn sagt, að jeg teldi æskilegt, að myndaður yrði hringur eða „trust“, sem hafi alla fisksöluna á hendi; það yrði of umfangsmikið.

Tilraun í þessa átt var gerð árið 1920 með hinum svokallaða „Fiskhring“. Umboðsmenn hans reyndu að halda fiskinum í mjög háu verði suður á Spáni, og þetta hafði þær afleiðingar, sem alstaðar koma í ljós og að því er allar vörutegundir snertir, þegar verð þeirra er orðið of hátt: eftirspurnin eða neyslan minkar. Í þessu tilfelli minkaði hún svo mikið að þá entust þær birgðir í ½ mánuð sem venjulega ganga upp á viku. En þegar seljendurnir sáu, að við svo búið mátti ekki standa — og tóku að setja verðið niður, þá dugði ekki fyrsta og ekki önnur nje þriðja niðurfærsla. Fólk er yfirleitt lengur að átta sig á því, að vöruverð sje að falla en hækka. Hjer fór því svo, að fiskbirgðirnar, sem að jafnaði eiga að vera uppseldar á útmánuðum, entust fram í ágústmánuð, en afleiðing þessa varð aftur óhjákvæmilega sú, að næsta árs (1921) framleiðsla varð að keppa við fyrirliggjandi birgðir frá fyrra ári, í viðbót við aðra örðugleika, sem sölunni fylgdu.

Það er sagt, eins og jeg tók fram áður, að s. l. ár hafi verið mikið ósamræmi í fiskverðinu hjer og á Spáni. Þetta kann að nokkru leyti að vera rjett, en hvað svo sem skýrslu erindrekans líður, þá liggur beint við að álykta, að hið tiltölulega lága fiskverð hjer hafi orsakað, hversu fiskurinn gekk fljótt út, en það svo aftur haft í för með sjer hina líflegu eftirspurn eftir fiski, sem verið hefir síðan um s. l. nýár. Jeg vil ekkert fullyrða í þessu efni. en borið saman við reynsluna frá árunum 1920–1921, þá er þetta enganveginn ósennilegt.

Meirihl. nefndarinnar vildi með dagskrártill. sinni ganga langt á leið með hv. flm. þál. (JP). Þó að hann gæti ekki orðið honum samferða alla leið, vegna þess, að hann sá þess ekki nauðsyn. Með dagskránni er athygli hæstv. stjórnar beint að skipun útflutningsnefndar, eins og öðru í skýrslu erindrekans. Sá möguleiki er enganveginn útilokaður með dagskránni. Þá er athygli stjórnarinnar sjerstaklega beint að því í dagskr., að láta ekkert ógert til þess að tryggja íslenska fiskinum það öndvegi, sem hann hingað til hefir skipað á Spánarmarkaðinum.

Þó að svo færi, að þjóðin kæmist að þeirri niðurstöðu, að ríkinu bæri að taka einkasölu fiskjar í sínar hendur, sem jeg vildi óska, að ekki yrði í bráð. Því til þess þyrftu áður áreiðanlega að hafa steðjað miklir örðugleikar að fisksölunni, þá verður það eftir sem áður höfuðskilyrðið, að fiskurinn sje samkepnisfær. Ef svo er ekki, þá er höfuðatvinnuvegur vor, fiskframleiðslan, ekki lengur arðvænlegur, hvort sem sala fiskjarins er alveg frjáls, hálfheft eða í viðjum algerðrar ríkiseinokunar.