30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. minnihl. (Ingvar Pálmason):

Jeg skal leyfa mjer að fara örfáum orðum um nokkur atriði í ræðu hv. frsm. meirihl. (JJós). Nokkur hluti ræðu hans gekk reyndar út á það, sem jeg tel ekki beinlínis liggja hjer fyrir, sem sje, að rökræða um útflutningsnefnd. í þál. minni er aðeins skorað á hæstv. stjórn að rannsaka og gera ráðstafanir, sem bætt geti skipulag, eða kanske öllu heldur skipulagsleysi það, sem verið hefir á sölu sjávarafurða okkar Íslendinga, og einkum hefir orðið að áþreifanlegu tjóni hin síðari árin. Þetta er alt og sumt, sem felst í þessari háskalegu till., sem valdið hefir klofningi í sjútvn., og hv. meirihl. hefir brynjað sig svo vel á móti, að samþykt yrði í þessari mynd. Hv. frsm. (JJós) viðurkendi, að ólag hefði verið á fisksölunni undanfarið, og vildi ekki neita því, að stórtjón hefði af hlotist s. l. ár, eða a. m. k. viðurkendi hann, að jeg hefði heimildir fyrir mjer, þegar jeg hjeldi því fram, þó að hann reyndar vildi jafnvel draga það í efa, að þær væru allskostar rjettar. Jeg verð nú að segja, að þetta komi úr hörðustu átt, því að síðast, þegar fjárlögin voru hjer til umr. bar hv. frsm. (JJós) fram till. um að veita fje til þess að kosta erindreka á Spáni og í öðrum Miðjarðarhafslöndum, og er það almannamál, að ef að til þess komi, að maður verði sendur þangað suður í þessum erindum, þá verði til þess valinn hinn sami sem s. l. ár var erindreki okkar á Spáni. Nú er það svo langt frá því, að jeg amist nokkuð við því, að veitt verði fje í þessu skyni, þó að engum geti dulist, að þetta er ekki einhlítt bjargráð. En þegar við höfum í dag hlustað á hv. frsm. (JJós), þá vaknar sú spurning, hvort rjett sje að kasta miklu fje til slíkra erindreka, ef að rjettmætt er að segja við þá, þegar þeir senda stjórnarráðinu embættisskýrslur sínar: „Nei, góði minn. Það er ekkert að marka, hvað þú segir!“

Þó að jeg þekki mann þenna ekki neitt persónulega, þá ber jeg það mikið traust til hans, að jeg vil ekki trúa öðru en að hann gefi rjettar embættisskýrslur.

Úr því að það er nú viðurkent, að ólag hafi verið á fisksölunni undanfarið og að við höfum beðið margra miljóna tjón vegna skipulagsleysis í þessari grein s. l. ár, að dómi erindreka okkar á Spáni, og enda ekki beinlínis mótmælt af hv. frsm. (JJós), þá er spurningin: Er nokkuð hægt að gera, sem ráðið geti bót á þessu fyrirkomulagi? Er svo að sjá sem hv. meirihl. sjútvn. sjái til þess engin ráð.

Það getur vel verið, að mjer hafi ekki auðnast að benda á örugg ráð í þessu efni; en fyrst að það er sannað, að við höfum beðið miljónatap á fisksölunni s. l. ár, þá er skylda þingsins að knýja hæstv. stjórn til þess að gera alt, sem í hennar valdi stendur, svo að þessu verði afstýrt framvegis. Og jeg hefi gerst svo djarfur að benda á leið til þessa, þá, að stjórnin hafi örugt eftirlit með sölu fiskjarins hjer eftir. Hv. frsm. meirihl. (JJós) benti á nokkra galla, sem hann kvað vera á þessu fyrirkomulagi. Vel má vera, að hann hafi nokkuð fyrir sjer, þó að hann verði varla talinn óhlutdrægur dómari í þessum málum, þar sem kunnugt er, að hann er sjálfur allstór fiskútflytjandi, og það er ekki ósennilegt, að íhlutun ríkisstjórnarinnar og afskifti af fiskversluninni kunni einmitt að koma við þá að einhverju leyti.

Eitt af því, sem hv. frsm. (JJós) benti á í þessu sambandi, var það, að ef að ráðstafanir útflutningsnefndar eða annars íhlutunarvalds stjórnarinnar hefðu tjón í för með sjer, þá væri ekki til neinn sjóður, sem gæti bætt framleiðendum það tjón. Nei, þetta er alveg rjett. En mjer verður á að spyrja: Hvar er sá sjóður, sem bætir okkur, fiskframleiðendum tap það, sem s. l. ár varð á fisksölunni vegna skipulagsleysisins? Mjer vitanlega er hann enginn til. En ef að hv. frsm. (JJós) getur bent mjer á hann, þá skal ekki standa á mjer að leita hans.

Hv. frsm. meirihl. játaði, að fast skipulag skapaði festu í verði fiskjarins. En er þá ekki mikið unnið, ef að fiskverðið er fest og trygt hjer innanlands? Mjer blandast ekki hugur um, að svo sje.

Mjer virðist að hv. meirihl. geti ekki fallist á till. eins og hún liggur fyrir, einkum af hræðslu við það, að hjer sje á ferðinni „kommúnismi“ eða einhver skollinn svoleiðis. Jeg skal játa, að jeg er ekki svo kunnugur hinum ýmsu pólitísku stefnum, að mjer sje unt að greina skýrt á milli „kommúnisma“, „socialisma“ o. s. frv. En jeg held, að menn geri sjer of miklar grýlur í þessum efnum hjer á landi. Hjer kann að vera einhver angi jafnaðarstefnunnar, en jeg get ekki annað sjeð, en að við þyrftum hennar einmitt við á ýmsum sviðum.

Þá var eitt atriði hv. frsm. meirihl. mikill þyrnir í augum. Það var, hvernig útflutningsnefnd yrði skipuð, ef til kæmi. Væri hætta á, að þeir yrðu jafnvel skipaðir í nefndina, sem hefðu eiginhagsmuna að gæta, sem gætu rekið sig á hagsmuni annara fiskframleiðenda. Þessi mótmæli koma einnig úr hörðustu átt.

Þegar jeg, sem er andstæðingur hæstv. stjórnar, ber fram till. með það fyrir augum, að jeg treysti henni til að láta rannsaka málið hlutdrægnislaust og, ef til kæmi, að skipa útflutningsnefnd sæmilegum og samviskusömum mönnum, þá er það hart, ef að fylgismenn stjórnarinnar treysta henni ekki til þessa.

Þá virtist hv. frsm. meirihl. vilja bera í bætifláka fyrir, að svo mikið tjón hefði hlotist af fisksölunni s. l. ár sem jeg hefi haldið fram, og sem erindrekinn segir — og benti hann í því sambandi á það, að Spánverjar hafi ekki lagt svo mikið kapp á að kaupa fisk okkar sem þeir myndu hafa gert, ef verðið hefði verið óhæfilega lágt hjer heima.

Jeg skal ekkert um það segja, af hverju tapið kann að hafa stafað, eða hverjir sjeu valdir að því. En jeg vil fara að eins og brendu börnin; jeg vil forðast eldinn. Annars er ekki nema eðlilegt, að Spánverjar hafi viljað fá fiskinn með sem bestum kjörum, og þarf enginn að lá þeim, þó að þeir hafi ekki komið hlaupandi til okkar, til þess að láta okkur vita, að fiskverðið væri of lágt hjer heima í samanburði við verðið á Spáni.

Þá sagði hv. frsm. meirihl., að tilraun, sem gerð hafi verið til þess að mynda samtök til að halda uppi verði fiskjarins á Spáni, hafi mistekist. Þetta festir þá skoðun mína, að slík samtök geti ekki komið að verulegum notum. En alt öðru máli er að gegna, ef að ríkisstjórnin sjálf hefði hönd í bagga með sölunni.

Hv. frsm. meirihl. gat þess, að jeg hefði ekki haldið ríkiseinkasölu á fiski strangt fram. Þetta er alveg rjett. Jeg hefi aldrei haldið henni strangt fram en ef jeg sje, að afkoma sjávarútvegsins verður undir henni komin, þá mun jeg ekki skoða huga minn um að greiða ríkiseinkasölu atkvæði mitt, hvort heldur hjer á Alþingi eða annarsstaðar. Og mjer dylst ekki, að ef sjávarútvegurinn, í mörg ár, á að bera 1–5 milj. kr. tap vegna skipulagsleysis á fisksölunni á hann skamt eftir ólifað. Þetta er mál, sem snertir ekki aðeins okkur, sem lifum á sjávarútvegi, heldur alla þjóðina, og þá ekki hvað síst sjálfan ríkissjóðinn, því að mestar tekjurnar berast honum frá sjávarútveginum. Það ætti því að vera hæstv. stjórn alvörumál, að rannsaka þetta atriði, þar sem því verður ekki hnekt, að s. l. ár töpuðu fiskframleiðendur landsins mörgum miljónum vegna ólags á sölu fiskjarins.

Hv. frsm. meirihl. tók það fram, að ef ríkið tæki einkasölu á fiski, þá myndu Spánverjar rísa upp og mynda samtök á móti. Mitt kaupmannsvit nær nú ekki svo langt, að jeg skilji þessa röksemdaleiðslu. Jeg verð að játa það. Jeg get ekki sjeð, að við brjótum í nokkru af okkur gegn Spánverjum eða öðrum neytendum ísl. fiskjar, þó að við hölluðumst að því ráði að hafa útflutning fiskjarins á einni hendi, og jafnvel þó að það yrði ríkið, sem þá hefði hann með höndum. Hitt er skiljanlegt að Spánverjar reyni á allan hátt að ná fiski okkar sem ódýrustum og er þá jafneðlilegt, að við reyndum að halda honum í skaplegu verði. Það hefir aldrei verið mín meining, að við ættum að kappkosta að halda fiskinum í einhverju vitleysislega háu verði, sem væri eins líklegt til þess að verða okkur til tjóns. Nei, mín meining með till. þessari er sú, að alt verði gert, sem hægt er, til þess að afstýrt verði því ólagi sem sannanlega hefir verið á fisksölu okkar og sem sannanlega hefir bakað okkur stórtjón.

Hv. frsm. meirihl. sagði að vísu, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að stjórnin ljeti „góða menn“ athuga fisksöluna. En þegar ekki má trúa erindreka landsins, þá er ekki gott að vita, hverjir eru þeir „góðu menn“. Jeg fyrir mitt leyti legg ekki svo lítið upp úr því, sem erindrekinn hefir lagt til mála þessara, þar sem hann hefir þegar rannsakað þau manna best. Og nú er mjer kunnugt um það, sem jeg vissi ekki áður, þegar till. var hjer til umr., að erindrekinn leggur til, að skipuð verði útflutningsnefnd. Það er því næsta varhugavert fyrir hv. deild, að samþ. nokkuð það, sem dregið gæti úr hæstv. landsstjórn að grípa til þessa ráðs, en það gerir dagskrá hv. meirihl., að mínu viti. Þar er áherslan lögð á alt annað. Þegar enginn ágreiningur virðist vera um það, að eitthvað beri að gera í þessum efnum, en hinsvegar eru skiftar skoðanir um það, hvernig framkvæmdir eigi að inna af hendi, þá er sá ágreiningur ekki þess virði, að málinu verði á þessu stigi stefnt í ógöngur hans vegna.

Þegar menn nú bera saman till. mína og dagskrártill. hv. meirihl., þá sjest fljótt, hvað þar ber á milli. Till. mín fer fram á, að stjórnin rannsaki og geri ráðstafanir, sem miðað gætu að því, að föstu skipulagi verði komið á fiskverslun landsmanna, en dagskrártill. talar um og leggur aðaláhersluna á fiskimat, frágang fisksendinga o. s. frv. þetta er að vísu alt saman gott og blessað, en ef sama ólagið er á fisksölunni og verið hefir, þá erum við litlu nær.

Munurinn milli mín og hv. meirihl. er sá, að svo virðist sem hv. meirihl. vilji forðast eins og heitan eldinn, að komið verði föstu skipulagi á fisksöluna, en á það legg jeg aðaláhersluna.

Við verðum að gá að því, að ef okkur hendir hið sama og s. l. ár, þá er svo mikið í húfi, að ekki er áhorfsmál að gera ráðstafanir, sem geti afstýrt því, jafnvel þó að með þeim verði að einhverju leyti heft starfsemi einstakra borgara þjóðfjelagsins. En það er reyndar enganveginn víst, að innlendir fiskútflytjendur þyrftu að bíða nokkuð tjón við slíkar ráðstafanir, því að, eins og erindrekinn tekur fram, þá eru allar líkur til þess, að langmestur hluti þess taps, sem fiskframleiðendur biðu s. l. ár af skipulagsleysi fisksölunnar, hafi runnið í vasa erlendra fiskkaupmanna, en ekki íslenskra.

Hv. frsm. meirihl. hjelt því fram, að það væri líklegt, að vjer fengjum gott verð fyrir fiskinn nú í ár, sakir þess, að verðið var lágt í fyrra. Jeg verð að taka það fram, að jeg skil alls ekki þessa röksemdaleiðslu. Jeg býst ekki við að enskir og spánskir fiskkaupmenn verði svo miskunnsamir að láta okkur fá hátt verð fyrir fiskinn nú í ár, þó þeir hafi fengið hann undir sannvirði í fyrra, því fiskneytendurnir á Spáni fengu hann ekkert ódýrari en venjulega.

Annars er það mjög ískyggilegt, hve tíðar og misjafnar sveiflur eru á fiskverðinu. Það sem af er þessu ári hefir fiskverð verið gott og yfirleitt gott útlit með sölu á fiski. Það hefir því orðið til þess, að nýtt líf hefir færst í útveginn. Margir hafa hugsað sjer að reyna að ná sjer upp eftir hin erfiðu ár, og lagt út í stærri fyrirtæki en ella. Og menn miða áætlanir sínar við þetta háa fiskverð. En ef svo færi, að fiskverðið fjelli aftur á miðju sumri, hvernig fer þá? Það er hreinn og beinn dauðadómur yfir miklum hluta þeirra manna, sem stunda sjávarútveg. En ef útflutningsnefnd annaðist fisksöluna, þá væri hægt að byggja á föstu verði yfir alt árið, og menn gætu því hagað framkvæmdum sínum eftir því, og þá gætu slík skakkaföll ekki átt sjer stað eins og þau, sem við urðum fyrir á fisksölunni síðastliðið ár.

Jeg get alls ekki verið sammála hv. þm. Vestm. (JJós) og öðrum, sem telja þessa þál. árás á verslunarstjettina og frjálsa verslun í landinu.

Jeg varð þess var í sjútvn., að hv. meirihl. hefir, að því er mjer virðist, megna óbeit á öllum ríkisrekstri í verslunarmálum.

Jeg skal taka það fram, að jeg hefi alls ekki sannfærst um, að íhlutun ríkisins í slíkum málum þurfi að vera nokkuð hættuleg eða bagaleg fyrir einstaklingana, en þó svo væri, að einhverjum fyndist, að sjer væri einhver bagi ger með því, þá finst mjer slíkt ætti alls ekki að vera tekið til greina, þegar annar aðalatvinnuvegur okkar er í hættu. Og mjer finst, að engin meðul geti verið of dýr til þess að bjarga honum úr þeirri hættu. Jeg tel því röksemdir mínar algerlega óhraktar, og jeg held því fast við þál. mína, og vona, að hv. deild sje á sama máli og jeg, og samþ. því þessa þál. mína.

Í forsendum hinnar rökstuddu dagskrár er svo mikið dregið úr aðaltilgangi þál. minnar, að jeg get alls ekki verið með því að vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg tel líka mjög tvísýnt að fara að verja fje í pökkun á fiski og blýmerki, því jeg hygg, að það verði aðeins kák. Það getur auðvitað í ýmsum tilfellum verið gott, og jeg tel sjálfsagt að athuga það. En jeg vil í því sambandi benda á, að reynslan hefir sýnt, að það er venjulega óheppilegra að senda fiskinn pakkaðan til Spánar heldur en lausan, og jeg hygg, að jeg fái fiskimatsmennina á mitt mál í því efni. Jeg hefi viljað benda á þetta sakir þess, að þetta er eitt af því, sem minst er á í forsendunum fyrir hinni rökstuddu dagskrá, en jeg tel vafasamt, hvort það muni verða til bóta eða ekki.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu um þetta mál, en jeg vil aðeins að endingu benda á, að hvernig sem fer um þessa þál. nú í þessari hv. deild — þó hún verði moldu ausin, þá mun hún koma fram aftur, þegar á næsta þingi, því það liggur slíkur þungi á bak við þetta sjálfsagða mál, að engar líkur eru til þess, að spornað verði við framgangi þess til lengdar.