02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1925

Jónas Jónsson:

Að vissu leyti er það óþarft að standa upp, af því að bæði hv. frsm. (JóhJóh) og hv. 1. landsk. (SE) hafa mælt fyrir þeirri till., sem jeg er svo djarfur að bera fram. Hún er um 500 kr. hækkun til Jóns Hjaltalíns læknis.

Eins og tveir háttv. þm. hafa tekið fram, er hjer eiginlega ekki um peningaspursmál að ræða, heldur „æruspursmál.“ Jeg hefi talað við samstarfsmenn mína í mentamálanefnd, og vorum við öll sammála um, að þessu þyrfti að hreyfa. Þau einu hugsanlegu mótmæli gegn þessu eru þau, að þetta leiddi til fundar í Sþ. Hjer er að ræða um það, hvort eigi að misbjóða heiðri eins góðs starfsmanns, sem af öllum er viðurkendur. Þessi maður vinnur við háskólann fyrir lægri laun en aðrir fastir starfsmenn þar. Þegar þess er gætt, að ef maðurinn tæki þetta sem persónulega móðgun við sig, gæti það orðið háskólanum að meira tjóni en sem svarar 500 kr. Jeg tek það fram, að mjer er þeim mun ljúfara að koma með þessa brtt., þar sem hlutaðeigandi maður er einn af þeim fáu læknum hjer í bænum og víðar, sem eru mjög óeigingjarnir í persónulegum skiftum við sjúklingana; það stappar nærri, að telja megi það galla á þessum manni, hve ódýr hann er. Eftir því sem mjer er tjáð, hefir hann þann sið að senda engum manni reikning; borga honum því ekki aðrir en þeir, sem

hafa svo mikla sómatilfinningu að koma sjálfir. Maður getur skilið, að þessi aðferð í viðskiftum sje ekki beinlínis vel fallin til að afla fjár.

Það þarf ekki að vera nema fimm mínútna fundur í Sþ. út af þessari brtt. Um verðleika mannsins verður ekki deilt. Breytni hv. Nd. í þessu atriði hlýtur að stafa af ókunnugleika eða hugsunarleysi. Jeg ber engan kinnroða fyrir það að setja fjárlögin í Sþ., eins og málavöxtum er háttað.