30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

127. mál, sala sjávarafurða

Sigurður Eggerz:

Jeg vil aðeins gera nokkrar athugasemdir, til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Jeg tel rjett að þakka þeim hv. þm., sem hafa haft svo mikinn áhuga fyrir þessu máli, að koma með það inn í þingið til athugunar, því jeg er á þeirri skoðun, að þetta sje eitt okkar allra þýðingarmesta mál.

Jeg held, að það sje ekki ofsögum sagt, að framleiðendur hafa gert alt of lítið til þess að koma skipulagi á þetta mál. Það er alt annað en á sjer stað í Noregi. Þar gera framleiðendur sjálfir mjög mikið til þess að koma fisksölu sinni í gott horf. Það er fyrst nú á síðustu tímum, að menn hjer eru farnir að fá meiri skilning á þessum málum og áhugi farinn að vakna fyrir umbótum. Jeg hygg, að það væri best, að framleiðendurnir sjálfir vildu íhuga þetta mál sem best og reyna að finna leiðir til bætts skipulags á fisksölunni. Og jeg vil beina þeirri ósk til hæstv. stjórnar, að hún vilji vinna að því, að vekja áhuga fiskframleiðenda á þessu máli. Þó gera ætti einhverjar þvingunarráðstafanir, þá hygg jeg, að það yrði ómögulegt að framkvæma þær eða láta þær verða að góðum notum, nema því að eins, að meirihluti þeirra manna, sem hlut eiga að máli, væri þeim fylgjandi.

Jeg hefi altaf verið á móti allskonar einkasölu, og því vil jeg alls ekki samþ. neitt, sem gæti orðið til þess að ýta undir stjórnina með að leggja út á þá braut.

Jeg skal taka það fram, að mjer finst sú rökst. dagskrá, sem hjer liggur fyrir, ganga of stutt, því með henni er það takmarkað, sem stjórnin á að gera. Mjer finst langrjettast, að stjórnin taki málið í heild sinni til athugunar. Og jeg sting því upp á því, að málinu sje vísað til stjórnarinnar. Þá getur stjórnin athugað alt, sem kemur fram frá báðum hliðum, og einkum vil jeg óska þess, að stjórnin hvetji sjávarútvegsmenn til þess að íhuga málið sjálfir meira en þeir hafa gert hingað til. Það eru allir sammála um, að fisksalan sje ekki í góðu lagi, en jeg er sannfærður um, að ef málið er rannsakað í samvinnu við þá menn, sem þar eiga mestra hagsmuna að gæta, þá má finna leiðir til umbóta. En jeg er hinsvegar viss um, að þó lögboðið væri eitthvert sjerstakt fyrirkomulag á fisksölunni, þá væri erfitt að framkvæma það, ef meirihluti fiskframleiðenda er óánægður með það.