30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þarf að gera nokkrar athugasemdir viðvíkjandi ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP). Honum fanst jeg hafa tekið þessu máli altof alvarlega, og hjelt því fram, að jeg hefði hervæðst gegn sjer. En jeg hefi einmitt reynt að líta á málið frá sjónarmiði okkar beggja, og þær tillögur, sem koma fram í forsendum hinnar rökst. dagskrár, fara mjög í líka átt og njer virðist hann vilja fara, og auk þess nefnum við nokkur atriði, sem við viljum láta stjórnina athuga sjerstaklega, en þau finst hv. þm. raunar frekar þýðingarlítil.

Einkum þykir hv. þm. það óþarfi af mjer að tala um útflutningsnefnd í þessu sambandi, þar eð hann hefði alls ekki minst neitt á slíka nefnd í þál. minni. Jeg held þetta hljóti að vera misminni hjá hv. þm., því, eins og sjá má af þál., talar hann þar einmitt um slíka nefnd.

Þá erum við hv. þm. S.-M. ekki sammála um erindrekann á Spáni. Það er alls ekki rjett, sem hv. þm. heldur fram, að jeg hafi tortrygt erindrekann. Jeg er aðeins í efa um, hvort niðurstaða hans um tjónið á fisksölunni síðastliðið ár sje rjett. Það er alment viðurkent, að á hvaða markaði sem er, geti það átt sjer stað, að skráð sje ákveðið verð, þó ekki sje hægt að selja ótakmarkað fyrir það verð. Þegar slík verðskráning er lögð til grundvallar eftir á, við útreikning tjónsins, þá er ekki hægt að segja um það með fullri vissu, hvort sú niðurstaða, sem fæst þannig, sje ábyggileg.

Það er rjett hjá hv. þm., að jeg flutti brtt. við fjárlögin þess efnis, að veitt væri fje til erindisreksturs á Spáni, en jeg hafði engan sjerstakan mann í huga til þess erindisreksturs, eins og hv. þm. hjelt fram, og sú till. sýndi því ekki á nokkurn hátt afstöðu mína til þess manns, sem gegnt hefir erindrekastörfum á Spáni.

Þá voru ummæli hv. þm. um að jeg væri vilhallur í málinu á engu bygð öðru en vanþekkingu. Jeg telst sem sje alls ekki til þess flokks manna, sem hv. þm. nefnir stórútflytjendur á fiski. Jeg telst þar til smærri spámannanna, og hefi því enga ástæðu til að draga sjerstaklega taum þeirra stærri.

Útúrdúr hv. þm. um „kommúnisma“ var allskemtilegur, en kom harla lítið þessu máli við. Jeg hefi engan heyrt nefna „kommúnisma“ í sambandi við það, hvorki í sjútvn. eða annarsstaðar. Það hefir verið talað um einkasölu í sambandi við þetta mál, en alls ekki um „kommúnisma“.

Hv. þm. fór rangt með mín orð viðvíkjandi skipun útflutningsnefndar, er hann hjelt því fram, að í þeim hefði falist það, að jeg vantreysti stjórninni til þess að velja menn í slíka nefnd. Það verða að vera menn, sem standa framarlega í fisksölustarfsemi og fiskframleiðslu, og þeir menn eiga að fá vald til að grípa inn í starfsemi hv. 2. þm. S.-M. (IP) og annara, sem við slíka starfsemi fást. Jeg efast ekki um, að hv. þm. verður mjer sammála um, að slíkt sje varhugavert, ef hann athugar málið nánar, þó hann sje það ekki nú.

Það var alls ekki rjett hjá hv. þm., að jeg hafi sagt, að fiskhringurinn hafi sprungið árið 1920. Jeg sagði, að stundum hefði heyrst talað um, að Spánverjar ætluðu eða hefðu myndað hring um fiskkaup, og að þeir virtust oftast hafa „sprungið“ á því.

Hv. þm. (IP) lagði mikla áherslu á það nú, þó minni en í fyrri ræðu sinni, að eina bjargráðið væri, að ríkisstjórnin tæki fisksölumálið í sínar hendur.

Ef svo væri, að enga aðra örðugleika þyrfti að yfirstíga en að fá stjórninni málið, þá skyldi jeg sannarlega vera hv. þm. samtaka um að gera það sem fyrst. En það er alls ekki lækning allra meina, þó vjer færum þannig að. Vjer getum vel kúgað sjálfa oss í því efni, en vjer höfum ekkert vald til þess að setja öðrum þjóðum neina kosti. Þó ríkið hefði fisksöluna í sínum höndum, þá kæmist það aldrei hjá því, að sveiflur yrðu á fiskverðinu. Það yrði að sæta sama í því efni og aðrir. Jeg vil benda hv. þm. á, að við höfum ríkiseinkasölu á einni vörutegund, sem er mjög þýðingarmikil fyrir okkur, sem sje á steinolíu. Þó hefir sú einkasala ekki megnað að varna því, að olíuverð hækkaði um 40–45% frá því í fyrra. Jeg kenni landsversluninni, að svo komnu, alls ekki um þetta, því jeg veit, að hún getur ekki átt sök á því, heldur hafi hún orðið að sætta sig við allsherjarverðhækkun eins og aðrir, og eins mundi verða á öðrum sviðum. Ríkið getur aldrei haldið uppi því verði, sem því sýnist, á neinni vörutegund.

Það var ekki hægt að heyra annað á ræðu hv. þm. en hann liti svo á, að ef ríkið hefði fisksöluna í sínum höndum, þá gæti það ráðið verðinu. Hann sagði, að það væri hætt við því, að verðið fjelli í ágústmánuði í sumar, en það var að heyra, að hann liti svo á, að ef útflutningsnefnd væri skipuð, þá þyrfti ekki að óttast verðlækkun og þær illu afleiðingar, sem hún hefði í för með sjer. En það er ekki nema venjulegur og eðlilegur gangur málsins, að verðið lækki um mitt sumarið, og útflutningsnefnd getur alls ekki komið í veg fyrir slíka verðlækkun. Ef svo væri, þá væri enginn vandi að fá gott verð fyrir fisk sinn á Spáni.

Newfoundlendingar reyndu að ákveða fiskverð sitt með lögum, sem bönnuðu öllum að selja fisk sinn undir ákveðnu verði, en þau lög urðu til þess eins, að þeim var bolað burt af mörkuðum þeim, sem þeir höfðu haft, og urðu þeir fegnir að losa sig við lögin áður en 12 mánuðir voru liðnir frá því þau voru sett.

Jeg benti á annmarka þá, sem eru á ríkisíhlutun um fisksöluna, en jeg benti líka á kosti hennar. Jeg veit, að útflutningsnefnd gæti alls ekki fest fiskverðið á útlendum markaði, en hún ætti að geta ýtt því upp stundum innanlands. Háttv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði gengið fram hjá tillögum Spánarerindrekans, um útflutningsnefnd, í hinni rökstuddu dagskrá. Þetta er alls ekki rjett, og vil jeg því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Í því trausti, að ríkisstjórnin taki til rækilegrar athugunar tillögur þær til umbóta á fiskmati, frágangi fisksendinga, fisksölu og fiskútflutningsfyrirkomulagi, sem Spánarerindreki landsins hefir gert í skýrslu sinni til stjórnarráðsins, dags. 20. mars síðastliðinn, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hjer er talað um fiskútflutningsfyrirkomulag. Það lítur út fyrir, að háttv. þm. hafi ekki kynt sjer skýrslu þá, sem liggur til grundvallar fyrir hinni rökstuddu dagskrá. Höfuðtillaga erindrekans, viðvíkjandi fiskútflutningsfyrirkomulaginu, er einmitt um, að skipuð verði útflutningsnefnd, enda gat jeg þess, að fyrir lægi till. frá erindrekanum um skipun slíkrar nefndar.