30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

127. mál, sala sjávarafurða

Frsm. minnihl. (Ingvar Pálmason):

Það vil jeg taka skýrt fram, að hv. þm. Vestm. (JJós) er ennþá samur við sig. Hann segir, að tapið sje hvergi til nema í hugum þeirra manna, sem halda því fram. Það hefi jeg áður sannað með gögnum, sem enn standa óhrakin, að skipulagsleysi fisksölunnar hefir valdið okkur margra miljóna tapi, samt heldur hv. þm. slíku fram sem þessu. Hv. þm. sagði, að jeg hefði kannast við, að jeg sæti ekki með mikið kaupmannsvit, og er það satt. En jeg sje ekki betur en að nú sje komið í það öngþveiti, að eitthvað þurfi annað að koma til skjalanna en það kaupmannavit, sem hefir látið til sín taka á undanförnum árum. Þá minnist hv. þm. á manninn, sem gerður var að fiskimálaráðherra. Ætti það fyrir mjer að liggja að verða fiskimálaráðherra, teldi jeg það ekki neitt illa farið. En jeg býst ekki við, að svo verði. Jeg vil vinna að því að koma í veg fyrir, að fiskiveiðar í smáum stíl fari í kaldakol. En að því stefnir með því ólagi, sem á er.