02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

1. mál, fjárlög 1925

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg ætla ekki að tala langt mál, en sem nefndarmaður í mentmn. þessarar hv. deildar vildi jeg taka í sama streng og hv. frsm. (JóhJóh) og hv. 5. landsk. (JJ) og lýsa því yfir, að jeg er algerlega samþykk till. þeirri, sem hv. 5. landsk. þm. hefir borið hjer upp, um að leiðrjetta misrjetti það og lítilsvirðingu, sem hv. Nd. hefir sýnt með því að lækka styrkinn, sem hjeraðslæknir fær fyrir kenslu sína við háskólann.

Jeg hefi það eftir starfsbræðrum hans við háskólann, að hann vinni þeirri stofnun ómetanlegt gagn, jafnvel engu minna en hinir föstu prófessorar, en þeir eru, eins og kunnugt er, með afbrigðum góðir embættismenn.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, þá vil jeg nota tækifærið til þess að finna að því, að hv. Nd. skuli aftur hafa breytt styrkveitingunni til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga. Jeg hefi áður fært rök fyrir því, hversu skylt sje að veita sambandi þessu styrk úr ríkissjóði, og að það hafi óskoruð umráð yfir þeim styrk, sem það fær. Get jeg og fært fram fyrir þessari skoðun ekki lakari rök en þau, að Pjetur heitinn Jónsson, fyrv. ráðherra, tók það fram þegar sambandið var stofnað, að sjálfsagt væri að veita því styrk og láta það sjálft ráða, hvernig það úthlutaði honum. Nú hefir hv. fjvn. Nd. að vísu veitt nokkra upphæð í þessu skyni, en um leið bundið mikinn hluta hennar við nafn. Þar eð jeg á sæti í stjórn sambandsins, vil jeg ekki láta þessari aðferð ómótmælt. Þingið er að vísu sjálfrátt um það, hversu mikils það metur starfsemi sambandsins og hvort það á hinn bóginn vill veita styrk til útbreiðslu heimilisiðnaðar á einhver sjerstök nöfn. En hinu verður að mótmæla, sem hv. Nd. nú hefir gert, að nokkur hluti þeirrar fjárupphæðar, sem sambandinu er veitt, sje bundinn við nöfn einstakra manna, og það því fremur, sem upphæðin í heild hefir verið lækkuð úr 8 þús. kr., eins og sambandið hafði í síðustu fjárlögum, niður í 6 þús. kr., og því minni ástæða til að rýra styrkinn enn um þriðjung á þennan hátt. Jeg verð að halda því fram, að þó að fleiri þm. eigi sæti í fjvn. hv. Nd. en fjvn. þessarar hv. deildar, þá beri engu að síður að taka til greina það, sem fjvn. þessarar hv. deildar leggur til málanna og nær samþykki hv. þdm. Við 3. umr. fjárlagafrv. í þessari hv. deild kom að vísu á elleftu stundu fram brtt. frá tveim háttv. þingmönnum um að færa styrkveitingu þessa í svipað form og hv. Nd. nú hefir samþykt. Fjvn. þessarar deildar hefir aldrei haft á móti því, að ungfrú Ástu Sighvatsdóttur væri veittur styrkur til kenslu í vefnaði, en hún áleit, að ekki kæmi til mála að klípa þann styrk með ákvæði í fjárlögum af styrkveitingunni til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga, heldur ætti það sjálft að ráðstafa öllum styrknum upp á eigin spýtur.

Jeg varð því mjög undrandi, þegar jeg sá þessa meðferð hv. Nd., og það því fremur, sem helmingur stjórnar sambandsins, sá, sem situr á Akureyri, hafði sent símleiðis mótmæli gegn því, að þingið ráðstafaði fyrirfram þeim styrk, sem það veitti sambandinu. Jeg hefi viljað undirstrika þessi mótmæli hjer nú, vegna seinni tímans.