02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

104. mál, fækkun ráðherra

Flm. (Magnús Torfason):

Þessi þál.tillaga á þskj. 186, þess efnis að skora á stjórnina að fækka ráðherrum með konungsúrskurði, er fyrst og fremst fram komin sem sparnaðartillaga. Það er víst, að þetta var haft á oddi á flestum kosningafundum um land alt á s. l. hausti, og það er líka víst, að það er krafa mýmargra þingmálafunda úr langflestum kjördæmum landsins, að ráðherrum verði nú fækkað.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg ætlast ekki til, að ráðherrum verði fækkað nema um einn.

Vitanlega hlýðir ekki að fækka ráðherrum, ef að þörf er fyrir starfskrafta þeirra allra, en jeg verð að líta svo á, að engin þörf sje á því að hafa þrjá ráðherra, eins og sakir standa — og samkv. sögu og gangi þessa máls er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeim verði fækkað.

Þegar ráðherrar voru fyrst settir þrír hjer á landi árið 1917, þá var það gert með ófriðinn mikla fyrir augum. Þá lágu fyrir stjórninni mörg störf og vandasöm, svo mikil, að ráðherra sá, sem þá fór frá, sem annars var einhver allramesti starfsmaður, sem verið hefir í ráðherrasessi hjer á landi, lýsti því þá yfir, að enda þótt hann nyti til þess trausts þingsins, þá treysti hann sjer ekki til að verða einn ráðherra áfram. Líka var það pólitísk nauðsyn, sem átti sinn þátt í ráðherrafjölguninni. Þá þegar var mynduð samsteypustjórn, eins og svo víða annarsstaðar. Var það, eins og kunnugt er, gert til þess að hefja atvinnumál þjóðarinnar upp yfir flokkapólitíkina, og átti hver hinna þriggja aðalþingflokka sinn mann í stjórninni, til að byrja með. Þetta kom greinilega fram í umr., sem þá fóru fram, um fjölgun ráðherranna — og þá kom líka greinilega í ljós, að fjölgunin ætti aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun og ekki að vera í gildi nema til ófriðarloka. Núverandi hæstv. atvrh. (MG) gerði þá þegar ráð fyrir því, að ráðherrum yrði fækkað aftur, að ófriðnum loknum, og hafði þar um þau orð, að ekki myndi verða nægilegt verkefni fyrir hendi handa þrem ráðherrum, eftir að ófriðnum lyki. Þetta hefir líka verið viðurkent af stjórnskipunarlagavaldi landsins Með 11. gr. stjórnarskrárinnar frá 1920 er konungi falið að ákveða tölu ráðherra, og getur hann því bæði fjölgað þeim og fækkað. Liggur það í orðum 11. gr. stjórnarskrárinnar, eins og þau standa þar. En til að sýna, svo að ekki verði í móti mælt, að þessi skilningur er rjettur, skal jeg geta þess, að í athugasemdum stjórnarinnar við stjórnarskrárfrv., þegar hún lagði það fyrir þingið, er tekið skýrt fram, að þetta ákvæði 11. gr. sje beinlínis sett til þess að ráðherrar þurfi í framtíðinni ekki að vera fleiri en tveir.

Í framkvæmdinni hefir stjórnar- og þingvenja líka orðið í fylsta samræmi við þessa tilætlun.

Eftir lát Pjeturs heitins Jónssonar atvrh., góðrar minningar, voru ráðherrarnir aðeins tveir, þar til stjórnarskifti urðu. Og eftir afgang Magnúsar Jónssonar fjrh. á síðasta ári, voru ráðherrarnir aðeins tveir, án þess, að þingið hefði nokkuð við það að athuga. Á þessu þingi voru ráðherrar lengi vel og mótmælalaust aðeins tveir, og hefir stjórnin þannig eingöngu verið skipuð tveim ráðherrum um fult eins árs skeið, óátalið af tveim þingum. Að hvorugt þessara þinga hefir hreyft mótmælum gegn þessu fyrirkomulagi, verður að skoðast þannig, að þau hafi lagt samþykki sitt á það, að ekki færi í bág við stjórnarskrána, að ráðherrar væru aðeins tveir.

Ennfremur er rjett að geta sjerstaks atriðis, sem einnig sýnir, að ráðherrar megi vera tveir. Á þingi árið 1922 báru þeir núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Borgf. (PO) fram þáltill., um að hafa aðeins tvo ráðherra. Var það lagt undir úrskurð hæstv. forseta Nd., hvort bera mætti upp þessa till., með því, að sumir hv. þm. vildu halda því fram, að hún færi í bág við stjórnarskrána, og úrskurðaði hæstv. forseti, að svo væri ekki, og því væri ekkert því til fyrirstöðu, að till. mætti berast upp.

Eina ástæðan, sem hægt væri að finna fyrir því að haldið skuli vera í þrjá ráðherra, og að þeir skuli nú vera skipaðir þrír, eftir að þeir höfðu áður verið tveir um nokkurt skeið, ætti vitanlega að vera sú, að þörfin fyrir aukinn vinnukraft sje svo brýn í stjórnarráðinu. Nú verð jeg að segja, að s. l. ár, þegar ráðherrarnir voru aðeins tveir, voru ýmsar framkvæmdir hafðar með höndum, sem ráðherrarnir þurftu að hafa afskifti af, og veit jeg ekki betur en að það hafi alt saman gengið leikandi ljett. Hefi jeg hvergi heyrt þess getið, að þeim ráðherranna, sem þá gengdi bæði atvrh.- og fjrh.-starfinu, hafi fallið það þungt að leysa þessi störf sín af hendi, og er hann þó maður kominn á efri ár, og því ekki að vænta, að hann hafi fulla starfskrafta á borð við menn á besta aldri.

Þá er á það að líta, hvort þetta þing hafi hlaðið svo miklum auknum störfum á stjórnina, að þeirra vegna verði að hafa þrjá ráðherra. En það er svo langt frá því, að svo sje. Þetta þing hefir einmitt verið sannkallað slátrunarhús. Það hefir rifið niður og stöðvað allar framkvæmdir, en ekkert bygt upp í staðinn, sem eftirlit þarf með af hálfu stjórnarinnar. En með þessu hefir þingið einmitt ljett störfum af ráðherrunum, og það að stórum mun. Nú á engan vegarspotta að leggja og ekki heldur neina símalínu. Engin ræktunarfyrirtæki verða tekin til framkvæmdar, og eins og við vitum, hefir heldur ekkert verið gert að gengismálum þjóðarinnar. Hafi þessvegna, þegar svo er ástatt, verið nauðsyn á því að fjölga ráðherrum frá því sem áður var, þá getur það ekki stafað af öðru en að Íhaldsflokkinum hafi illa tekist mannavalið í stjórnina.

Núverandi hæstv. ráðherrar verða þá að játa, að þeir sjeu meiri liðljettingar en fyrirrennarar þeirra, ef að þeir vilja halda fast við, að nú sje nauðsyn á því að hafa þrjá ráðherra. Jeg býst varla við því, að hæstv. stjórn játi þessu, en ef svo skyldi fara, að hún játaði það, þá tel jeg sjálfsagt, að jeg taki till. aftur.

Hvað snertir fækkun ráðherra niður í tvo, eins og nú standa sakir, þá er það vitanlegt, að einhver núverandi hæstv. ráðherra verður að bíta í grasið, því að ekki kemur fækkunin til mála á annan hátt en þann, að sameinuð verði embætti fjrh. og atvrh. Og þegar að þeirri spurningu kemur, hvor ráðherranna eigi að láta af embætti, þá verð jeg að segja, þó að það komi þessari till. ekki beinlínis við, að jeg tel sjálfsagt, að hæstv. fjrh. (JÞ) verði falið að taka við báðum embættunum, og liggja til þess ýmsar ástæður. Við vitum allir, að hann er maður á besta aldri og feikimikill starfsmaður; jafnvel sannkallaður vinnuböðull. Við vitum líka, að hann hefir alveg sjerstaka þekkingu á ýmsu því, er snertir atvinnumál þjóðarinnar, og er það meira en hægt er að segja um hæstv. núverandi atvrh. (MG). Yfir höfuð að tala held jeg, að hæstv. fjrh. (JÞ) væri beint kjörinn til þess að verða atvrh., en eins og við vitum, þá var það fyrir öfugstreymi forlaganna, að hann tók ekki við því starfi. Það var sem sje vitanlega af því, að Íhaldsflokkurinn treysti hæstv. atvrh. (MG) ekki til þess að fara með fjármálin, þó að hann hafi áður með þau mál farið. (HK: Þetta er ekki satt!) Það er hægt að segja slíkt, en jeg veit mínu viti, hvað þetta atriði snertir. (HK: Vitið er takmarkað á þessu sviði!) Enda hefir þetta beinlínis komið í ljós, þar sem honum voru ekki falin fjármálin. Reyndar hefi jeg heyrt því fleygt, sem þá ætti að vera ástæðan fyrir því, hvernig stjórnin hefir skift með sjer verkum, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi ekki viljað vera atvrh., af því, að þar væri ekkert að gera. Ekki veit jeg sönnur á þessu, en þetta hefir verið sagt.

Jeg hefi heyrt utan að mjer, að þessi till. ætti að vera árás á hæstv. stjórn. En það er svo langalangt frá því, að það sje meining mín. Enda getur hv. þm. Barð. (HK), sem jeg sje að brosir í kampinn, sagt sjer það sjálfur, að það er ekki á mínu valdi að hreyfa við hæstv. stjórn, jafnvel þó að þessi till. verði samþ., því að ekkert er hægara fyrir hæstv. stjórn en að losa sig við einn ráðherranna og það er aðeins innra flokksfyrirkomulag, hvernig Íhaldsflokkurinn fer að því, og er því hægt fyrir þann flokk að taka vilja þingsins til greina, ef að till. verður samþ. Það getur því ekki verið um að ræða, að till. sje tilraun til þess að koma hæstv. stjórn fyrir kattarnef. Till. er, eins og jeg tók fram í upphafi, borin fram af sparnaðarástæðum.

Það eru líka sjerstakar ástæður til þess, að jeg óska, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi bæði þessi ráðherraembætti með höndum. Fyrst og fremst af því, að það mun hafa komið til tals, áður en stjórnin var mynduð, eða áður en það kom til mála, að hæstv. forsrh. (JM) myndaði stjórn, að ráðherrar yrðu aðeins tveir, og að hæstv. fjrh. (JÞ) tæki bæði við fjrh.- og atvrh.embættinu. Hafi honum verið treystandi til þessa strax í upphafi, þá er honum þó enn betur treystandi til þess nú, eftir að hafa átt sæti í stjórninni um hríð og kynst þar málum.

Á þessum tímum er sjerstök ástæða til þess, að fjármálaráðherra sje voldugur maður í stjórninni, þar sem verk hennar er fyrst og fremst að rjetta við fjárhag þjóðarinnar. Enda hefir hæstv. fjrh. (JÞ) lýst því yfir, að hann ætli sjer að vera strangur og ekki láta hina ráðherrana leika um of lausum hala. Og jeg vil, að hann beri fyrst og fremst ábyrgð á fjármálastjórninni, því að undir henni er kominn þrifnaður ríkisins. Á þessum tímum, þegar velta þarf margfalt hverjum eyri, sem greiddur er úr ríkissjóði, og þar sem verksvið fjrh. og atvrh. grípa hvort inn í annað, eins og gaddar í hjóli, þá er betra, að sami maðurinn gegni báðum embættunum. Við þurfum ekki að fara lengra en til þess, sem gerst hefir á þessu þingi. Það er öllum kunnugt, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir hvað eftir annað gripið inn á verksvið atvrh.

Hvað mig sjálfan snertir, þá skal jeg játa, að jeg sá sjerstaka ástæðu til þess að bera fram till. þessa, þegar útsjeð var um það, að hæstv. fjrh. (JÞ) varð ekki atvrh., því að jeg veit, að hann er öruggur stuðningsmaður stórmerks atvinnumáls, sem jeg ber mjög fyrir brjósti og sem jeg treysti honum manna best til að koma í framkvæmd.

Jeg skal taka það fram, að fyrir mjer vakir ekki, að ráðstöfun sú, sem till. fer fram á, verði nema bráðabirgðaráðstöfun. Mjer þykir ekki ólíklegt, að þegar við komumst úr kútnum aftur, þá muni, eftir kyrstöðuna, sjálfsagt vera þörf á því, að fá sjerstakan atvrh. En hinsvegar verð jeg að halda því fram, að það er rökrjett afleiðing af gerðum þessa þings, að ekki verði fyrst um sinn neinn sjerstakur atvrh., því að störfum hans hefir verið fækkað á allan hátt.

Það er ekki siður til sveita, veit jeg, að ráða nýjan fjósamann, þegar engin baulan er á básnum, en nú hefir þjóðinni verið fenginn nýr atvrh. um leið og mestur hluti starfa þeirra, sem undir hann heyra, hefir verið feldur niður. Og þykir mjer það ekki búmannlegt.