02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

104. mál, fækkun ráðherra

Björn Líndal:

Jeg skal taka það fram, að jeg veit auðvitað ekki með vissu, hvað hv. þm. (MT) hefir gengið til, að koma fram með slíka till sem þessa. En þó get jeg ekki að því gert, að jeg skoða hana sem beina árás á hæstv. atvrh. (MG). Hefði mjer fundist betur við eiga, að slík árás hefði komið fram á annan hátt. Annars vildi jeg gera stutta grein fyrir því, hversvegna jeg er á móti þessari þáltill. Það er af því, að jeg er eindregið á móti því að fækka ráðherrum. Jeg álít það óheppilegt og óhyggilegt. Hinsvegar er jeg með því að fækka þingunum. Ennfremur sje jeg ekki, að af þessari fækkun leiði nú neinn sparnað, þar sem búið er að gera grein fyrir því, að einn ráðherrann gegnir nú svo að segja kauplaust embætti sínu. Er því hjer í raun og veru ekki nema um tvenn ráðherralaun að ræða, hvað launin snertir. Fullyrði jeg, að ráðherrarnir sjeu svo starfshæfir menn, að ódýrari vinnukraftur sje naumast í ríkisins þjónustu nú hjer á landi. Og þegar minst er á kostnaðinn af þessum 3 ráðherrum vorum, þá mætti ekki síður tala um það, að á mörgum öðrum skrifstofum hins opinbera vinna óvaldir menn og illa valdir, sem fá ráðherralaun, jafnvel menn, sem hæfari eru til að standa fyrir upphlaupum og götuóeirðum en að gegna trúnaðarstörfum þjóðarinnar.

Hv. þm. (MT) sagði, að þetta ætti aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun, en hæstv. forsrh. (JM) hefir rækilega sýnt fram á, að þessu verður ekki breytt svo, að það nái til þeirrar stjórnar, er nú situr að völdum. Vænti jeg, að hv. þm. (MT) hafi þau áhrif á næstu stjórnarbreytingu, að hann geti þá komið þessari breytingu á.

Að ræða þessa till., er ekki til annars en að eyða tíma þingsins til óþarfa, og vildi jeg því helst, að till. yrði drepin þegar. En af kurteisi við hv. flm. (MT) mun jeg þó greiða atkv. með því, að till. verði vísað til stjórnarinnar, enda hefi jeg lagt þetta til.