02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3214)

104. mál, fækkun ráðherra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það má víst varla minna vera en jeg kvitti fyrir móttöku skeytisins frá hv. 1. þm. Árn. (MT). En jeg verð að segja, að jeg hefði kunnað betur við, að hann hefði verið svo hreinskilinn að koma ekki með það í alveg svona þykkum umbúðum eða farið þessa króka með það. En hv. þm. er nú svo vanur að þræða refsneiðing, að það er varla til neins að fást um það við hann.

Hv. þm. sagði, og lagði sárt við, að þetta væri ekki árás á stjórnina. Nei, það er ekki árás á alla stjórnina, heldur einungis á mig. Jeg leyfi mjer að spyrja hv. þm.: Hversvegna kemur hann ekki með vantraustsyfirlýsingu hreint og beint? Það hefði legið beinast við. Því það má hv. 1. þm. Árn. (MT) vita, að ef hann safnar meirihl. á móti mjer, dettur mjer ekki í hug að sitja einni mínútu lengur í þessum sessi. Hinsvegar mun jeg ekkert skeyta um það, þó hv. þm. (MT) sje að svala reiði sinni á mjer út af einhverri óvild til mín. Hann verður að koma með slíka till. fram á þinglegan hátt, ef hann vill fá tilætlaðan árangur.

Hv. þm. var ýmislegt að segja um Íhaldsflokkinn. Hann er þar ekki flokksmaður, enda var það alt rangt, sem hann sagði um hann. Flokkurinn hafði engin afskifti af því, hvernig skift var verkum í stjórninni; það gerðum við sjálfir og ágreiningslaust. Hann var, hv. flm., að gefa það í skyn, að jeg væri óvinur Flóaáveitunnar. (MT: Nei, nei!) Er þetta ekki rjett hermt? (MT: Nei!). Jeg gat ekki skilið hv. þm. öðruvísi. Ef hann vill jeta þetta ofan í sig, má hann vel gera það, og verði honum að góðu. (MT: Jeg nefndi ekki Flóaáveituna!) Nei, það er satt, en þessi þm. er svo alvanur að tæpa á skoðun sinni, að maður verður að geta í eyðurnar. En fyrst hann átti ekki við Flóaáveituna, er mjer hulin ráðgáta, hvað það var, sem hann átti við, og skora jeg á hann að segja það.

Þá mintist hann á umr., þegar ráðherrum var fjölgað, og hjelt hann, að jeg hefði sagt, að sú ráðstöfun ætti einungis að gilda meðan stríðið stæði. Þetta er ekki rjett skýrt frá. Jeg kom með brtt. um, að lögin skyldu gilda meðan stríðið stæði, en hún var feld. Jeg veit ekki annað en að lögin frá 1917, um tölu ráðherra, standi óhreyfð, veit ekki hvenær þau voru numin úr gildi, en kanske lögvitringurinn úr Árnessýslu geti upplýst það. Hingað til hefir verið gengið út frá, að ráðherrar væru þrír. Jeg skil ekki, að sje hægt að liggja neinum á hálsi, þó farið sje eftir því, sem lög mæla fyrir. Ennfremur sagði hv. flm. (MT), að jeg hefði ekkert að gera sem atvinnumálaráðherra. Jeg skal segja hv. þm., að þetta veit hann ekkert um, hann hefir aldrei verið í stjórnarráðinu. Jeg geri ráð fyrir, að jeg hafi meira að starfa en hv. 1. þm. Árn. (MT), að minsta kosti má hann vera alllangan tíma frá sínu embætti. Mjer er líka sagt, að hann hafi farið til Ítalíu til að læra af Mussolini. En einhvernveginn hefir þetta nám farið í handaskolum, því að hv. þm. þykir lítið lærðari í stjórnvisku nú en áður, og hefir hann sýnt það rækilega í dag.

Að síðustu er rjett að geta þess, út af ummælum þessa sama hv. þm. (MT), að jeg mundi hafa lítið að starfa, að jeg býst við að hafa meira að gera en hann, ef dæma má eftir, hve mikið hann hefir verið fjarverandi frá embætti sínu, fyrst í utanför, og nú á þingi, án þess að hann hafi sett annan í sinn stað en skrifara sinn. Mjer finst því, að hann ætti að sleppa öllum hnútum um slíkt, því að þeim verður kastað að honum aftur, og hann er berskjaldaður fyrir.