02.05.1924
Sameinað þing: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

104. mál, fækkun ráðherra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir eiginlega tekið aftur þessa vantraustsyfirlýsingu á mjer að öllu leyti og lýst því yfir, að ekki væri um vantraust að ræða, heldur aðeins um minna traust á mjer en hinum ráðherrunum. Jeg get ósköp vel sætt mig við það og tel það enga niðrun við mig. En jeg hjelt, að það væri meiri kjarkur í svo stórum búk en það, að hv. þm. (MT) væri eftir 10 mínútur búinn að taka það aftur, sem enginn gat skilið öðruvísi en beina árás á mig. En úr því hann hefir tekið orð sín aftur, hefi jeg auðvitað enga ástæðu til að skattyrðast við hann út af þeim ummælum. Hann var að tala um það, hvað það væri undarlegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) væri hvað eftir annað að fara inn á mitt svið, sagði þess mýmörg dæmi, nefndi aðeins eitt, og það voru vegalögin. Jeg veit nú ekki, hvort mönnum kemur það undarlega fyrir, að hæstv. fjrh. (JÞ) skuli tala um vegalögin, þegar það er athugað, að hann var í mörg ár vegamálastjóri á þessu landi. Og jeg skammast mín ekkert fyrir að játa, að hann er miklu betur að sjer í vegamálum en jeg.

Hv. þm. (MT) var að tala um, að við ráðherrarnir værum ekki altaf samdóma. Jeg skil ekki í, að það sje svo undarlegt í sjálfu sjer, þar sem stjórnin tekur við á miðju þingi, og það eru ekki hennar mál, sem borin eru fram, heldur er bygt á grundvelli fyrv. stjórnar. Annars hefði hv. þm. (MT) ekki átt að tala um vegalögin mjer til hnjóðs, hann var mjer sammála um þau, en ekki hæstv. fjrh. (JÞ).

Hann kvaðst hallast að minsta flokknum í þinginu. Jeg veit ekki, hvert hann hallast, en jeg hjelt, að hann væri ekki í minsta flokknum, en skal þó taka það trúanlegt, að hann sje jafnaðarmaður, fyrst hann segir það sjálfur. Hann talaði mikið um valdalystarleysi. Jeg veit, að hann þjáist ákaflega mikið af því, og vorkenni honum (!!!).

Jeg bið forláts, ef jeg hefi misskilið hv. þm. (MT) hvað Flóaáveituna snertir, en svo var að heyra sem jeg hefði ekki skift mjer mikið af henni. Jeg er nefnilega aðalhvatamaður þess, að hún komst á, en það er ekki von að hann, sem sjálfur er þm. úr Flóanum, viti það.

Það er ekki rjett, að jeg hafi brigslað honum um lítið lagavit. Jeg bað hann aðeins að benda á, hvenær lögin frá 1917 hefðu verið numin úr gildi, taldi víst, að hann gæti það af sínu lagaviti. Hann tók það sem háð.

Það er ekki rjett, að stjórnarskráin hafi tæmandi ákvæði um ráðherra; mörg ákvæði um þá eru ekki þar. Svo sagði hann, að jeg hefði brugðið sjer um sjálfbirgingsskap í gær. Það er misskilningur; jeg sagði aðeins, að jeg væri ekki svo mikill sjálfbirgingur, að jeg væri viss um, að jeg liti rjettast á hvert mál.

Hann hefir altaf talað um, hvað hann borgi mikið úr eigin vasa í skrifstofukostnað. Það eru nú 702 kr., og jeg vorkenni honum. En er ekki von, að hann borgi meira, þegar hann er svona lítið við sitt starf?

Hann hjelt, að jeg þyrfti höftin til að útvega mjer atvinnu. Þar skýtur skökku við; jeg gat verið í embætti án þeirra. Og það er líka hægt að vera í embætti án þess að vinna öllum stundum, það veit hv. þm. (MT) vel. Jeg býst við, að jeg hafi nóg að gera, alveg eins mikið og hann með sínum góða skrifara.

Hv. þm. (MT) var að gefa í skyn, að jeg væri góður nautamaður. Já, jeg hefi hirt naut, og jeg skal segja hv. þm. (MT) það, að jeg skammast mín ekkert fyrir það og að kunna nokkuð vel til þess starfa. Og jeg skil ekki, að hv. þm. skuli vera svona mikið í nöp við mig út af því. Ekkert ætti hann að þurfa að óttast út af þessu, því að jeg tek ekki öll naut til hirðingar, sum tek jeg til hirtingar, og það skyldi þá vera það, sem þm. er illa við.

Hv. þm. (MT) nefndi „politískar lygar“ og umgekst þau orð með töluverðri þekkingu, sem jeg reyndar öfunda hann ekki af. En einmitt af því, hvað hann er vel að sjer í þeim fræðum, treysti jeg mjer þar ekki til við hann, heldur játa fúslega hina ótvíræðu yfirburði hans yfir mjer á því sviði.

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að ólöglegt væri, að ráðherrar væru tveir, þegar svo er að farið sem hjer hefir verið, að annar þeirra hefir verið settur til að gegna 2 embættum og haft 1½ ráðherralaun, en þá verður lítið úr sparnaðinum, sem hv. þm. (MT) hefir fóðrað till. sína með. Það er kunnugt, að jeg vil aðeins hafa 1 ráðherra, en meðan lögum er ekki breytt í það horf, vil jeg fara eftir lögunum.