05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3222)

104. mál, fækkun ráðherra

Sveinn Ólafsson:

Það er ljóst orðið af þeim umræðum, sem orðið hafa um tillögu þessa, að samþykt hennar leiðir ekki til fækkunar á ráðherrum í þetta sinn. Jeg kannast þó við, að sú skipun, sem komin var á áður, að hafa ráðherrana aðeins tvo, er bæði eðlileg og sjálfsögð, þegar draga verður úr öllum fjárframlögum vegna fjárþurðar, en nú er svo um búið að ráðherrum verður ekki að sinni fækkað. Læt jeg mjer því á sama standa, hvernig um tillöguna fer. Hinsvegar vil jeg taka það fram, út af rökstuðningi hv. flm. (MT) fyrir till., að mjer fanst hann mjög ómaklega og ástæðulítið skjóta olnbogaskotum að hæstv. atvrh. (MG).

Um þetta mál mun jeg hafa nokkra sjerstöðu. Jeg verð, eins og nú er málum komið, að telja það einskonar fjölskyldukrit þeirrar stóru stjórnarfjölskyldu. Þar sem tillaga þessi er flutt af einum manni úr flokki þeim, er studdi hæstv. stjórn til valda, eða að minsta kosti hjet henni hlutleysi. Tel jeg því rjettast, að mál þetta verði jafnað á ráðstefnu fjölskyldunnar. Jeg hefi mikla tilhneigingu til þess að halda mjer utan við þessi einkamál, og vildi því helst komast hjá að greiða atkvæði um þau. Það er því ofurskiljanlegt, að jeg legg hvorki með nje móti till, en hefi aðeins viljað skýra frá aðstöðu minni til hennar.

Hverja meðferð hv. flm. (MT) vill hafa á tillögu þessari, læt jeg hann einan um. Býst jeg við, að hann ráðfæri sig við sitt eigið hjartalag, frændur og vini, og jafnvel fleiri, um slíkt mál, og taki þá, ef til vill, till. aftur.