05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

104. mál, fækkun ráðherra

Jakob Möller:

Það var þetta sjóðspursmál, sem jeg ætlaði að fara nokkrum orðum um.(Forseti JóhJóh: Það mál er hjer ekki til umræðu.) Það þykir mjer undarlegt. Það hefir þegar verið rætt hjer allmikið, og það er ekki jeg, sem hefi dregið það inn í þessar umr. En jeg hygg, að það sje rjettmætt, að jeg fái einnig að skýra þetta mál með nokkrum orðum. Mjer sýnist eins og þær umr., sem hjer hafa farið fram, varpi einskonar „komiskum“ bjarma yfir hið háa Alþingi, þegar eytt er miklum og dýrmætum tíma til þess að þjarka um það, hvort til hafi verið í sjóði svo mörgum milj. kr. skiftir, eftir það, að samkv. landsreikningnum hefir þau ár undanfarið verið stórkostlegur tekjuhalli árlega. Ráðherrarnir þjarka um það, hvort litlir peningar hafi verið til eða ekki, til að verja til Flóaáveitunnar 1922, en allir vita, að stórkostlegur tekjuhalli var á fjárl. 1921. Mjer finst lítil ástæða til þess að blanda stórpólitík inn í þetta mál. Það liggur bein sönnun fyrir öllu þessu, lán til Flóaáveitunnar var tekið 1920, 1921 var enska lánið tekið, og stjórnin fær af því l½ milj. kr., og þó er því haldið fram, að peningarnir frá Flóaáveituláninu hafi enn verið til. Það liggur í augum uppi, að þetta er hrein og bein blekking, peningarnir eru og hafa verið eyddir. Vitanlega eru bókaðar upphæðir, sem ekki heyra tekjunum til, svo sem innieign í landsversluninni, enda er skiljanlegt, að þessi stóru lán eru öll eydd, og tekjuhalli, sem hleypur á milj. á hverju ári.