05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

104. mál, fækkun ráðherra

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer dettur ekki í hug að halda, að sjálfur bankaeftirlitsmaðurinn (JakM) skilji ekki þetta mál og viti ekki, að jeg hefi farið rjett með. En það fer svo fyrir honum hjer sem oftar, að hann hirðir lítt, hvort hann fer með rjett eða rangt. En það er næsta barnalegt af honum að halda, að ekki geti hafa verið mikið í sjóði í árslok 1921, af því að tekjuhalli var árið 1921. Þetta snertir sem sje ekki hvað annað, því að það var tekið lán, eins og kunnugt er, bæði 1920 og 1921,og þau gerðu mikið meira en vega upp tekjuhallann. Þetta veit hv. 3. þm. Reykv. (JakM) vel, en jeg hefi orðið að benda á þetta af því, að hann fann sig knúðan til að vefengja rjett ummæli mín, til þess að hjálpa nauðstöddum vinum sínum. Get jeg að sönnu vel viðurkent, að hann eigi þeim ógoldnu skuld, en hana verður hann að gjalda að sínu, en ekki á minn kostnað. Að hv. þm. viti betur en hann nú hefir sagt, dettur mjer ekki í hug að efast um.