05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (3240)

137. mál, íslenskt happdrætti

Flm. (Magnús Jónsson):

Það er vonandi, að ekki dragist stórpólitík inn í þetta mál, eins og það, sem hjer var næst á undan, og vænti jeg, að þessu máli fáist lokið á tiltölulega stuttum tíma. Það er í þessari till. til þál. talað um tvö mál: happdrætti og landsspítala, og það er von okkar, að þessir aðiljar mættu báðir hafa gott af sambandinu.

Það hefir oft nokkuð skotið upp till. hjer á Alþingi að stofna íslenskt happdrætti. Árið 1912 var rætt um að veita nokkrum mönnum sjerleyfi til þess að stofna hjer innlent happdrætti, og einnig hefir fyrir þetta þing verið lagt frv. um sama efni, og er það í nefnd, og því ekki líkur til, að því verði lokið á þessu þingi hjeðan af. Það er svo með þessi happdrætti, að menn greinir mjög á um þá aðferð til þess að afla sjer fjár. Þannig hafa t. d. enskumælandi þjóðir allar mjög mikinn og illan bifur á því, og í Bandaríkjunum veit jeg til þess, að þar er það talið algerlega óheiðarlegt að viðhafa þá aðferð. Aftur eru það aðrar þjóðir, sem líta á þetta á annan veg og leyfa happdrætti í mismunandi stórum stíl. Einkum eru það smáþjóðirnar. Stórþjóðir, eins og t. d. Bandaríkjamenn, hafa nóg fje, enda mundu þeir selja mest af happdrættismiðum sínum innanlands og því ekkert á því græða. En smáþjóðirnar grípa þessa aðferð til þess að veita peningastraumum inn í land sitt. Ber ekki á, að þær fari með álit sitt á því. Enda hafa sumar aðrar þjóðir annað í fari sínu, sem engu minni fjárglæfrar eru, en þótt þær leyfðu happdrætti, eins og t. d. hin alþektu veðmál.

Auk þessara almennu happdrætta er það ekki ótítt að hafa happdrætti í smáum stíl, sem eru rekin til ágóða fyrir ýms góð þjóðþrifafyrirtæki, t. d. fyrir söfn og þessháttar stofnanir. Þetta er allhentug aðferð og enganveginn varhugaverð. Hjer vita menn til þess, að mjög stórar upphæðir fara árlega út úr landinu fyrir þátttöku í erlendum happdrættum. Til þess að reisa skorður við því, að mikið fje fari út úr landinu á þennan hátt, verður ekki önnur aðferð fundin en sú, að við gleypum sjálfir það fje, sem annars fer til útlendinga. Hinsvegar gerum við það að tillögu okkar, að ágóðinn af happdrættinu renni til landsspítalans fyrirhugaða. Jeg þarf ekki að fara langt út í það mál, því allir munu vera sammála um það, að þar sje sú stofnun, sem ekki megi draga öllu lengur að koma á fót. Nú sem stendur verðum við að bjargast við tvo eða aðallega einn erlendan spítala, og er óhugsandi, að svo geti gengið til lengdar. Hjer í bænum er samankominn ekki alllítill hluti af þjóðinni og hjer fer læknakenslan fram, og því má gera ráð fyrir, að hjer eigi jafnan aðsetur ýmsir ágætustu læknar landsins. En alt þetta kemur ekki nema að hálfu gagni meðan okkur vantar spítalann. Og þó ekki væri óhugsandi, að fá mætti St. Jósepssystur til að stækka spítalann í Landakoti, þá mun fæstum þykja það viðeigandi lausn á málinu. Er það líka einróma álit allra, sem um þetta hugsa, að við verðum sem fyrst að undirbúa byggingu landsspítalans. Er einnig á það að líta, að hægt ætti að vera, að koma því svo fyrir, að vistin þar verði ódýrari en gert verður ráð fyrir, að eigi sjer stað á spítala, sem er einstaklingseign. Hinsvegar dylst engum, að landsspítalinn verður dýr stofnun, og kostar það eitt, að koma honum upp, ekki aðeins mikið fje, heldur hlýtur líka rekstur hans að hafa mikinn kostnað í för með sjer. Nú hefir okkur flm. þessarar till. komið saman um það, að vel til fallið sje að sameina þessar tvær hugmyndir, um landsspítalann og happdrættið, og finnist einhverjum óviðeigandi að safna fje með happdrætti, þá er það engum vafa bundið, að sá óhreini blettur verður ekki á annan hátt betur af þveginn en með því að láta ágóðann ganga til stuðnings svo ágætri og nauðsynlegri stofnun. Væri vel, ef spítalanum væri á þann hátt trygður nokkur tekjustofn. Hvernig happdrættinu yrði fyrir komið, höfum við ekki gert okkur neina grein fyrir. Fer till. okkar fram á það, að málið sje falið hæstv. stjórn í hendur til frekari rannsóknar og undirbúnings. Við höfum ekki heldur ákveðið neitt um það, hvort fyrirtækið skuli rekið af ríkinu eða einstökum mönnum, og þótt gert sje í till. ráð fyrir, að ágóðinn renni til landsspítalans, þá er ekkert um það sagt, að allur ágóðinn skuli gera það. Þegar frv. um happdrætti kom hjer fram fyrir nokkru, þá gerðu tveir tillögumenn brtt. við frv. um það, hve mikill hluti ágóðans skyldi ganga til opinberra þarfa. Jeg veit ekki um örlög þessa frv., en það hefi jeg hlerað, að það muni ekki eiga afturkvæmt frá nefnd þeirri, sem hefir haft það til meðferðar. Samt er það ekki fjarri sanni, að hæstv. stjórn hafi það í huga fyrir næsta þing. Vænti jeg þess líka, að hún taki þá líka þessa till. til greina, ef hún verður samþ. Hún hefir bendingu að geyma, í hvaða átt sje heppilegt að stefna, en lætur að öðru leyti alt fyrirkomulag málsins laust og óbundið.