05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

146. mál, frestun á embættaveitingu

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. skýrir sig að mestu sjálf, enda er greinargerðin fyrir henni ekki löng.

Það hefir verið tekinn upp sá siður hjá ýmsum þjóðum, sem hafa átt við erfiðan fjárhag að búa, t. d. hjá Þjóðverjum, að veita ekki embætti, sem losna, heldur setja í þau, sem alls ekki verður án verið. Og jeg hygg, að það væri gott fyrir okkur að taka upp þennan sið, því að með því verður auðveldara að spara í embættismannahaldi og sameina embættin. Mjer hafði fyrst dottið í hug að undanskilja læknisembættin, sökum þess, að víðast hvar mun ógerningur að fækka læknum, en sökum þess, að jeg veit, að á stöku stað mætti ef til vill færa saman læknisembætti, þá hefir mjer þótt rjettara að orða till. eins og hún nú er. Um alla aðra embættismenn, t. d. presta, kennara og sýslumenn, er því svo farið, að þeim má fækka að miklum mun, með samfærslu embætta. Það hafa komið fram sterkar raddir um að sameina sýslumannaembætti og fækka með því sýslumönnum. Sama máli er að gegna um prestana. Það getur vel farið svo, ef kreppan heldur áfram, að annaðhvort verði að aðskilja ríki og kirkju, eða fækka prestum að miklum mun. Það er aðeins ein undantekning gerð í till., þannig, að ef stjórnin sjer sjer fært að losna við dýrt embætti með því að veita annað ódýrara, þá er henni það heimilt.