05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3257)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er sennilega mörgum í þessari hv. deild kunnugt, að í holdsveikraspítalanum í Laugarnesi er töluvert autt rúm, sem alls ekki er notað sem stendur. Þetta húsrúm er svo mikið, að þar mætti hafa um 40 sjúklinga fram yfir það, sem nú er. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir leitað samninga við stjórn spítalans um að fá húsrúm þetta fyrir gamalmenni, sem eru á bænum. Þessar samningatilraunir hafa strandað á einhverjum formsatriðum, og þykir mörgum í bæjarstjórninni það mjög leitt. Það eru mörg gamalmenni á sveitinni, sem ilt er að koma fyrir, og það virðist því vera synd að láta þetta góða húsrúm, sem holdsveikraspítalinn hefir yfir að ráða, standa autt að nokkru leyti. Það er eftir ósk ýmsra merkra manna í bæjarstjórninni, að jeg ber þessa till. fram, og jeg veit, að stjórnin reynir að koma því í kring, að bærinn fái húsrúm þetta til afnota fyrir gamalmenni sín.

Það finst máske sumum óviðkunnanlegt að flytja heilbrigt fólk í holdsveikraspítalann, en í því sambandi vil jeg benda á, að það hefir aldrei nein smitun átt sjer stað í Laugarnesi, og má víst fullyrða, eftir reynslunni, að engin hætta yrði að slíkri ráðabreytni. En það má hinsvegar vel vera, að ekki náist samkomulag um þetta við Oddfellowregluna, en mjer finst samt sjálfsagt að reyna það, því að það er bæði hagsmunamál fyrir bæinn og mannúðarmál gagnvart gamalmennunum.