05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (3259)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Halldór Steinsson:

Það er eiginlega óþarfi fyrir mig að taka til máls eftir ræðu hæstv. forsrh. (JM). En jeg vil taka það fram, að mjer finst till. þessi svo varhugaverð, að jeg get alls ekki greitt henni atkvæði. Jeg hefi átt tal við holdsveikralækninn, prófessor Sæmund Bjarnhjeðinsson, um þetta mál, og hann er þessu algerlega mótfallinn. Hann kvaðst hafa átt tal um þetta við aðalfrumkvöðla holdsveikraspítalans, þá Dr. Ehlers og Petrus Bayer, og væru þeir sjer sammála um, að slík sameining ætti ekki að eiga sjer stað.

Það er mjög varhugavert að hafa saman heilbrigða og sjúka, sjerstaklega sjúklinga með smitandi veiki. Ef það ætti að koma til mála, þyrfti það húsrúm, sem hverjum fyrir sig, hinum sjúku og heilbrigðu, er ætlað, að vera stranglega aðskilið og enginn samgangur þar á milli. En slíkt má telja óframkvæmanlegt á spítölum hjer. Auk þess er það beinlínis ómannúðlegt að bjóða heilbrigðum gamalmennum vist innan um holdsveika.

Eins og hæstv. forsrh. (JM) tók fram, er nokkurt húsrúm autt á holdsveikraspítalanum. Sjúklingar eru þar nú 42, en það mun von á fleirum bráðlega, og þá þarf að nota eitthvað af því húsplássi handa þeim. Það húsrúm, sem er autt, er læknisbústaðurinn og ráðsmannsbústaðurinn, og er það sökum þess, að spítalalæknirinn býr í Reykjavík, og hann hefir einnig tekið að sjer ráðsmannsstörfin. En þegar læknaskifti verða næst við spítalann, getur vel farið svo, að þetta húsrúm þurfi að nota. Það eru því engar líkur til þess, að í náinni framtíð verði mikill afgangur af húsnæði spítalans. En þegar holdsveikir sjúklingar eru orðnir svo fáir, að þeir eru aðeins 10–20 á öllu landinu, þá finst mjer, að væri rjettast, að landið reisti sjerstakt skýli, hæfilega stórt fyrir þá tölu, en spítalabyggingin, sem nú er, væri tekin til annara afnota.

Jeg er því algerlega á móti þessari till., eins og hún nú liggur fyrir, en legg til, að henni sje vísað til stjórnarinnar.