05.05.1924
Efri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

147. mál, holdsveikraspítalinn

Flm. (Jónas Jónsson):

Af hverju lætur holdsveikralæknirinn a. m. k. 20 sjúka menn vera hingað og þangað úti um landið? Hví lætur hann þá ekki á spítalann? Það er ómögulegt að svara því öðru vísi en með því, að hann álítur sjúkdóminn svo lítið smitandi, að engin hætta stafi af þeim úti um land. Jeg veit líka, að engir af starfsmönnum sjúkrahússins hafa smitast þar öll þessi ár, sem spítalinn hefir starfað. Það er því beinlínis vítavert af lækninum að hindra það, að gamalmenni fái þar skjól í elli sinni. Og jeg held því fram, að dómur þessa sjerfræðings, eftir framkomu hans í þessu máli, sje að engu hafandi. Honum virðist vera það kappsmál að hafa spítalann heldur auðan en að lofa að nota hann fyrir gamalmenni. En samhliða lætur hann holdsveikissjúklinga vera dreifða úti um alt land.