03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3274)

51. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Flm. (Ágúst Flygenring):

Það þýðir ekkert, að jeg fari út í ástæðurnar fyrir þessari till., úr því hún er nú niður fallin. Mun og hv. þm. vera kunnugt um ástæður mínar. Það hefir, eins og menn vita, dregist nokkuð að skipa mann í þetta embætti, og með því að jeg og ýmsir fleiri líta svo á, að embættið hafi aldrei verið stofnað af neinni nauðsyn, þá þótti mjer rjett, á þennan hátt, að stuðla til þess, að það drægist lengur, og athuga, hvort ekki væri auðið að gera aðra skipan á eftirliti með sparisjóðum og bönkum. En nú, úr því að búið er að flaustrast til að skipa mann í embættið, er ekkert framar að gera. Þótti mjer undarlegt, hve sviplega var undinn svo bráður bugur að þessu nú, og kynleg tilviljun, að það skyldi bera upp á sama dag og jeg kom fram með þessa till. Er leitt, að svo skyldi fara, því þetta starf er hjegómi einn og kemur að engum notum, meðan svo er að öðru leyti um hnútana búið sem hjer er, að því er þetta eftirlit snertir.