03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

51. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jakob Möller:

Af því það vildi svo til, að það varð jeg, sem skipaður var í stöðu þessa, þá vil jeg nú nota tækifærið til þess að lýsa yfir því, að verði það vilji Alþingis að leggja niður þetta embætti, þá er jeg reiðubúinn að láta af því endurbótalaust.

Annars vil jeg benda á það, að þetta embætti er ekki sá hjegómi sem hv. flm. (ÁF) gefur í skyn, enda myndu aðrar þjóðir ekki stofna slík embætti, ef þær litu svo á. Er auk þess ekki langt síðan, að það kom í ljós hjer, að fylsta þörf er á slíku embætti. Annars kemur það greinilega í ljós, að hv. flm. misskilur starf þetta mjög. Hjer er ekki um neinn yfirbankastjóra að ræða, heldur hlutlausan mann, sem ekki kemur nærri framkvæmdarstjórninni; hann á bara að vaka yfir því, að reksturinn gangi ekki í ólestri. Annars er ástæðulaust að rökræða það nú, hvort embætti þetta sje nauðsynlegt eða ekki, en ef fram kemur frv. um það síðar að leggja það niður, þá mun jeg gera grein fyrir skoðun minni í því efni.