28.03.1924
Efri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

107. mál, niðurlagning vínsölu á Siglufirði

Flm. (Einar Árnason):

Sú er meðal annars ástæðan fyrir því, að jeg flyt þáltill. þessa, að á þingmálafundi á Siglufirði 21. jan. þ. á. var samþ. svohljóðandi tillaga:

„Fundurinn skorar á Alþingi, að gera þegar í stað þá breytingu á áfengisverslun ríkisins, að afhendingarstaður vínanna verði aðeins einn á landinu, og vínin aðeins afgreidd eftir pöntunum neytenda, en engar birgðir hafðar fyrirliggjandi annarsstaðar, eins og nú er“. — Tillagan var samþykt með 69: 11 atkv.

Eftir svo að þingið kom saman, var send hingað áskorun frá 318 kjósendum, þar sem þeir skora á Alþingi að hlutast til um, að útsölustaður áfengisverslunar ríkisins á Siglufirði verði lagður niður fyrir 1. maí n. k. og vínbirgðir þær, sem þá væru eftir, yrðu fluttar burtu. Áskorun þessi var lögð fram á lestrarsal þingsins, og vænti jeg því, að hv. þm. hafi kynt sjer hana.

Jeg verð nú að taka það fram, að jeg er ekki persónulega kunnugur því, hver fjárhagsleg eða siðferðisleg áhrif þessi vínsala hefir á ástand manna á Siglufirði. Verð jeg því að byggja mín rök fyrir þessari till. á þeim ástæðum, sem þessir kjósendur byggja kröfur sínar á. Þeir telja, að það sje ekki þörf á að hafa tvo útsölustaði vína þessara á Norðurlandi, fremur en á Vestur- og Austurlandi. Er sú ástæða fullkomlega á rökum bygð, sjerstaklega þar sem Siglufjörður er svo skamt frá Akureyri, og auðvelt að ná til útsölunnar þar. Ennfremur telja þeir, að hvergi sje eins hættulegt, utan Reykjavíkur, að hafa vínútsölustað, eins og þar. Því að á sumrin hópast þangað fjöldi manna í atvinnuleit hvaðanæfa af landinu, og auk þess fjöldi útlendinga. Fá margir þessara manna mikinn hluta árstekna sinna þar. Telja nú þeir, er áskorunina senda, að mjög skerðist tekjur þessara manna. Vegna vínsölunnar, því að alkunnugt er, að fjöldi þessara manna eru mjög vínhneigðir, og láta því oft sinn síðasta eyri fyrir áfengi.

Ennfremur er talið, að í skjóli þessarar vínsölu þrífist allskonar tollsmyglun vína, launsala og bannlagabrot, sem geri alt lögreglueftirlit mjög erfitt.

Eins og jeg tók fram áðan, þekki jeg ekki sjálfur persónulega, hvernig þetta ástand er, og verð því að byggja á ástæðum kjósenda, og leyfi mjer því að lesa upp úr áskorun þeirra orðrjettan kafla, sem hljóðar svo:

„Í fjórða lagi viljum vjer taka það fram og undirstrika það, að síðan áfengissalan var sett hjer niður, er daglegum friði vor Siglfirðinga spilt svo — að minsta kosti að sumrinu til — að óviðunandi er framvegis. Hávaði og friðarspjöll ölvaðra manna hafa keyrt svo úr hófi fram, að sóma bæjarins og velferð borgaranna er teflt á fremsta hlunn“.

Við þetta hefi jeg engu að bæta. En ekki verður því neitað, að ummæli þessi, frá meirihl. alþingiskjósenda á Siglufirði, eru næsta alvarleg og athyglisverð. Og þó að þau standi hjer á ábyrgð þeirra, þá efast jeg ekki um, að við þau verður staðið hvar sem er.

Viðvíkjandi áfengisútsölunni vil jeg taka það fram, að mjer er ekki kunnugt um, að nokkur krafa sje af Spánverja hendi um það, hve margir útsölustaðir eigi að vera hjer á landi. En um það er mjer aftur kunnugt, að bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar hefir á sínum tíma beðist undan vínsölu þessari. Tel jeg því sjálfsagt að verða við þessum óskum þeirra og losa þá við áfengisútsöluna.

Hinsvegar er mjer ekki kunnugt um, hvort hæstv. stjórn getur svarað nokkru ákveðnu á þessu stigi málsins, og get jeg vel búist við að svo sje ekki. En ef jeg fæ þau svör frá hæstv. forsrh. (JM) að hann sje fús til að taka þetta til athugunar og gera sitt til þess að verða við óskum Siglfirðinga í þessu, mun jeg ekki halda till. minni til streitu.