12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Björn Líndal:

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hefir tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg get fyllilega tekið undir það, að Sigurður Nordal sje einhver allra efnilegasti vísindamaður vor. Mjer hefir frá upphafi þótt mjög mikið til alls þess koma, sem hann hefir skrifað, og álit mitt á honum hefir aukist við hverja nýja bók, sem jeg hefi sjeð eftir hann. Sjálfur þekki jeg hann ekki persónulega, enda skiftir það ekki miklu. Jeg vildi gjarnan geta gert sem mest fyrir þennan mann, en get þó ekki mælt með þeirri leið, sem hjer er lagt til, að farin verði.

Mikið hefir verið talað um föðurlandsást á þessu landi og skáldin hafa ort um hana svo fögur ljóð, að naumast verður lengra komist. Ekki vantar orðin, en þegar á að sýna hana í verki, verður oftast minna úr. Nú virðist jafnvel eiga að fara að meta það til peninga, að vera Íslendingur. Það lítur næstum út fyrir, að það ætli nú að koma fram, sem Stephan G. Stephansson spáði fyrir mörgum árum, að vjer mundum verða fúsir á að selja ættarböndin við Snorra Sturluson fyrir krónur, ef einhver vildi kaupa.

Það hefir til skamms tíma verið talin sjálfsögð ræktarsemi góðs sonar til móður sinnar að yfirgefa hana ekki í neyðinni, þótt betra kaup kunni að bjóðast annarsstaðar. Hjer er þess aftur á móti krafist, að fátæk móðirin keppi við ríkan nágranna um son sinn. Geti synir íslensku þjóðarinnar ekki sætt sig við að vinna fyrir þjóð sína og föðurland með þeim kjörum, sem það getur boðið, og með þeim kjörum, sem aðrir gera sjer að góðu, þá sje jeg ekki annað hyggilegra ráð en veita þeim fararleyfi og óska þeim góðrar ferðar.