12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (3299)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er mála sannast, að við Íslendingar eigum um þessar mundir örðug viðskifti við frændur vora Norðmenn. Við viljum fúsir selja þeim kjöt, en þeir leggja á það svo háa tolla, að nærri stappar aðflutningsbanni. Í stað þess að þiggja kjötið ótollað, þá sækja þeir nú fast að fá til sín þann manninn frá Háskóla Íslands, sem íslensk menning má síst missa. Nú mundi það Alþingi, er nú situr, vinna þarft verk og vera lengi í minnum haft, ef því tækist að snúa þessu við, þannig, að íslensk menning fái að njóta próf. Sig. Nordals, en Norðmenn tæki hinsvegar við kjötinu tolllaust.

Það er raunar satt, að vjer lifum á hinum örðugustu tímum. Hagur landsins er bágborinn, og það verður að spara í öllum greinum. En aldrei er brýnni þörf á að gera rjettan greinarmun góðs og ills en á slíkum tímum. Það getur aldrei verið nein viðreisn í því fólgin að spara jafnt gott og ilt, þarft og óþarft. Viðleitni þings og þjóðar á að stefna í þá átt að spara það, sem vjer megum án vera, en halda á hinn bóginn sem fastast í alt það, sem menning vor og þjóðlíf ekki má án vera. Þar sem ónýtir menn sitja í þörfum embættum, verður að hreinsa til og setja aðra í staðinn. Þar sem þarfir menn sitja í óþörfum embættum, verður að flytja þá þangað, sem þeir njóta sín betur og þjóðin þeirra. En þar sem ágætir menn sitja í virðulegum stöðum, þá má vinna mikið til að halda þeim. Í því er viðreisnin ekki síst fólgin. Það er lítilmannleg sparsemi í því að flytja út okkar bestu menn, til að losna við að gjalda þeim kaup. Og þótt þjóðarnauðsyn sje að vanda sem best alla útflutta vöru, þá skýtur svo skökku við um vöruna og mannfólkið, að þar sem eingöngu eru gerðar ráðstafanir til að hindra útflutning ljelegrar vöru, en ekki góðrar, þá er engu síður nauðsynlegt að hindra útflutning hinna ágætustu manna, en láta aftur á móti ónytjungana fala.

Það er að vísu svo, að sómi er að því að eiga ágæta fulltrúa í öðrum löndum. En þó er það enginn sómi að láta taka af oss þá menn, sem menning okkar má síst án vera. Og hvað sem öllu umtali erlendis líður, þá verður það jafnan vor mesti heiður, að hjer þróist göfugt og glæsilegt þjóðlíf heima fyrir. Gott umtal á aldrei að kaupa, hvorki með fje nje útflutningi fólks. Ef þjóðlíf vort er sjálflýsandi, þá auglýsir það sig sjálft. Þá leita hingað góðir gestir, sem bera út hróður vorn meðal annara þjóða. Þá þarf engu að kosta til að auglýsa menning vora og fullveldi erlendis.

Það er almannarómur, að það verði að leggja niður embætti próf. Sig. Nordals um stundarsakir, ef hann hverfur af landi burt, og er þá íslenskum fræðum við háskólann hætta búin. Í frv. til laga um breytingu á háskólalögunum, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) ber fram, er svo fyrir mælt, að embætti þetta „skuli einungis veita, þá er til fást menn, sem að dómi háskólaráðsins eru sjerstaklega vel hæfir“. Í þessu ákvæði lýsir sjer rjettur skilningur á því, að þeir hæfileikar eru fágætir, sem gera embætti þetta nokkurs virði. Sje það illa skipað, verður það ónýtt, en vel skipað er það eitt hið gagnlegasta og virðulegasta embætti þjóðarinnar. Um þetta býst jeg við, að allir geti verið sammála. En þá hljóta menn og að vera sammála um hitt, að ekki megi með nokkru móti sleppa ágætum manni, þegar hans er kostur. Próf. S. N. fyllir betur sæti sitt en venja er til um menn í andlegum embættum. Jeg treysti honum betur en nokkrum öðrum núlifandi Íslendingi til þess að blása lífsanda í duft sögunnar og veita hlýjum straumum erlendrar menningar úr suðri og austri upp að ströndum vorum. Jeg skal ekki draga dul á það, að við, sem stöndum að þessari till., erum þess fullvissir, að próf. S. N. verði oddviti íslenskra bókmenta á næstu árum, ef við fáum að njóta hans. Það er því ekki hann einn, sem við óttumst að missa, heldur einnig áhrif hans á unga rithöfunda og bókmentir þjóðarinnar um næstu áratugi. Til þess getum við ekki vitað. Þá mundu minka vonirnar um, að nú hefjist aftur „hinn stóri stíll í íslenskum bókmentum“, eins og dr. Helgi Pjeturss segir um „Nýal“ sinn, ekki að ástæðulausu. Við vitum vel, að það er til mikils mælst, að veittur sje ríflegur rithöfundastyrkur nú á þessum tímum, þegar sýna þarf á flestum sviðum meiri hörku en oss er ljúft. Við virðum það fúslega til vorkunnar, þótt þeir, sem ekki sjá, hvað er í húfi, sjeu mótfallnir tillögu okkar. Það þarf mikla trú á próf. S. N. til að fylgja tillögunni. Og honum eru bundnir þungir baggar, ef hún nær samþykki hv. Alþingis. En við erum þess fullvissir, að hann muni lyfta þeim, til ómetanlegs gagns fyrir íslenskar bókmentir.

Starf ágætra rithöfunda fyrir þjóð sína er ómetanlegt. En það verður oft minna um launin frá þjóðunum sjálfum. Hvergi er meiri munur góðs og ills en í bókmentunum, en hjer verða ritlaunin fyrir gott og ilt oftast svipuð — sem sje öllum ónóg. Það má segja eitthvað líkt um þetta eins og meistari Jón segir um líðan fordæmdra í helvíti, að kvalirnar sjeu að vísu mismunandi, en þó öllum óbærilegar. Jeg gæti vel þolað, að ein undantekning yrði frá þessari reglu. Jeg veit, að þjóðin mundi ekki hneykslast á því, þótt launin við hið virðulegasta embætti, sem hún hefir stofnað til menningarbóta, komist upp fyrir að vera helmingur af launum yfirbyrlarans við vínverslunina. Það þarf ekki að óttast, að launaviðbótin leiði til auðsöfnunar. Tilgangurinn er sá einn, að próf. S. N. geti notið sín, óbundinn af fjárhagsörðugleikum, og hagað starfi sínu án tillits til launanna. Íslenskum bókmentum er ekki ofgoldið, þótt þessi styrkur yrði veittur. Bókmentirnar eru enginn óþarfi handa skuldlausum þjóðum einum, ekkert óhóf fyrir auðkýfinga, heldur eru þær fjöregg þjóðanna, og oft hið eina fjöregg fámennra þjóða og fátækra. Vel megum við muna, að í bókmentum vorum að fornu og nýju á viðreisn Íslands og fullveldi upptök sín, og mun svo enn verða.