22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

92. mál, þegnskylduvinna

Flm. (Magnús Jónsson):

Það mætast hjer þær tvær stefnur, sem jeg gat um áðan, að þegnskylduvinnuhugmyndin hefði áður verið borin fram af. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt hjer fram „idealismanum“, sem eina grundvelli málsins. En jeg lagði áherslu á hitt, að ef þegnskylduvinnan ætti að koma að gagni, þá yrði hún að vera „praktisk“. „Idealisminn“ er auðvitað skemtilegur. En jeg er miklu hræddari um það, að áhugalausu mennirnir dræpu þá þegnskylduvinnu, sem bygð er á tómri hugssýni og frelsi, heldur en hinu. Því að það þyrfti ákaflega mikla hugsýni, ef nokkrir menn ættu stöðugt að vinna undir þeim, sem lítinn eða engan áhuga hefðu. Það gæti aldrei gengið lengi. Einmitt til þess að halda áhuganum við, þarf einhverja fjötra. Þeir verða aðeins að vera sem mýkstir. En hjer þarf aðhald, svo að lakari hluti manna sleppi ekki betur en sá betri.

En annars sje jeg ekki, hversvegna þarf að vinna þegnskylduvinnuna af „idealisma“. Ekki borga menn tolla nje skatta í ríkissjóð af „idealisma“. Alt slíkt er gert að skyldu. En jeg get ekki sjeð nein þrælabönd í því, þótt menn verði að leggja fram vinnu í stað peninga. Þetta er að fara kringum málið, að telja slíkt erfiðara. Þvert á móti. Maður hjer vill hjálpa pilti til náms. Hann getur ekki lagt honum fje. En hann getur látið hann borða hjá sjer. Ríkissjóður getur ekki lagt fram fje til alls. En hann getur hjálpað til margs. Jeg held, að ríkið geri of lítið að því að fá menn til þess að gera hitt og annað með ofurlitlum verðlaunum. Í þess stað vilja menn ekkert gera nema fyrir fulla borgun. Þessvegna verður alt svo dýrt fyrir ríkissjóð. En fjeð er lítið, enda kemst fátt í framkvæmd.

Okkur, hv. samþm. minn (JakM) og mig, skilur á um það, hvort treysta eigi á hugsýni í málinu eða „praktiskt“ gildi. Nú mun nefndin athuga möguleikana fyrir frjálsri þegnskylduvinnu, hvernig hún mundi geta komið að gagni, svo að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) er engin nauðsyn að vera á móti málinu, til nefndar a. m. k.