22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

92. mál, þegnskylduvinna

Jakob Möller:

Jeg sagði áðan, að jeg mundi verða á móti málinu, þegar til úrslita kæmi. En jeg hefi ekki hugsað mjer að vera á móti því, að það sje athugað rækilega. Jeg vildi aðeins leggja áherslu á það, að það mundi verða affarasælla að fara þá leið, sem jeg benti á.

Hv. samþm. minn (MJ) var að bregða mjer um of mikinn „idealisma“. En í hvortveggja tillögunni er „idealismi“. En jeg hjelt því fram, að mjer virtist hollast annaðhvort að byggja á honum alveg eða hafna honum alveg. Þessi hugmynd er sprottin af „idealisma“; því neitar víst hv. flm. (MJ) ekki. En árangurinn er „praktiskur“. Það, sem jeg sagði um áhugaleysið, sem mundi drepa málið, þá er sá munur, að eftir minni till. yrðu slíkir menn fyrir utan málið. En með frv. yrðu þeir í stöðugri samvinnu við þá, sem áhugann hefðu, og væru einlægt að verka á þá. Og þótt frv. gangi fram, þá yrðu þó ýmsir, sem kæmu sjer undan, og þá yrðu þeir óánægðu, sem ekki gætu komið sjer undan, enn óánægðari. Þannig hefðu áhugamennirnir þá áhugalausu menn bæði í sínum hóp og alt í kringum sig. Jeg er ekki að segja, að það sje auðveldara að koma frjálsri þegnskylduvinnu á, en jeg er ekki í vafa um, að það mun vera affarasælla.

Hv. flm. (MJ) sagði í framsöguræðu sinni, viðvíkjandi erfiðleikum á framkvæmd vinnunnar, þá væru þeir nú að vísu allmiklir. En þó hlyti að mega yfirstíga þá. Hann vildi bera saman ástandið í þessu efni hjer og suður í löndum, og úr því, að þjóðir þar syðra hefðu þegnskylduvinnu, þá hlyti það að vera hægt hjer. En þess ber að gæta, að hjer horfir alt annað við. Hjer á að taka 2–3 mánuði af hinum stutta bjargræðistíma. Þar er alt árið bjargræðistími, svo að þeir, sem láta burtu sína fyrirvinnu í þegnskylduvinnu, hafa betri ástæður til þess að bjarga sjer. Ekki segi jeg þó, að þetta sje ekki framkvæmanlegt hjer. En jeg hugsa þó, að ekkja, sem á einn son, eigi erfitt með að senda hann í þegnskylduvinnu heilt sumar. Ef hún á annan son, og þarf ekki að senda hann samtímis, þá er það ljettara. En mjer skilst, að þannig sje ástatt nú til sveita, að ekki sje vinnukrafturinn meiri en það, að menn eigi fult í fangi að koma nauðsynlegustu verkum fram. Það yrðu fleiri en ekkjur, sem ættu bágt með að sjá af sínu liði í þegnskylduvinnu. En sá er munur þeirrar tillögu um þegnskylduvinnu, sem kom hjer fram fyrir nokkrum árum, og þessarar, að þá var vinnutíminn einn mánuður, en nú þrír mánuðir.