12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

98. mál, gullkaup til seðlatryggingar

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Við fyrri umr. málsins tók jeg fram nokkrar af ástæðunum fyrir framkomu till. þessarar. Síðan hefir enn ein ástæða bæst við, sem þá var ekki komin í ljós, en hún er sú, að frv. þau, sem fyrir þinginu hafa legið, um væntanlega seðlaútgáfu ríkisins, munu vera strönduð á þessu þingi, enda fram komið frv. þess efnis að skjóta ráðstöfuninni allri um seðlaútgáfu á frest. Mjer finst því full ástæða til að hraða þessu máli enn frekar en áður, og að því megi með engu móti fresta, þótt frestað sje ákvörðuninni um seðlaútgáfuna. Það er hjer ekki um neitt vandasamt spor að ræða í meðferð bankamálsins, heldur er þetta beint framhald þess, sem ákveðið var 1921. Það er alkunnugt, að ýmsar þjóðir, sem búið hafa við lággengi, hafa tekið upp það ráð að gefa út gullgenga seðla jafnframt hinum, sem verið hafa með lággengi, og þannig reynt að örva inndrátt lággengisseðlanna, sem þá teljast fullgildir til skuldalúkningar innanlands. Virðist ekki fjarri sanni að taka þá aðferð upp hjer, ef unt væri með því að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Auðvitað er hjer enn ekki að ræða um neina stórupphæð, sem kaupa þarf; í mesta lagi gulltryggingu fyrir þeim tveim miljónum, sem búið á að vera að draga inn á komandi hausti. frá 31. okt. 1922. Sú gulltrygging ætti að nema 750 þúsund kr., það er að segja, ef málmforðinn væri þá allur í gulli. En í bankalögunum frá 1905 er heimild til að hafa 1/4 málmforðans í öðrum verðmætum en gulli, svo sem kröfum á nokkra erlenda banka og bankaseðlum nokkurra erlendra banka. Það má því vera, að hjer sje ekki um að ræða nema 3/4 þessarar upphæðar í gulli eða sem svarar 562 þús. kr., ef á hverjum tíma er notuð heimildin um ¼ í öðrum verðmætum.

Raddir hafa um það heyrst, að það væri hörð og óeðlileg kvöð á Íslandsbanka að afhenda gullið með nafnverði gegn lággengisseðlum, og var það dregið í efa af stjórn bankans næstl. sumar, að það væri rjettur skilningur á lögunum frá 1921, að bankinn ætti að láta gullkrónur gegn pappírskrónum. Til þess að ganga úr skugga um það, hvað þingið 1921 hafi átt við í þessu efni, þá mun rjettast að spyrja þá menn, sem áttu sæti á því þingi og eru hjer enn, hvað þeir hafi átt við með táknuninni nafnverð í þeim lögum. Jeg er einn þessara manna, og man jeg vel, hvernig jeg leit á þetta mál og hvað jeg skildi við „nafnverð“. Og jeg vil fullyrða, að allir þeir, sem með mjer stóðu að undirbúningi þess máls, hafi litið á þetta eins og jeg, að gullkróna ætti að koma gegn pappírskrónu, að pappírskrónan skyldi ganga með nafnverði. Um þetta getur enginn vafi verið. Það er og auðsætt, að ella hefði verið þýðingarlaust að taka ákvæði upp í lögin um afhendingu gullsins með nafnverði því að ríkinu gat ekki verið neitt mætara að kaupa gullið með dagsgengi af Íslandsbanka en á hverjum öðrum stað. Hjer er og ekki um neina þungbæra kvöð að ræða. Þar eð seðlarnir eru gulltrygðir. Alþingi getur hvenær sem er tekið í burt þá undanþágu, sem nú er um innlausn seðlanna með gulli. Annars geri jeg naumast ráð fyrir því, að nein misklíð rísi út af þessu og býst jeg við, að bankamir muni koma sjer saman um þetta þrautalaust þar eð báðum ætti að vera ávinningur að því. Það er á það að líta, að Landsbankinn mun ráða yfir svo mikilli inneign á hlaupareikningi í Íslandsbanka, að honum geta ekki stafað nein vandræði af að festa þessa upphæð, og hinsvegar sleppur Íslandsbanki þar við vaxtagreiðslu af jafnhárri upphæð og gull er afhent fyrir, en gullið vaxtalaust, þegar það er laust úr tryggingu. Mjer þykir því meiri ástæða til að ætla, að grípa þurfi til seðlaútgáfunnar bráðlega, þar sem litlar líkur eru nú til að íslenska krónan muni hækka, heldur miklu fremur hið gagnstæða. Af því leiðir auðvitað, að gjaldeyrisþörfin eykst. Að vísu get jeg búist við, að þetta ár líði svo, að ekki verði neinn verulegur gjaldeyrisskortur, en úr því má þess vænta, að útlendur gjaldeyrir fari að flytjast inn í landið, og þá helst danskur og norskur. Á næsta ári í októberlok á að vera úti sem svarar 53/4 miljón kr. í seðlum frá Íslandsbanka og Landsbankanum, og er það ekki meira en helmingur af pappírsgjaldmiðli þeim innlendum, er mestur var úti um 1920. Mjer finst því auðsætt, að bráðlega verði að taka til seðlaútgáfu af nýju. En hitt þykist jeg einnig vita, að eftir þá beisku reynslu, sem fengin er um illa trygða seðla, muni enginn vilja gera ráð fyrir nýrri seðlaútgáfu án þess að gulltrygging standi að baki. En ef beðið verður með gullkaupin, þá verður bæði erfiðara að kaupa mikla gullfúlgu í einu, og auk þess hugsanlegt, að gengisbreytingar geri kaupin óhagfeldari og gullið dýrara.

Jeg tel svo óþarft að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Jeg hefi ástæðu til að ætla, að till. verði samþ., þar sem engum mótmælum var hreyft gegn henni við fyrri umr.

Að lokum skal jeg taka það fram, að till. á þskj. 205 er ekki annað en rjetting á prentvillu, sem var í aðaltill.