25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg ætla ekki að mæla fram með þessari till. með langri ræðu að sinni. Í greinargerð fyrir till. er flest fram tekið, sem við kemur þörfinni fyrir slíka verksmiðju. Það, sem veldur því, að till. er fram komin, er það, að á þingi 1921 var samþ. þál. um að skipa nefnd til þess að athuga þetta mál, og sú nefnd hefir nú lagt fram skýrslu um störf sín og niðurstöður, eins og öllum er kunnugt. Nú er það vilji okkar flm. þessarar till., að þessu starfi nefndarinnar sje haldið áfram. Við segjum með till okkar ekkert um það, hvort staður sá, sem nefndin hefir aðallega bent á fyrir tóverksmiðjuna, sje heppilegur eða heppilegastur. En hinu erum við samdóma, að rjett sje að hafa eina eða tvær verksmiðjur mest, fyrir landið, og erum því till. nefndarinnar í þessu atriði samþykkir.

Úti um land hafa menn óskað eftir að fá lopa- og kembivjelar sem víðast, og talið það sjálfsagða lausn málsins. En það kapp er þó ekki sprottið af því, að menn hafi í raun og veru gert sjer það fullkomlega ljóst, að það sje heppilegast og ódýrast fyrir þjóðfjelagið, heldur er það sprottið af hinum vaknaða áhuga fyrir heimilisiðnaðinum og hinni miklu þörf til þess að draga úr kaupum á innfluttri vefnaðarvöru. Því mönnum hefir það það fje, sem á þann hátt gengur út úr landinu. Nefndin hefir sýnt fram á, að þetta muni vera óheppilegt, og eru nú ýmsir að komast á þá skoðun, sem áður hölluðust að hinu.

Við flm. þessarar till. álítum, að í þessu efni eigi að gæta þess fyrst og fremst, hvað þjóðinni sje fyrir bestu, og allur metingur um það, hvar verksmiðjan eigi að standa, eða hvort þær skuli vera fleiri en ein, eigi að hverfa fyrir þessu. Okkur er alveg sama, hvar verksmiðjan er, bara að hún sje á hentugasta stað. En okkur er ekki sama, að til slíks sje stofnað með feiknakostnaði hingað og þangað um landið. En til þess að losna við þann mikla undirbúningskostnað á hverjum stað víða um land, á að stofna eina eða tvær fullkomnar klæðaverksmiðjur fyrir landið. Þetta er álit fagmanna, að sje hin eina rjetta og færa leið. Og það er þetta stóra atriði, sem við flm. till. viljum láta halda áfram að rannsaka og undirbúa. Tillaga okkar fer aðeins fram á þetta. Hjer hefir komið fram önnur till, brtt. við till., nokkru nákvæmari að orðalagi, með því að hún tekur ýmislegt fram, sem við höfðum talið nægilegt að taka fram í framsögu málsins, því við töldum sama fyrir stjórnina, hvort gert væri. Við getum því fallist á þessa till.

Jeg vil svo með örfáum orðum minnast á höfuðliði till., því þar er það tekið fram, sem ætlast er til, að unnið verði fyrst og fremst í þessu máli.

Í fyrsta lagi á að ákveða stærð og gerð verksmiðjunnar og hvar hún eigi að standa. Þetta verður hlutverk þeirra manna, sem skipa þá nefnd, sem till. okkar kveður á um. Það er líklegt, að í nefnd þessa verði valdir þeir menn sem í fyrsta lagi bera gott skyn á þetta mál og sem jafnframt eru kunnugir störfum fyrri nefndarinnar og till. hennar í þessu atriði. Má þá ganga út frá, að þeir leggi til, að stofnuð verði ein verksmiðja, og þá helst hjer á Suðurlandi. En verksmiðjan Gefjun á Norðurlandi verði bætt og fullkomnuð. Þó er ekki ástæðulaust að ætla, að nefndin kynni að rannsaka aðrar kröfur, t. d. á Austurlandi. Og kæmi þá í ljós, að þar væri ef til vill hentugasti staðurinn fyrir slíka klæðaverksmiðju, þá er sjálfsagt, að hún sje sett þar. Stærð verksmiðjunnar verður að sjálfsögðu að fara eftir klæðaþörf okkar, með tilliti til þess, hve mikið yrði sent út, ef reynt yrði að selja eitthvað af framleiðslunni erlendis. Á því byggist líka rekstrarkostnaðurinn, hve stór verksmiðjan er. Eftir áætlun nefndarinnar frá 1921 mundi slík fullkomin verksmiðja kosta 1½ miljón. Enskur fagmaður, sem hjer var á ferð í fyrrasumar, áleit, að þetta mundi vera nærri lagi. Þessi maður taldi, að auðelt mundi að fá 1/3 stofnfjárins í hlutum frá Englandi. Okkur dettur í hug, að líklegt sje, að l/3 fáist hjá landsmönnum sjálfum, og ríkið leggi svo fram 1/3 eða ca. ½ miljón kr., þegar litið er á þann áhuga fyrir þessu máli, sem fram hefir komið, t. d. á Austurlandi, þar sem ekki stærra svæði en Múlasýslur ætla að leggja fram til slíks fyrirtækis ca. 300 þús. kr., auk lánsfjár, sem ríkis ábyrgðist, um 200 þús. kr. Það er auðvitað, að ef slíkur áhugi væri almennur, þá mundi auðvelt að safna ½ miljón kr. á öllu landinu. En nú er, eins og menn vita, svo háttað högum, að þetta fje yrði þó ekki fengið á svipstundu, heldur mundi það dragast nokkuð. En leiðina þarf að athuga, og vil jeg þá sjerstaklega benda á þann veg, sem vikið er að í greinargerðinni og að þessu lýtur.

Ef hugsað er til þess, að ríkið leggi fram 1/3 eða 500 þús. kr., til fyrirtækisins, þá verður ef til vill erfiðast að fást við það. En jeg vil í því sambandi benda á það, að gamla Iðunnarfjelagið hjer á talsverðar eignir, sem ekki er óhugsandi, að það vilji leggja í þetta fyrirtæki. Þessar eignir eru virtar á 240 þús. kr., og leigir fjelagið þær öðrum. En það er hreint ekki óhugsandi, að það vilji „realisera” þær og leggja í þetta fyrirtæki með ríkissjóði, og kæmist það í kring, þá verður það ekki neitt afarfje, sem ríkið þyrfti að leggja af mörkum til þess að koma fyrirtækinu á stofn.

En þótt jeg geri ráð fyrir því, að þetta taki allmikinn tíma, þá tel jeg ekki rjett að fresta því lengur að undirbúa málið rækilega, svo að við getum sem fyrst losnað við það að kaupa þessi ósköp af erlendum dúkum, sem nú kaupum við.

Það er satt, að ekki er mikil reynsla fengin fyrir því, hvort heppilegra sje að hafa eina verksmiðju eða fleiri. Þó hefir það komið í ljós, að lopavjelar einar hafa ekki getað kept við dúkaverksmiðjur um kembingu. Þannig lögðust Reykjafossvjelarnar niður, þegar dúkaverksmiðja kom að Álafossi. Eins varð reyndin í Eyjafirði. Um lopavjelarnar á Halldórsstöðum í Þingeyjarsýslu er það að segja, að þær voru bæði minni og ódýrari en nú er hægt að fá. En þær vjelar, sem nú fást og yrðu notaðar, eru of dýrar, þegar ekki er hægt að vinna í þeim nema hluta úr árinu. Slíkar vjelar geta því aldrei kept við stærri og fullkomnari vjelar, sem vinna alt árið, og alt bendir á það, að þær eigi að hverfa úr sögunni, enda var það álit nefndarinnar frá 1921.

Jeg vona, að hv. deild líti á þetta mál líkum augum og við flm. till. og lofi því að ganga í gegn. Með því er engu ráðið til fulls um málið, en framgangur þess er greiddur síðar meir.

Ætlast er til þess, að nefndin starfi kauplaust að öðru en því, að hún fái borgaðan útlagðan kostnað, en sá kostnaður verði síðar endurgreiddur ríkissjóði og talinn til stofnkostnaðar.

Að lokum vil jeg benda á það, að þetta tilboð frá Englandi, sem jeg drap aðeins á, hefir sýnilega mikla þýðingu fyrir framgang þessa máls. Hjer er það viðurkendur sjerfræðingur, sem álítur fyrirtækið svo arðvænlegt, að Englendingar muni vilja leggja fje í það. Og ef maður verður fenginn frá Englandi til þess að stjórna fyrirtækinu fyrst í stað, a. m. k. þangað til við fáum þann sjerfræðing, er við eigum þar við nám og bráðum er fullnuma, Þorvald Árnason, þá er það mikil trygging fyrir því, að það sje vel stofnað og vel rekið, þar sem Englendingar teljast standa fremstir í þessari iðngrein. Það er því margt, sem bendir á, að rjett sje að halda áfram þessu máli, en óforsvaranlegt að láta það niður falla að svo komnu.