25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

129. mál, klæðaverksmiðja

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get verið stuttorður að þessu sinni, einkum þar sem hv. flm. (ÞórJ) hefir lýst því yfir, að hann, ásamt meðflm., hv. þm. Borgf. (PO) fjellist á brtt. mína og hv. þm. Str. (TrÞ), sem er að finna á þskj. 377, og sem við erum þeim þakklátir fyrir.

Þetta mál er allþýðingarmikið mál, en það er þegar búið að ræða það allmikið á undanförnum þingum og orðið talsvert mikið undirbúið, og auk þess, þegar gert er ráð fyrir, að sá undirbúningur haldi áfram, sje jeg ekki ástæðu til, að verið sje að fjölyrða mikið um þetta mál nú. Jeg vil aðeins geta þess, að við flm. brtt. 377 getum vel fallist á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Við teljum sjálfsagt, að Alþingi á sínum tíma ákveði, hvar verksmiðjan á að standa og fyrirkomulag og stærð þessarar fyrirhuguðu verksmiðju. Verði því aðeins gerðar áætlanir og tillögur um þetta af væntanlegri nefnd, en engin fullnaðarákvörðun tekin um það. Mun jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hv. deild taki þessu máli vel.