25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

129. mál, klæðaverksmiðja

Sveinn Ólafsson:

Jeg heyrði fremur lítið af síðari ræðu hv. flm. (ÞórJ), en það lítið sem það var, þá gat jeg ekki betur sjeð en að það væru tómar afbakanir á orðum mínum áðan. Hv. þm. (ÞórJ) bjó sjálfur til setningar til að „krítísera“, og eignaði mjer, en var sjálfur höfundur að. En þar sem hann vildi eigna mjer þessi öfugyrði, sem hann þóttist fá svo góðan fangstað á, þá verður naumast hjá því komist að líta svo á, að þetta sje vottur um röksemdaþrot hjá honum. Á jeg satt að segja dálítið bágt með að gera mjer ljóst, hver tilgangurinn hefir verið hjá hv. þm. (ÞórJ) með öllu þessu.

Hv. þm. (ÞórJ) kvað mig hafa sagt, að verksmiðjustofnunin yrði heimilisiðnaðinum hættuleg. Það voru ekki mín orð. Jeg sagði í almennum orðum, að stóriðja hefði oft reynst hættuleg heimilisiðnaðinum, enda munu flestir játa, að svo sje. Það er t. d. alvitað, að heimilisiðnaður okkar fór í rústir, þegar verksmiðjur nágrannalandanna komust á legg, og vegna samkepni þeirra.

Þá kvað hv. þm. (ÞórJ) mig hafa sagt, að Englendingar myndu þegar kippa að sjer hendinni, ef kostnaðurinn færi fram úr áætlun. Jeg sagði það ekki heldur. Jeg kastaði aðeins fram þeirri spurningu, hvað Jón Boli myndi gera. ef svo færi, að stofnkostnaður yrði 1/3 eða ½ meiri en áætlun miðar við.

Þá kvað hann mig ekki geta hugsað mjer slíka ullarverksmiðju, sem hjer um ræðir, nema í Suður-Múlasýslu eða á Austurlandi. Jeg mintist ekki með einu orði á Austurland eða Suður- Múlasýslu í ræðu minni, en hitt gaf jeg glögglega í skyn, að jeg yfirleitt væri mótfallinn slíkri allsherjarverksmiðju, hvar sem hún væri á landinu.

Jeg ætla annars ekki að elta frekar þessa útúrsnúninga hv. flm. (ÞórJ), en snúa mjer að því, sem hann tók eins og jeg talaði það.

Hv. flm. (ÞórJ) gerði alvarlega tilraun til að sanna það, að ekki yrði dýrara að hafa verksmiðjuna hjer en annarsstaðar á landinu. Kvað hann meðal annars þann kostinn, að ekki þyrfti að byggja hús yfir verksmiðjufólkið, ef hún væri hjer. En mjer er spurn: Mundi þetta fólk ekki þurfa að greiða húsaleigu og hafa þess vegna hærra kaup? Og hv. flm. veit ef til vill, hvað hún er hjer sanngjarnlega metin, að hún hefir nálgast stundum 100% af verði húsanna um árið. Geri jeg ráð fyrir, að hún mundi fyllilega vega upp kostnaðinn, sem bygging íbúðarhúsa fyrir verkafólkið myndi leiða af sjer annarsstaðar.

Þá kvað hv. flm. (ÞórJ) vinnuna mundu verða ódýrari, ef ein stór verksmiðja ætti hlut að máli en ef þær væru fleiri og smærri. Það má vera, að eitthvað sje í þessu, en það verður þó komið undir ýmsum staðlegum ástæðum, og aðalatriðið er ekki það, hvort vinsla á 1 kg. ullar verður lítið eitt ódýrari eða dýrari, heldur hitt, hvort landsmenn alment verða aðnjótandi hallkvæmra viðskifta, en það er miður trygt með einni stórri verksmiðju en fleiri smáum. Jeg hygg, að ávinningurinn af stóriðjunni — ef nokkur yrði — mundi margfaldlega jetast upp við stirðleg viðskifti og tafsöm og af auknum undirbúningskostnaði.

Þá kom hv. þm. (ÞórJ) að kembivjelunum. Hann kvað þær fráleitt geta borgað sig og nefndi í því sambandi kembivjelarnar í Þingeyjarsýslu. Sagði hann þær nú hafa verið settar upp stærri á Húsavík, af því að minni vjelar, eins og þær, sem brunnu, væru ekki fáanlegar. Ekki veit jeg, hvaðan hv. þm. hefir þetta, eða hvernig með því verður sannað, að kembivjelar borgi sig ekki. Auðvitað verður einhver samanburður að vera, til þess að sagt verði með vissu, að ákveðið fyrirtæki borgi sig ekki.

Þá benti hv. flm. (ÞórJ) á það, hve samgöngurnar við Reykjavík væru góðar, og hve mikla þýðingu það hefði fyrir viðskifti við ullarverksmiðju hjer. Kostur er það að vísu, og væri talsvert þungur á metunum, ef ekki væri þar á móti þeir ókostir, sem loða við þennan stað. En það eru líka ýmsir aðrir staðir, sem eins auðvelt er að hafa samgöngur við og Reykjavík, staðir, sem færri annmarka hafa en Reykjavík, og þar sem t. d. öll afgreiðslugjöld eru miklu lægri en í Reykjavík.

Hv. flm. (ÞórJ) gerði ráð fyrir, að þetta yrði hlutafjelag. Jeg þóttist líka vita það. Hann gerir ráð fyrir því, eins og ullariðjunefndin, að ríkið leggi til 1/3 stofnkostnaðar. Hitt eiga landsmenn að kaupa, að því leyti sem það verður ekki ensk eign. En líkurnar eru heldur litlar, eins og jeg hefi áður tekið fram, fyrir þeim hlutakaupum, og jafnvel ekki vissar úr nærsveitum Reykjavíkur, ef verksmiðjan væri hjer. Þessvegna er líklegast, að ríkið þyrfti, er á ætti að herða, að kaupa talsvert meira en gert er ráð fyrir, þyrfti að stofna og reka fyrirtækið að mestu leyti.

Hv. flm. (ÞórJ) taldi líklegt, að Iðunnarfjelagið gamla mundi selja húseignir sínar og fiskireiti og leggja í fyrirtækið. Getur verið, og er ekki ólíklegt, ef fyrirtækið á að reisa á rústum Iðunnar. En annars sje jeg ekkert samband milli Iðunnar og þessa fyrirtækis eða meiri líkur fyrir, að það fjelag fari að selja eignir sínar og leggja í þetta en að við tækjum að selja jarðir okkar og leggja andvirðið í fyrirtækið.

Það, sem aðallega ber á milli hv. flm. og mín, er þetta, að jeg er yfirleitt ósamþykkur hugmyndinni um allsherjar-verksmiðju hjer á landi. Jeg vil ekki stofna fje ríkisins í neina hættu með því að stofna eða reka slíkt fyrirtæki. Slíkum rekstri verður aldrei eins vel borgið hjá ríkinu í þessari hugsuðu sameign eins og hjá einstaklingum og því vil jeg ekki draga fjárhættuna yfir ríkissjóðinn. Jeg veit, að samkepni nágrannaþjóðanna verður hjerlendri verksmiðju skæð og hættuleg, og þeim mun þyngri yrði kappróðurinn sem hún hefði bæjarfjelagið hjer á baki sjer með dýrtíð þess og þungum álögum. Höfuðerfiðleikarnir við að keppa við erlendar verksmiðjur eru þeir, að viðskiftin við þær eru gróin og á gömlum merg, samgöngur t. d. við Noreg fult eins greiðar frá sumum landshlutum eins og við Reykjavík, og allar líkur fyrir ódýrara verki í Noregi en hjer, en alteins vönduðu.

Jeg get því ekki fylgt þessari hugmynd um allsherjarverksmiðju, jafnvel hvar sem væri á landinu, þegar um ríkiseign er að ræða og rekstur, og það því síður sem jeg sje engin efni á að koma henni upp fyrir ríkisfje á þessum tíma.

En ef svo ólíklega fer, að ákveðið verður að reisa allsherjar-dúkaverksmiðju, og að miklu leyti fyrir almannafje, þá legg jeg aðaláhersluna á það, að hún verði ekki reist í Reykjavík eða þar, sem bærinn getur þjakað henni með álögum eða aukið kostnað af viðskiftum við hana. Jeg gæti til dæmis mun betur felt mig við hugmyndina, ef verksmiðjunni væri ætlað að vera norður á Akureyri, austanfjalls eða uppi í Borgarfirði.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, þar sem nú er mjög áliðið fundartíma og ýms mál eru á dagskrá, sem bíða afgreiðslu.