03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (3367)

129. mál, klæðaverksmiðja

Bjarni Jónsson:

Það var fyndinn maður, sem hvíslaði því að mjer rjett áðan, að nú ætti vel við gamla vísan: „Jeg iða öll af kæti, er ullarlopinn teygjast fer“. Þótt jeg finni eins og aðrir til þessarar kæti, þá mun jeg samt, sökum þess að kvölda tekur, varast að teygja lopann um skör fram.

Jeg minnist þess, að þegar jeg lá heima í rúmi mínu fyrir ekki alllöngu síðan, þá las jeg þessa till. á þskj. 451, og virtist mjer þá, að hjer væri á ferðinni eitt af þeim sárafáu málum, sem þetta hv. þing hefir borið gæfu til að flytja í rjetta átt og af einhverju viti. Því hefir áður verið haldið fram, að eina ráðið til að okkur gæti tekist að vinna voðir okkar úr innlendu efni, væri að setja á fót stofnun, sem ætti hægt með að bera sig, — eina stóra verksmiðju, sem fær væri um að bjóða þeim erlendu birginn og gæti unnið í allan fatnað, sem landsmenn þurfa helst að nota. Það er auðsætt, að slíkt fyrirtæki mundi koma að meira haldi íslensku krónunni en ótal lög. Því að þótt heftur verði innflutningur á vefnaðarvöru, þá stoðar það ekki til lengdar, því að klæðanauðsynin knýr menn innan skamms til að slaka aftur á klónni. Alt öðru máli væri að gegna eftir að slík klæðaverksmiðja væri komin hjer á fót. Þetta virðist hv. flm. till. á þskj. 451 (ÞórJ) hafa skilið og er það viðurkenningarvert. Ber fyrirsögn till. þetta einmitt með sjer, þar sem talað er um undirbúning fullkominnar klæðaverksmiðju fyrir landið. Aftur á móti er ver komist að orði síðar þar sem talað er um nýtísku ullarverksmiðju, og getur það vel orðið til þess, að fram komi af misskilningi tillögur eins og sú, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir nú verið að mæla með. Brtt. hans kemur í rauninni alls ekkert við till. á þskj. 451, því að það er algerlega þessu máli óskylt, þótt upp verði komið spuna- og kembingarvjelum úti um land. Það getur hvort um sig staðist, þótt hitt vanti, og getur einnig vel farið saman. Það er því ekki allra minsta ástæða til að blanda slíku inn í þetta mál, og sjálfsagt að samþ. till. eins og hún er nú. Hitt verður að fara eftir því sem hjeruð landsins sjá sjer fært, hvort komið verður á fót spuna- og kembingarvjelum.

Í einu er þó till. á þskj. 451 ábótavant, en það er í því, hvernig hún ætlast til að nefndin sje skipuð. Jeg veit yfirleitt ekki, til hvers hv. Alþingi vill endilega dreifa þannig ábyrgðinni á öllum sköpuðum hlutum og skifta henni á milli sem flestra. Hvað á svo sem Samband íslenskra samvinnufjelaga, Búnaðarfjelag Íslands, Verslunarráð Íslands og Fiskifjelag Íslands að gera með að skipa menn til að undirbúa klæðaverksmiðju? Auðvitað á ríkisstjórnin að tilnefna alla mennina samkvæmt þeirri þekkingu, sem þar er nauðsynleg, og verður hún að bera ábyrgð á því, hversu til tekst með valið. Ef allir þeir aðiljar, sem nefndir eru í till., ættu að annast þetta, þá mætti vel svo fara, að nefndin ætti aðeins yfir að ráða sjerþekkingu í einni grein, en hinar vantaði gersamlega. Það er ekki heldur svo, að þessi nefnd eigi að fjalla um það, hvort Sambandið skuli versla með þessa iðnaðarvöru eða einhverjir aðrir. Og ekki á hún heldur að ræða neitt um búnað á annan hátt en þann, að koma öllu svo fyrir, að bændur fái sem mestan markað fyrir ull sína En það verður einungis gert með því að gera klæðaverksmiðjuna sem best úr garði. Það er engin von til þess, að Búnaðarfjelag Íslands sje sjerstaklega fært til að velja slíka menn, því að þetta tvent er ekkert skylt, landbúnaður og verksmiðjuiðnaður. Verslunarráð Íslands er ekki heldur fært um þetta, því að hjer er um að ræða að undirbúa stofnun verksmiðju, en ekki að ráðstafa sölu á vörum hennar. Að því kemur ekki fyr en síðar. Jeg skil ekki heldur, að Fiskifjelagið þurfi að nefna mann í þessa nefnd, nema ef um það væri að ræða að stofna sjerstaka deild við verksmiðjuna til að vinna klæði úr hákarlsskráp og sköturoði. Yfirleitt tel jeg það óviturlegt að dreifa þannig valdi því, sem Alþingi hefir, og þenja út ábyrgðina, þar til enginn veit, hvar hún hvílir. Jeg vil, að stjórnin skipi alla þessa menn, og getur þá þingið gert gildandi ábyrgð á hendur henni, ef hún gerir það illa.

Jeg hefi í rauninni ekkert á móti því, að nefndin vinni kauplaust, úr því menn vilja endilega spara á þann hátt, en þó getur verið varasamt að binda slíkt ákvæði í till., því að ekki er víst, að hæfustu mennirnir, sem völ væri á til þessa, vilji vinna kauplaust. En lítill sparnaður yrði að því að skipa nefndina ver en þyrfti vegna nokkurra króna. Hinsvegar mátti fara þess á leit við stjórnina, að hún reyndi að komast hjá að borga nefndinni, ef unt væri.

Þrátt fyrir þessa og aðra annmarka till. þá mun jeg samt greiða atkv. með henni. Í höfuðatriðunum fer hún í rjetta átt og er fyrsta greinilega sporið í áttina til þess, að Íslendingar geti til fulls notið hjer sinnar eigin vöru og þurfi ekki lengur að kaupa frá útlöndum dýr og haldlítil klæði.