27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

74. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg gat þess við 2. umr. þessa máls, að fyrir fjvn. hefðu legið nokkur erindi, sem hefðu átt að heyra til fjáraukalögum fyrir 1924. Þar á meðal var erindi frá bæjarfógetanum í Reykjavík, þar sem hann beiðist þess, að greiddar sjeu eftirstöðvar af reikningi, sem hann sem lögjafnaðarnefndarmaður hafi sent stjórnarráðinu, en ekki fengið greiddan að fullu. Þessar eftirstöðvar nema 350 dönskum krónum. Í þessu erindi kom það fram, að þessi nefndarmaður hafði reiknað sjer 50 krónur á dag og auk þess 20 krónur á dag handa þeim manni, sem gegndi bæjarfógetastarfinu í fjarveru hans. Nú skildi nefndin ekkert í því, af hverju þetta erindi væri sent til hennar, því að við nánari athugun sá hún, að eftirstöðvarnar svöruðu ekki til þess, að aðeins hefðu verið borgaðir dagpeningar þessa nefndarmanns, heldur hafði og eitthvað verið greitt af þessum 20 kr. dagpeningum hins mannsins. Þetta leiddi til þess, að fjvn. fór að grenslast eftir því, hve mikið fje hinum nefndarmönnunum hefði verið greitt. Kom þá í ljós, að Einari Arnórssyni höfðu verið greiddar 3700 kr., en Bjarna Jónssyni 3300 kr., þar af hverjum þeirra 500 íslenskar krónur, hitt í dönskum krónum. Þeim hafði með öðrum orðum verið greitt meira en bæjarfógetanum, sem borgað hefir verið alls 3000 krónur, og þó hafði hvorugur þessara manna þurft að kaupa mann í sinn stað hjer heima. Auk þess hafði einn nefndarmaðurinn, Einar Arnórsson, ekki setið á þessum alþjóðaþingmannafundi í Kaupmannahöfn, því hann var um það leyti á ferð suður á Ítalíu. Nú vill nefndin gera þá fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort þessum mönnum hafi verið greitt þetta fje samkvæmt framlögðum reikningum eða án reikninga. Þykir nefndinni þetta kaup vera ærið hátt og vildi einnig gjarnan fá að vita, hvort um hafi verið samið, að þeir fengju 50 krónur á dag í ferðakostnað. Hitt þótti nefndinni sanngjarnt, að bæjarfógeta væri greitt það fje, sem hann þurfti að borga þeim manni, sem gegndi störfum hans þennan tíma. Nefndin hefir líka komist að þeirri niðurstöðu, að rjettmætt og sjálfsagt sje að endurkrefja það af þeirri upphæð, sem greidd hefir verið til þessara manna, sem ekki er beinlínis samið um, því samt sem áður mun ferðakostnaðurinn þykja óhæfilega hár.