03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

129. mál, klæðaverksmiðja

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er ekki rjett, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) talaði um, að jeg hafi viljað fá 40 þús. kr. fjárveitingu til ullarverksmiðju á Vestfjörðum. En hitt er annað, að jeg vil, að hverju hjeraði, sem hefir með höndum framkvæmdir í þessu efni, sje veittur ríflegur styrkur. En því miður sje jeg ekki fram á það, að á Vestfjörðum muni verða hafist handa næstu árin. Fyrir mjer vakir það að styðja sem mest og best að því, að heimilisiðnaðurinn taki framförum og aukist. En það verður best gert með því að koma sem víðast upp kembingar- og spunavjelum. Býst jeg við, að hv. þm. V.-Húnv.(ÞórJ)hafi alls ekki kynt sjer þessi efni betur en jeg. Er jeg vel kunnugur því, að heimilisiðnaðurinn er að komast á góðan rekspöl. Get jeg jafnvel bent á heimili hjer í Reykjavík, þar sem talsvert mikið er unnið að heimilisiðnaði. Og þegar hjer er hægt að kaupa erlent efni og vinna það með góðum hagnaði, þá má nærri geta, hvort ekki væri hægt að vinna svo úr íslensku efni, að vörurnar yrðu ekki dýrari en erlendur varningur af sama tæi. Hefi jeg talað við ýmsa menn um þetta, bæði erlenda og innlenda, og veit jeg, að þeir eru á sömu skoðun og jeg.

Sumir halda því fram, að verksmiðjuiðnaðurinn sje ódýrastur. En þetta er misskilningur. Raunar var það svo, að framleiddar voru litmargar vörur, sem gengu í augu þeirra manna, er höfðu villimannasmekk. En með vaxandi menningu eru menn meira og meira að hallast að heimaunnu vörunum, sem eru bæði haldbetri og skjólbetri, og þá um leið ódýrari. Vildi jeg benda hv. þm. V.-Húnv.(ÞórJ) á það, að vilji hann heimilisiðnaðinum vel, þá ætti hann ekki að hugsa eingöngu um dýra verksmiðju, sem er jafnlangt fram undan og það, að vjer getum keypt landvarnarskip og komið upp landsspítala. Hann gerði heimilisiðnaðinum mest gagn með því að styðja að framkvæmdum í smærri stíl, svo sem að keyptar væru spuna- og kembingarvjelar, sem nú eru orðnar nauðsynlegar, til þess að heimilisiðnaðurinn geti risið úr rústum og fylt það sæti, sem hann skipaði áður með þessari þjóð.

Hv. þm. (ÞórJ) sagði, að þetta kæmi ekki menningu neitt við. Þetta er sá mesti misskilningur. Þetta er einmitt eitt af grundvallaratriðum sannrar þjóðmenningar, því að „holt er heima hvað“, og best er, að hver þjóð búi sem mest að sínu. Er það hættuleg glapsýni að halda, að það eitt sje menning, sem er einhversstaðar uppi í skýjunum, eða trúa því, að ekkert sje mentandi, nema gríska og latína. Stjórnmálastarfsemi þeirra manna, er svo hugsa, hlýtur að verða blaktandi skar, sem hvikar fyrir hverjum vindblæ.