07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

63. mál, sparnaðarnefnd

Flm. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkrum misserum voru skipaðar sparnaðarnefndir í báðum deildum Alþingis, og enda þótt árangur af starfi þeirra hafi ef til vill ekki verið mikill, þá er a. m. k. ástandið, sem gerði, að þær voru skipaðar, óbreytt, og við flm. þessarar till. þykjumst þess fullvissir, að töluvert megi fá minkuð útgjöld ríkissjóðs til ýmiskonar stofnana, ekki síst í Rvík.

Í þessu máli má fara tvær leiðir. önnur er sú, að þingið, og þá væntanlega með aðstoð nefndar, geri ítarlegar ákvarðanir um að breyta embættaskipun landsins. Þetta er mjög erfitt verk, það dylst mjer ekki, og mjög ólíklegt, að það tækist til fulls á þessu þingi, samhliða öðrum þingstörfum. Þó hygg jeg, að töluverðu mætti áorka með góðum vilja.

Þá er hin leiðin, leið, sem oft er farin, að skipa milliþinganefnd. Má segja, að hún sje betri að því leyti, að á þann hátt fæst mun meiri tími, en þá er líka loku skotið fyrir sparnaðinn, sem núverandi þing gæti gert í þessum efnum, og er hans þó full þörf, þar sem gengi krónunnar fer stöðugt lækkandi og allar líkur benda í þá átt, að tekjuhalli verði á fjárhagsári þessu, enda þótt allar verklegar framkvæmdir sjeu skornar niður og útgjöldin verði því nær eingöngu til afborgana af lánum og starfsmannahalds.

Það, sem aðallega vakir fyrir okkur tillögumönnum, er að sameina þessar tvær leiðir, að svo miklu leyti sem hægt er. Sú nefnd, sem till. gerir ráð fyrir, að skipuð verði, getur með rannsóknum sínum komist allnærri því að sjá, hvernig breyta mætti starfsmannahaldi ríkisins, og má vænta frá henni till. í þá átt, þótt eigi verði það fyr. en síðla þings.

Nú má vel vera, að margir sjeu því mótfallnir að skipa dýra milliþinganefnd, og er slíkt afsakanlegt, þegar litið er á reynslu fyrri tíma. T. d. kom launamálanefndin með margar till., og eigi svo allfáar til bóta, en þær voru ekkert notaðar, enda þótt starf nefndarinnar kostaði allmikið fje.

Þá má minna á mentamálanefndina. Gera fáir ráð fyrir nokkru verulegu gagni af starfi hennar.

En það, sem við flm. þessarar þál. ætlumst til, er, að flokkarnir legðu fram vinnu milli þinga, til að rannsaka þetta mál. Og ef sú leið verður farin, þá held jeg, að heppilegast væri, að fleiri nefndir en ein sætu á rökstólum. Ein nefnd rannsakaði t. d. læknaskipun landsins, önnur alla dómaskipun, hin þriðja skipun prestakalla og kirkjumála, og loks fengist fjórða nefndin við öll kenslumálin. Þá eru að vísu eftir öll póstmál og síma, sem mætti sennilega koma fyrir á hagkvæmari hátt, og því ef til vill eðlilegt, að sjerstök deild starfaði að þeirri rannsókn. Þegar jeg hugsa mjer þannig lagaða rannsókn, vil jeg taka skýrt fram, að jeg ætlast til, að hún sje framkvæmd af stjórnmálaflokkum landsins ókeypis. Er því eðlilegra að skifta henni milli fleiri manna, sem aðallega hljóta að verða úr Reykjavík og nágrenni, heldur en ofhlaða fáa menn störfum án endurgjalds. Má gera ráð fyrir, að störfin verði mun betur af hendi leyst á þennan hátt.

Verk, svipað þessu, framkvæmdu sjerstakar „fagnefndir“ í Danmörku nú fyrir skömmu.

Jeg hygg, að jeg hafi nú gert grein fyrir þessari till. Við ætlumst til, að væntanleg sparnaðarnefnd fái svigrúm til að koma fram með nokkrar sparnaðartill. Þegar á þessu þingi, en að aðalverk hennar verði að undirbúa enn stærra verk og víðtækara, sem flokkarnir haldi svo áfram milli þinga og hafi lokið fyrir næsta þing. Enda þótt þessi hlið málsins, milliþingastarfið, eigi ekki beint við þessa till., þá hefi jeg þó leyft mjer að lýsa áframhaldsverkinu.

Það má kanske segja, að hv. þdm. hafi ekki tíma sem stendur til að rannsaka þetta mál, svo að nokkru verulegu liði megi verða, vegna anna í nefndum. En að því er jeg best veit, hafa flestar nefndirnar enn sem komið er mjög lítið að gera, og er því langt frá, að hv. deildarmenn verði ofhlaðnir störfum, þó að nefnd þessi verði skipuð.