27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

74. mál, fjáraukalög 1923

Klemens Jónsson:

Jeg hefi ekki heldur sjeð þessa reikninga, sem hv. frsm. (ÞórJ) talar um. en jeg er hinsvegar nokkuð kunnur þessu máli. Eins og hv. þm. muna, þá var á síðasta þingi tekin af þessum nefndarmönnum sú þóknun, sem þeir höfðu haft fyrir þennan starfa. Þegar þeir svo fóru til Kaupmannahafnar í sumar, þá sneru þeir sjer áður til stjórnarinnar og spurðu hana um það, hve mikið fje mætti áætla þeim til ferðakostnaðar, og varð það að samkomulagi að ætla þeim 50 kr. á dag hverjum. Það var ekki einu orði minst á frekari borgun. Þegar jeg því síðar heyrði, að sumir nefndarmenn hefðu gert kröfu til þess, að ríkið greiddi laun þeirra manna, sem gegndu embættum nefndarmanna í fjarveru þeirra, þá taldi jeg það rangt. Þegar nefndarmennirnir lögðu af stað, fjekk hver þeirra 500 kr. í íslenskum peningum til nauðsynlegs undirbúnings og ferðakostnaðar til Danmerkur, og hitt fengu þeir síðar í dönskum krónum. Það hittist svo á, að jeg kom til Kaupmannahafnar rjett á eftir burtför þeirra þaðan. Átti jeg þá tal við menn í sendisveitinni íslensku, og þótti þeim nefndarmennirnir hafa verið nokkuð kröfuharðir. En víst er um eitt, og það er, að samkvæmt umtali við stjórnina eiga þeir ekki heimting á meiru en 50 kr. á dag. Jeg skal þó taka það fram, að eitt er, sem nokkru hefir valdið um það, að reikningar nefndarmanna urðu nokkuð hærri en gert var ráð fyrir, en það var, að þeir lögðu of snemma af stað og voru því óþarflega lengi í ferðinni. En þetta var ekki þeim að kenna, því þeir gátu ekki vitað annað en fundurinn yrði haldinn um miðjan júlí, þótt svo færi, að hann drægist fram undir miðjan ágúst. Þetta varð auðvitað til þess, að kostnaðurinn varð miklu meiri en menn höfðu gert sjer í hugarlund.

Jeg get svo ekki gefið frekari upplýsingar í þessu máli.