25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (3390)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Fyrirspyrjandi (Björn Líndal):

Jeg þakka stjórninni svörin, og efast jeg ekki um, að skýrslan sje frá þeirra hendi í alla staði rjett, eftir þeim upplýsingum, sem þeir hafa fengið. En hitt leyfi jeg mjer að efast um, að þær upplýsingar sjeu fyllilega rjettar. Að minsta kosti hefir maður heyrt alt annað um þessi efni, og er það ekki ótrúlegra en skýrsla þeirra manna, sem hjer eiga hlut að máli og gefa vottorð um sína eigin ráðsmensku. Og óhætt er að fullyrða það, að launin við landsverslunina eru alt of há, saman borið við samskonar laun við aðrar verslanir. En ef samanburður er gerður við aðra starfsmenn ríkisins, verður mismunurinn ennþá átakanlegri, ef nokkurrar sanngirni er gætt. Póst- og símamenn hafa margir hverjir ekki meira en hálf laun á við þetta landsverslunarfólk, og það jafnvel menn, sem hafa orðið að kosta bæði tíma og fje til þess að búa sig undir starf sitt, og hafa unnið mörgum árum saman að miklu vandasamari störfum en landsverslunarstörfin eru.

Annars hefi jeg aflað mjer upplýsinga um það, hvað er algengast í þessu efni hjer í bænum á verslunarskrifstofum. Fyrsti maður á stærri skrifstofum mun hafa hæst um 7 þús. kr. Ágætir menn, sem unnið hafa árum saman að starfi sínu, hafa 6 þúsund allra hæst, og margir 5000 og 4000 kr. árskaup, þótt bráðduglegir sjeu. Þá er fjöldi góðra manna og kvenna, sem vinna að skrifstofustörfum fyrir jafnvel 3 þús. kr. árskaup. Sjá allir, að á þessum launum og launum þeim, sem landsverslun borgar, er afarmikill munur. En jeg sje alls enga ástæðu til þess, að ríkið borgi hærra en aðrir, eða hærra en það þarf. Og jeg er sannfærður um, að hægt er fá miklu betra fólk yfirleitt í þjónustu landsverslunarinnar, heldur en þar er nú, fyrir miklu hóflegra kaup en þar er nú borgað. — Hjer tel jeg áfengisverslunina einnig landsverslun, enda er hún það auðvitað.

Þá er óhætt að fullyrða, að valið á mönnunum er alls ekki betra en gerist. Við einkastofnanir er venjulegast valið eftir þekkingu manna á störfunum og leikni þeirra í þeim, en við þessar stofnanir eru menn, sem alls ekki hafa minstu þekkingu á þeim störfum, sem þeir eiga að gegna. Jeg ætla ekki að nefna nöfn, nema þess verði krafist. En mjer finst engin ástæða til að launa við ríkisstofnun illa starfhæft fólk betur en vel starfhæft við stofnanir einstakra manna.

Það liggur líka í augum uppi, að svona hátt kaup hjá fólki, sem alls engu hefir kostað til þess að búa sig undir starf sitt, verður til þess að vekja óánægju hjá þeim starfsmönnum ríkisins, sem hafa lægra kaup og árum saman hafa búið sig undir störf sín. Getur slíkt misrjetti jafnvel leitt af sjer verkföll og önnur slík örþrifaráð. Fyrir skömmu lá við verkfalli hjá símafólki hjer í Reykjavík, og miðuðu þeir kröfur sínar við laun landsverslunarfólksins, en ætluðu þó ekki að krefjast nándar nærri jafnhárra launa. Slíkar kröfur eru auðvitað eðlilegar og á fullri sanngirni bygðar.

Þar sem sú ástæða er færð fyrir þessum háu launum, að atvinna þessara manna sje ótryggari en annara starfsmanna ríkisins, verð jeg að svara því, að störf þessara manna ber alls ekki að miða við starf fastra embættismanna, heldur við starf samskonar manna við einkastofnanir. Starf slíkra manna þar er jafnóvíst og stopult og þarna, og þessi ástæða fyrir hærri launum því einskisverð.

Jeg hefi ekki ætlað mjer að koma fram með neina tillögu í sambandi við þessa fyrirspurn, enda mun það ekki heimilt, samkvæmt þingsköpum. Lýk jeg svo máli mínu með að þakka hæstv. stjórn fyrir svör hennar.