25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg þarf ekki að vera langorður út af því, sem hv. fyrirspyrjandi (BL) sagði. Hann hjelt, að upplýsingarnar væru ekki ábyggilegar, en jeg get fullvissað hann um, að svo er þó. Vinnutími í landsverslun er fullar 7 stundir á degi hverjum, og venjulega 3 í viðbót hjá þeim 6 starfsmönnunum, sem hæst hafa launin.

Þá þótti hv. fyrirspyrjanda launin vera fullhá. Og það er satt, að þau eru hærri en laun embættismanna eru ákveðin, samkvæmt launalögunum. En ef þau eru borin saman við launin hjá Landsbankanum og Eimskipafjelaginu, þá verður annað uppi á teningnum. Vil jeg benda á, að aðalbókari Landsbankans hefir 975 kr. á mánuði og fjehirðir 900 kr. Aðstoðarbókarinn hefir 650 kr. þetta eru laun, sem Alþingi hefir ákveðið. Skrifstofustjóri hjá Eimskipafjelaginu hefir 900 kr., og aðalbókarinn 800. Þetta eru þeir starfsmenn, sem fólki í landsversluninni finst að helst sje sambærilegt við sig. Og þess ber að gæta, að það hefir ekki sömu rjettindi og fastir embættismenn.

Jeg skal loks láta þess getið, að reynt mun eins og mögulegt er að koma jöfnuði á í þessu efni, og um það mun verða sjeð, að ekki verði hafðir fleiri starfsmenn en minst er hægt að komast af með.