25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Magnús Jónsson:

Það var mjög gott að fá skýrslu yfir laun við þessar ríkisstofnanir, því að margar sögur hafa gengið af launakjörunum þar. Má segja, að mörg sje búmannsraunin, og sýnir það best alt það amstur, sem ríkið hefir af þessum stofnunum.

Sjest það best, þegar litið er á launalistann, hve samræmislaus launakjörin á landi hjer geta verið. Símamenn og póstmenn, sem starfað hafa langan tíma í þjónustu ríkisins, þýðir ekki að nefna í þessu sambandi, og ættu þó laun þeirra helst að vera sambærileg við starfsmenn verslananna. Nei. Til þess að fá nokkuð sambærilegt, verður að nefna prófessora við háskólann, skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og dómara í hæstarjetti. En þetta dugir ekkert, þegar um er að ræða þá, sem best eru launaðir við landsverslun og áfengisverslun. Forstöðumaður áfengisverslunarinnar hefir hátt upp í tveggja ráðherra laun og meira en laun tveggja prófessora við háskólann. Forstöðumaður búðarholunnar, þar sem vínin eru seld, hefir eins há laun og hæstarjettardómari, og skrifstofustjóri landsverslunar meira en hæstarjettardómari og ráðherra. Aðstoðarbókhaldari hefir meira en prófessorar við háskólann og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu.

Má vel vera, að þessi laun sjeu nauðsynleg til þess að stofnanirnar geti fengið nýta starfsmenn. En þetta sýnir þá um leið, hve afskaplega mikil vandkvæði eru á því fyrir ríkið að reka svona stofnanir. Býst jeg við að fáum muni finnast það sanngjarnt, að menn, sem hafa 12–14 ár verið að búa sig undir starf sitt, og síðan þurft 10–20 ár til þess að komast í sambærileg embætti að launakjörum við þessa menn í lands- og áfengisverslun, sætti sig við annað eins ósamræmi og þetta. Jafnvel æðstu dómarar landsins hafa ekki eins há laun og einfaldir bókarar. Slíkt er fjarstæða. Annars býst jeg ekki við, að ríkið gæti, þótt það vildi, losnað við áfengisverslunina. En jeg held, að hægt væri að halda betur á fjenu en gert er. Raunar munu nú starfa færri menn en áður við áfengisverslunina, en það finst mjer fjarstæða, að menn með 5400 og 4000 kr. launum þurfi til þess að líma miða á flöskur. Skil jeg ekki annað en að það gætu handfljótar stúlkur gert jafnvel, eins og venja er til í brugghúsum.

Þá virðist fullmikið að borga þeim manni 7200 kr., sem hefir það starf á hendi að færa skrá yfir það, sem hver tekur út, til þess að sjá um, að enginn fái meira en hann má. Virðist það frekar vandalítið starf, einkum ef þess er gætt að starfið er gagnslaust, hvort sem það er vel eða illa unnið.

Ber jeg það traust til stjórnarinnar, að hún geri það, sem hægt er, í því að fækka mönnum.

Í skýrslu hæstv. forsrh. (JM) kom það fram, að tveir menn hafa nýlega orðið að hætta þarna störfum sínum, og engir verið teknir í þeirra stað. Hefir þó ekki heyrst neitt um, að vandræði sjeu á að fá sig afgreiddan.

Eitt vildi jeg spyrja hæstv. forsrh. (JM) um, og er það viðvíkjandi því, sem jeg hefi heyrt, að forstöðumaður birgðanna hafi annað starf á hendi fyrir það opinbera, og taki laun fyrir. Vildi jeg spyrja, hvort þetta væri satt.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hæstv. stjórn geri sitt til að bæta úr misfellunum.