25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Forsætisráðherra (JM):

Mjer finst, að laun starfsmanna þessara stofnana verði að berast saman við laun manna, er vinna við verslunarstörf hjer í bæ. Og við þann samanburð kemur það fram, að þau eru ekki hærri en gerist yfirleitt. Við laun embættismanna ríkisins eru þau ekki sambærileg. Nægir að benda á það, að aðstoðarmaður í stjórnarráðinu, sem hefir varið 14–15 árum til þess að búa sig undir starf sitt og unnið að því í 9 ár, hefir 250 kr. á mánuði, eða eins og sendisveinn í landsversluninni. Það er því ómögulegur samanburður á launum þessara manna og embættismanna ríkisins.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) spurði um það, hvort einn af mönnunum við áfengverslunina hefði annað opinbert starf á hendi. Þetta er rjett, en jeg skal taka það fram, að hann mun láta aðra algerlega gegna hinu starfinu.

Jeg gleymdi að geta þess, að í versluninni er unnið frá 10–6 daglega, að einum tíma frádregnum til matar, og oft er þar unnið framyfir.