25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Sigurjón Jónsson:

Tilgangur vor fyrirspyrjenda var auðvitað enginn annar en sá, að þetta gæti að líkindum leitt til einhvers sparnaðar á starfsmannahaldi verslananna. Að fyrirspurnin hefir ekki verið borin fram að ástæðulausu, sýna þeir atburðir, sem þegar hafa orðið, síðan hún kom fram. Um leið og jeg þakka hæstv. stjórn svör hennar, vil jeg einnig þakka henni fyrir það, sem hún þegar hefir gert við verslunina, síðan hún settist að völdum. Hún hefir fækkað um tvo dýra menn við eina deild áfengisverslunarinnar, er höfðu samtals 16000 kr. í árslaun. „Money saved is money got“, þetta eru græddir peningar fyrir ríkissjóð. Jafnframt vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort ekki muni vera auðið að spara hlutfallslega við aðrar deildir verslunarinnar, þegar hún hefir nú þegar sparað 16000 kr. við eina deildina. Landsverslunin með 13 starfsmenn, að meðtöldum sendisveini, greiðir 84000 kr. í kaup á ári, og tel jeg alveg vafalaust, að þarna megi spara töluvert. Jeg vil benda á, að auk framkvæmdastjóra er skrifstofustjóri, aðalbókhaldari, aðstoðarmaður hans, gjaldkeri o. s. frv. Ætli það væri ekki hugsanlegt, að aðalbókhaldari gæti um leið verið skrifstofustjóri? Það er ekki aðeins hægt, heldur alveg sjálfsagt.

Það, sem kom mjer til að standa upp, voru orð hv. þm. Str. (TrÞ), er hann efaðist um, að tilgangur fyrirspyrjenda væri að spara. Það var tilgangurinn, og það vildi jeg árjetta.