25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Magnús Jónsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) þóttist verða fyrir vonbrigðum við ræðu mína. Honum virtist sem tilgangur hv. aðalfyrirspyrjanda (BL) væri sá, að spara, en annað hafi verið uppi á teningnum, þegar jeg tók til máls. En það var þvert á móti. Jeg vildi láta fyrirspurnina verða til hins mesta sparnaðar, sem hugsanlegt væri, þó að segja megi, að það væri ekki hyggilegt af mjer sem embættismanni, að slá þetta vopn úr höndum okkar. Jeg vildi sýna það til varnaðar, hve hættulegt það gæti verið að hafa þessa háttlaunuðu verslunarmenn ríkisins jafnhliða embættismönnum, sem hafa svo miklu lægri laun. Því fór fjarri, að jeg vildi nota þetta ágæta vopn, sem embættismönnum er hjer fengið í hendur, þar sem jeg sje, hve dýrt það mundi vera fyrir ríkissjóð, ef hækka ætti laun þeirra svo, að nokkur jöfnuður væri á við þessa starfsmenn. Það er vafalaust, þegar litið er á, hve miklu embættismenn hafa kostað til undirbúnings síns og hve mikil ábyrgð fylgir sumum embættum, að þar er um mjög ódýra starfskrafta að ræða, og ættu menn ekki að gera gyllingar til þess, að þeir krefðust ríflegrar launahækkunar.

En eigi að hafa eins færa menn við þessar stofnanir ríkisins eins og við fyrirtæki einstakra manna, þarf auðvitað að launa þeim eins. Ef ríkið færi að gera út togara, væri ekki til nokkurs hlutar að bjóða skipstjóranum embættismannslaun. Hann verður að fá sama kaup sem togaraskipstjórar alment, en ekki eins og t. d. háskólakennarar. Það verður að keppa á þeim grundvelli, sem verið er að berjast á. Mjer virðist því ekki auðið að spara að marki við þessar verslanir, nema hægt verði að fækka og losa sig við sem allra mest af starfsmönnunum. En eina óbrigðula lækningin er sú, að landið hætti þessu verslunarkáki sínu.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að margir starfsmenn ríkisins hefðu ýmis aukastörf með höndum. Mönnum er nú svo farið, að þeir vilja klóra í bakkann í lengstu lög. Það er ekki af því, að þessa menn langi til að hafa óhæfilega miklar tekjur, heldur langar þá til þess að verða ekki óreiðumenn, og reyna þeir því að fá sjer ýmis störf, sem eru óskyld aðalstörfum þeirra og þeim er þvert um geð að vinna. En þeir eru neyddir til þess, svo að þeir geti komist af. Jeg er ekki kunnugur starfsmönnum verslananna og veit því ekki, hvort þeir hafa önnur störf. En frá því hefir nú verið skýrt, að einn þeirra hafi aðra stöðu hjá ríkinu, og annar hefir opna stöðu handa sjer, en ekki veit jeg, hvort hann hefir nokkrar tekjur af henni nú sem stendur. En sumum embættismönnum, svo sem hæstarjettardómurum, er bannað að vinna neitt utan hjá, af því að laun þeirra eru svo afskaplega há, sem kallað er. Þau slaga töluvert upp í laun skrifstofustjóra landsverslunar, og því er mönnunum bannað að vinna önnur störf. Sumir háskólakennarar hafa nokkur aukastörf, en aðrir ekki. Því er misskift, eftir aðstöðu manna, dugnaði og hepni.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að farið hafi verið óhæfilega með fje landsins við aðra þessa stofnun. Það hefði hann átt að sjá fyr, meðan hann átti meiri aðgang að þeim, sem því rjeðu, en það var hæstv. fyrv. stjórn. Og hafi hann vitað það fyr, var það áreiðanlega hans verk að víta það stranglega. (TrÞ: Það hefi jeg gert.) Um seðla-„humbugið“ er jeg honum alveg sammála. Það er algerlega ófært að halda dýrum manni við það.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) þótti hart, að Íhaldsflokkurinn með alt sparnaðarhjalið hefði ekki tekið þessar verslanir alvarlegar til bæna en raun hefir á orðið. Þetta segja menn úti um allan bæ. Það er spurt, hvernig á því standi, að verið sje að spara á háskólanum og hæstarjetti, en ekki hjer. Í fyrsta lagi er þetta ekki nærri því eins greitt aðgöngu, Alþingi nær ekki eins til þess. Þetta er miklu fremur eins og ríki í ríkinu, sjálfstæðar stofnanir, sem ekki er auðvelt að ná til.

Hv. þm. (TrÞ) hneykslaðist á því, að við skyldum treysta stjórninni til að kippa þessu í lag. En það er eina ráðið að fara fram á það við stjórnina, að hún geri þetta, og treysti jeg henni til þess. Alþingi kemst ekki eins vel hjer að eins og stjórnin getur. Eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) gat um, er hæstv. stjórn í raun og veru byrjuð á þessu Fyrir sjerstakt atvik hafa 2 menn farið frá, og ef engin viðleitni væri að draga saman, hefðu auðvitað 2 aðrir verið ráðnir með 10000 og 6000 kr. launum. þessir menn hafa þó unnið eitthvað, og þeir, sem töldu þá nauðsynlega og rjeðu þá, hefðu auðvitað sett aðra í þeirra stað. Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn haldi áfram þessari viðleitni, bíði ekki eftir samskonar hörmungatilfelli, heldur geri það strax.

Eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sagði, er jeg forviða á öllum þessum aðstoðarmönnum, aðstoðarmanni bókara, gjaldkera o. s. frv. Það má vera, að þeir sjeu nauðsynlegir. En það er eins og reynt sje að koma sem hæstu embættisnafni á þá, til þess að þeir fái því hærri laun. Ef maður hefir bókaranafnbót, verður eitthvað auðvitað að fylgja henni. Það er komið niður úr öllum þessum, þegar komið er til móts t. d. við kennara mentaskólans. Þá er komið niður úr öllum aðal- og aðstoðarbókurum og gjaldkerum og niður í óbreytta hermenn. Það er áreiðanlegt, að hjer má spara, og hygg jeg, að Íhaldsflokkurinn fylgist alveg jafnvel að í sparnaði á þessu sviði sem öðrum, þó að hann komi ekki eins ljóslega fram, því að ástæðurnar eru nokkuð aðrar.