06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hjer hefir verið spurt um tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu. Handveð það, er ríkið hefir, eru allmargir víxlar, sem bankinn á, og eru geymdir í járnskáp með innsigli fjármálaráðuneytisins. Upphæð handveðsins er rúmar 6,800,000 kr. Þannig var síðast gengið frá tryggingunni, 24. febr. 1924. Breyting á henni mun næst verða gerð, er fyrstu víxlarnir falla í gjalddaga, og það er 10. júní n. k.

Um gæði eða verðgildi hinna einstöku víxla get jeg ekki gefið neinar ákveðnar upplýsingar, af þeirri ástæðu, að jeg hefi ekki álitið rjett að brjóta innsiglið fyrir hirslu þeirri, sem þeir eru geymdir í, þar sem jeg lít svo á, að þeir hafi verið teknir gildir sem handveð af þeirri stjórn, sem þá sat að völdum, og hafa verið taldir fullnægjandi veð fyrir láninu, til 10. júní þ. á. Jeg skal ennfremur taka það fram, að þó mjer væri vel kunnugt um, hvernig háttað væri fjárhag og kringumstæðum þeirra firma og einstakra manna, sem á víxlunum standa, teldi jeg mjer þó ekki leyfilegt að gefa hjer skýrslu um það.

Jeg hefi nú skýrt frá því, hvernig þessum tryggingum er háttað, og hversu háum upphæðum þær nema, og gæti því vel látið hjer staðar numið, en jeg vil þó, út af þeim orðum, sem hv. fyrirspyrjandi fór um þetta mál alment, geta þess, að á þinginu 1921 var svo gengið frá þessu máli, að gefin voru út tvenn lög um það. Önnur lögin fjalla um seðlaútgáfu Íslandsbanka og hlutafjáraukningu, og eru nr. 6, frá 31. maí það ár, hin lögin eru heimildarlög handa ríkisstjórninni til að taka lán til þess að kaupa fyrir hlutabrjef í Íslandsbanka, ef stjórninni sýndist svo. Af þessum ákvæðum, um heimild til hlutakaupa í Íslandsbanka, leiddi það, að þegar stjórninni var heimilað að verja lánsfjenu til stuðnings bankanum á þenna hátt, varð ekki krafist sjerstakra trygginga. Bankinn gat ekki sett neinar sjerstakar tryggingar fyrir lánsfjenu, ef því var varið til hlutabrjefakaupa í bankanum, og var ekki einu sinni ætlast til, að brjefin yrðu forgangshlutabrjef, enda hvergi vikið að því í lögunum. Nú var horfið frá því ráði að kaupa hlutabrjef í bankanum, en honum var afhent þetta fje sem lán, en þá var bankinn látinn setja tryggingar fyrir láninu og eru þær það, sem áður var greint frá. En því er nú svo varið, hvað sem um þetta hefir annars verið sagt, að fje, sem bankanum er veitt sem lán, er miklu betur trygt en það fje, sem varið er til hlutabrjefakaupa í bankanum, jafnvel þótt engin sjerstök trygging sje sett fyrir láninu. Því fyr verður alt hlutafjeð að ganga til þurðar en nokkurt tap geti lent á reglulegum skuldeigendum bankans, t. d. ríkissjóði, þó ekki væri fremur sett veð en fyrir venjulegu innlánsfje. En nú var í þetta sinn krafist sjerstakrar tryggingar fyrir þessu fje, sem ríkissjóður lánaði bankanum. Eru tryggingarnar í því formi, sem áður var sagt, og voru upphaflega 6 milj. kr., en hafa síðan verið hækkaðar upp í það, sem þær eru nú, með samkomulagi við bankann.

Jeg hefi nú gefið þessa skýrslu, og mun ekki ræða þetta mál frekar, nema mjer verði gefið sjerstakt tilefni til þess.