06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, því jeg ætla mjer ekki að lengja þessar umr. Ef öðruvísi hefði staðið á en nú, er þinglausnir fara í hönd, hefði máske verið ástæða til að tala eitthvað fleira um þetta, en nú sje jeg sem sagt ekki ástæðu til þess. það er aðeins þetta, sem jeg vildi sagt hafa:

Hæstv. fjrh. (JÞ) mintist á enska lánið og lán það, sem Landsbankinn nýlega hefir tekið, og er það rjett, að það er miklu hagstæðara en hið fyrnefnda, og af því mætti vel draga þá ályktun, að kleift muni vera t. d. að losna við enska lánið með nýju, hagstæðara láni. Þetta mætti vel verða tekið til athugunar síðar. Landsbankalánið bendir ótvírætt í þá átt, og þau skilyrði eru einnig fest við þetta enska lán, sem jeg hygg, að landsmenn telji óþægilegt að þurfa að búa við.