06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3413)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er engum blöðum um það að fletta, að lán það, sem Landsbankinn fjekk, var með hagstæðari kjörum en þetta lán, sem tekið var 1921. Vextirnir af því láni eru svo háir, að ekki verður hjá komist, að útlánsvextir hjer hljóti að vera það sömuleiðis á meðan vinna verður með svo dýru fje. Hvað hitt snertir, þá er auðvitað sjálfsagt að hafa vakandi auga á því, hvort ekki sje hægt að ljetta á þessu þungbæra láni með öðru ódýrara. Jeg hygg þó, að þetta verði ekki unt fyr en í fyrsta lagi 1931, því að svo er um samið, að landið hefir ekki rjett til að borga lánið fyr en eftir 10 ár. Þó veit jeg ekki, nema unt væri að ná einhverju af þeim brjefum fyr, sem út hafa verið gefin fyrir þessu láni, en þá eingöngu með frjálsum kaupum. En hvað sem öðru líður, þá verður þó að minsta kosti að hugsa fyrir þeim tíma, sem lánið verður til innlausnar, svo að unt verði þá að bæta þessi lánskjör.

Út af orðum hv. fyrirspyrjanda (BSt) skal jeg svo taka það fram, að þegar svo stæði á, að hagsmunir bankanna og ríkisins rækjust á að einhverju leyti, þá mundi ríkisstjórnin að sjálfsögðu draga taum ríkisins.