06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jakob Möller:

Það lá við, að orð hv. 2. þm. Reykv. (JBald) áðan, um yfirsjónir Íslandsbanka, væru helst til meinleg hans eigin prógram-máli, því það, sem hann liggur Íslandsbanka hjer einkum á hálsi fyrir, er einmitt í anda jafnaðarstefnunnar. Bankinn gerði sig einmitt sekan í því, sem þessir menn eru einatt að staglast á að gera þurfi, en það var að koma framleiðslunni að talsverðu leyti á eina hönd. Að vísu ætlast jafnaðarmenn til, að öllu sje komið á hönd ríkisins, en þetta ætti þó að vera spor í áttina, frá þeirra sjónarmiði, að mikill rekstur sje þannig sameinaður á einni hendi. En þetta varð bankanum einmitt að fótakefli. Slíkt getur einnig komið fyrir, þótt ríkiseinkasala eigi hlut að máli. það er nú einu sinni svo, að ef samtök og hringir eru gerðir um svona rekstur, eða hann er einokaður, þá verða allir skellir, sem á honum lenda, langtum alvarlegri fyrir þjóðina. Við fengum greinilega að þreifa á þessu, þegar fiskhringurinn varð gjaldþrota. Hafi nú gengisfallið verið að miklu leyti því að kenna, þá er það bersýnilegt, að hættan yrði engu minni, ef eitthvað líkt kæmi fyrir ríkiseinkasölu. — Jeg vildi aðeins skjóta þessu fram til athugunar, en ekki af því, að jeg búist við, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) gangi af trúnni fyrir það.

Hv. þm. (JBald) talaði um, að bankarnir hefðu hag af gengisfallinu. Þeir hafa það máske í bili, en það er ávalt skammgóður vermir, því að þeir tapa þeim mun meir á eftir, og eins er um framleiðendurna. Reynslan er sú í öllum löndum, að þegar til lengdar hefir látið, þá hefir gengisfallið orðið þeim til tjóns. Það er nefnilega óumflýjanlegt, að gengisfallið verkar þannig, að vörur falla í verði; í því liggur aðaltapið. þetta mun líka vera ljóst fyrir atvinnurekendum á þessu sviði, að minsta kosti hefi jeg ekki orðið var við neina hvöt hjá þeim til að stuðla að gengisfalli.