06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3416)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Baldvinsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) fer heldur vilt í því, að líkja jafnaðarstefnunni við Coplandshringinn. Á þessu tvennu er sá höfuðmunur, að fiskhringurinn var stofnaður til að braska með vörurnar, en ríkið myndi reka heilbrigða verslun, og það myndi enga tilhneigingu hafa til þess að „spekúlera“ með afurðirnar. Það, sem olli ógæfunni um árið, var, að fiskhringurinn lá með vörur sínar, í því skyni að sprengja þær upp, þangað til alt sprakk. Það myndi verða á alt annan veg framkvæmd á afurðasölunni eftir kenningum jafnaðarmanna. Íslenska ríkið hefir og haft á hendi afurðasölu, og gekk það ágætlega; má þar til dæmis benda á sölu síldar 1918 og bera saman við sölu síldar í höndum einstaklinga næstu ár á eftir.

Lögbundinn fjelagsskapur atvinnurekenda um afurðasölu er náttúrlega betri en það óstand, sem nú er, en þó því aðeins, að ríkið hafi þar hönd í bagga. En atvinnurekendur fást ekki einu sinni til þessa. En hitt, að líkja fiskhringnum við ríkiseinkasölu, er jafnfráleitt eins og að líkja gömlu einokunarverslunni, sem var í höndum erlendra manna og annars ríkis, við þá landsverslun, sem nú er, og sem margir hafa heimskað sig á að líkja saman.