06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (3417)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Auðunn Jónsson:

Það er þetta sama, sem nú hefir komið fram hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og margir hafa áður haldið fram, að bankamir græði á gengisfallinu. Það er nú vitanlegt, að árið 1921, meðan enn var jafngengi íslenskrar og danskrar krónu, þá skulduðu bankarnir margar miljónir í Danmörku. Hefði þá verið nokkurt vit í því fyrir bankana hjer að stuðla til þess, að gengið á íslensku krónunni lækkaði, og á þann hátt að hækka skuldirnar erlendis? Hvað myndi hv. þm. (JBald) hafa gert, ef hann 1921 hefði átt í íslenskum krónum 2,250,000 kr., en skuldað 1 milj. í dönskum krónum og 1 milj. í íslenskum krónum? Ef jafngengi hefði þá verið á milli landanna, þá hefði skuldlaus eign hans numið 250 þús. kr. Ef hv. þm. (JBald) ætti nú í ár þessa upphæð — 2,250,000 kr., í íslenskum krónum en skuldaði svo í dönskum krónum 1 milj. og í íslenskum krónum 1 milj., þá væri hann nú, vegna gengismunarins. — dönsk kr. á 1,25 — algerlega eignalaus maður, sökum þess, að hann yrði að greiða dönsku miljónina með 1,250,000 íslenskum krónum. Ella væri eign hans 1/4 miljón kr. — Myndi hv. þm. (JBald), ef svona stæði á, hafa óskað eftir gengisfalli og stutt að því alt frá 1921? Jeg hygg ekki. Og það er engin ástæða til, að bankarnir myndu fremur gera það, því eins og hv. þm. getur sjeð af þessu dæmi, þá geta þeir ekki haft neinn hagnað af því, heldur stórtap.

Á sama hátt skal jeg færa hv. þm. (JBald) sönnur á, að forgangshlutir eru ekki eins góðir og handveð. Jeg tek t. d., að hv. þm. (JBald) vilji hjálpa einhverju hlutafjelagi um 6000 kr., honum stæði til boða að fá handveð fyrir 4000 kr., en hann kysi heldur að taka forgangshluti fyrir allri upphæðinni. Segjum, að hlutafjeð væri 6000 kr., forgangshlutafje hans 6000, og aðrar skuldir 10,000, samtals 22 þús. kr. Eignir 1921 30 þús. kr., og þá skuldlausar eignir kr. 8000. Árið 1924 væri hagur fjelagsins sá, að skuldir væru 25 þús. kr., hlutafje 6000, forgangshlutafje hans 6000, samtals 37,000 kr., en eignir 25 þús. kr.

Hlutafje og forgangshlutafje væri þá alt tapað, og myndi hv. þm. því hafa verið betra að lána þessar 6000 kr. gegn handveði. Eða hvað finst hv. 2. þm. Reykv. (JBald)?

Jeg set þessi dæmi fram aðeins til athugunar. en ekki af því, að jeg búist við, að hv. 2 þm. Reykv. (JBald) gangi fyrir það af trúnni, eins og hv. samþm. hans (JakM) komst að orði. Hinsvegar vona jeg að öllum hv. þdm. sjeu þessi dæmi fullljós og fjölyrði ekki frekar um málið.